Félagsmálaráðuneyti

296/1998

Reglugerð um greiðslur í fæðingarorlofi. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um greiðslur í fæðingarorlofi.

I. Gildissvið.

1. gr.

            Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslur í fæðingarorlofi í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar þegar um er að ræða:

a.         fæðingu

b.         frumættleiðingu barns undir fimm ára aldri

c.         töku barns undir fimm ára aldri í varanlegt fóstur

d.         fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu

e.         andvanafæðingu eftir 22ja vikna meðgöngu.

2. gr.

            Rétt til greiðslna í fæðingarorlofi samkvæmt reglugerð þessari á foreldri sem átt hefur lögheimili hér á landi undanfarna 12 mánuði fyrir fæðingu barns. Uppfylli foreldri ekki lögheimilisskilyrðið er heimilt að taka mið af lögheimilistíma maka eða skráðs sambýlismanns/konu, enda hafi viðkomandi átt lögheimili hér á landi undanfarna 12 mánuði.

            Hafi verið gerðir samningar við önnur ríki (samningsríki) varðandi rétt til greiðslna úr almannatryggingum skal taka til greina búsetu- eða starfstímabil í þeim ríkjum, síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns að því marki sem nauðsynlegt er til að uppfylla lögheimilisskilyrðið, enda hafi foreldri jafnframt verið tryggt vegna meðgöngu og fæðingar í samningsríki á sama tíma.

            Ef hvorugt foreldra uppfyllir skilyrði um 12 mánaða lögheimili hér á landi er heimilt að taka til greina þann tíma sem eftir er af greiðslutíma fæðingarorlofs þegar 12 mánaða tímabilinu er náð.

3. gr.

            Móðir á rétt á greiðslu fæðingarstyrks og eftir atvikum fæðingardagpeninga í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

            Að ósk móður getur faðir fengið greidda fæðingardagpeninga í stað hennar, enda eigi móðir rétt á fæðingardagpeningum. Í þeim tilvikum skal móðir þó ávallt fá greidda fæðingardagpeninga í a.m.k. einn mánuð eftir fæðingu barns. Foreldrar geta samkvæmt ákvæði þessu skipt með sér greiðslum fæðingardagpeninga eða verið í fæðingarorlofi saman, þó þannig að fæðingardagpeningar til þeirra nemi samtals ekki meira en sex mánaða greiðslum. Taki foreldrar samanlagt ekki allt það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á falla niður fæðingardagpeningar fyrir þann tíma sem ekki er nýttur.

4. gr.

            Faðir, sem er í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barns, á tveggja vikna sjálfstæðan rétt til greiðslna í fæðingarorlofi í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, sbr. nánari ákvæði í 17. gr. Notfæri faðir sér ekki þennan rétt fellur hann niður. Réttur föður samkvæmt ákvæði þessu er óháður því hvort móðir eigi rétt til greiðslna í fæðingarorlofi.

5. gr.

            Félagsmenn í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga, er njóta óskertra dagvinnulauna í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi frá Tryggingastofnun ríkisins, þann tíma sem launin eru greidd.

            Ef tímabil greiðslna samkvæmt kjarasamningum sbr. 1. mgr. er styttra en réttur samkvæmt reglugerð þessari getur foreldri sótt um greiðslur í fæðingarorlofi til Tryggingastofnunar ríkisins vegna þess tímabils sem á vantar.

II. Greiðslur í fæðingarorlofi.

Tegundir greiðslna og fjárhæðir.

6. gr.

            Greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins í fæðingarorlofi eru annars vegar fæðingarstyrkur og hins vegar fæðingardagpeningar.

            Fæðingarstyrkur nemur kr. 30.774 á mánuði og greiðist öllum sem rétt eiga á greiðslum í fæðingarorlofi samkvæmt reglugerð þessari í samræmi við tímabil orlofs.

            Fæðingardagpeningar nema tvöföldum sjúkradagpeningum einstaklings eins og þeir eru ákvarðaðir á hverjum tíma. Um rétt til greiðslna fæðingardagpeninga er nánar fjallað í III. kafla reglugerðar þessarar.

Greiðslutímabil.

Vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.

7. gr.

            Fæðingarstyrk og eftir atvikum fæðingardagpeninga skal greiða í sex mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur.

Vegna fjölburafæðingar.

8. gr.

            Ef um er að ræða fjölburafæðingu skal framlengja greiðslur í fæðingarorlofi um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt, enda fæðist tvö eða fleiri börn lifandi.

Vegna heilsufars móður eða barns.

9. gr.

            Sé barnshafandi konu nauðsynlegt af heilsufars- eða öryggisástæðum að leggja niður störf og launagreiðslur falla niður meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma, þó aldrei lengur en í 60 daga. Hið sama á við ef kona tefst í námi eða getur ekki hafið vinnu að námi loknu vegna veikinda á meðgöngu. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til framlengingar samkvæmt ákvæði þessu niður frá þeim tíma.

            Með heilsufars- og öryggisástæðum er hér átt við:

1.         Sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni.

2.         Sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni.

3.         Fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.

            Umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt þessari grein skal fylgja staðfesting vinnuveitanda. Í þeirri staðfestingu þarf að koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.

            Ef fyrir hendi er réttur til hærri greiðslna sjúkradagpeninga en fæðingardagpeninga getur viðkomandi valið að fá greidda sjúkradagpeninga auk fæðingarstyrks. Réttur til greiðslna fæðingardagpeninga fellur þá niður þann tíma.

10. gr.

            Heimilt er að framlengja greiðslur í fæðingarorlofi um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður sem er í fæðingarorlofi.

11. gr.

            Þurfi barn að dvelja lengur en 7 daga á sjúkrahúsi í beinu framhaldi af fæðingu, vegna veikinda eða þegar um er að ræða fyrirbura, er heimilt að framlengja greiðslur í fæðingarorlofi um allt að 4 mánuði. Upphaf greiðslna miðast við fæðingardag barns og lok við fyrstu heimkomu barns eftir fæðingu. Ef barn innritast á sjúkrahús að nýju veitir það ekki rétt til frekari framlengingar samkvæmt ákvæði þessu.

            Ef um fjölburafæðingu er að ræða gildir dvalartími þess barns sem lengur/lengst dvelst á sjúkrahúsinu.

12. gr.

            Ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris, framlengjast greiðslur í fæðingarorlofi um allt að 3 mánuði.

            Greiðslur samkvæmt ákvæði þessu geta átt sér stað í framhaldi af allt að 4ra mánaða framlengingu vegna sjúkrahússvistar barns sem dvelur á sjúkrahúsi lengur en 4 mánuði eða í framhaldi af útskrift.

13. gr.

            Umsóknir um framlengingu á greiðslum í fæðingarorlofi skv. 10. - 12. gr. skulu studdar læknisvottorði. Tryggingayfirlæknir skal staðfesta að framlenging sé nauðsynleg.

Vegna fósturláts.

14. gr.

            Greiða skal bætur í fæðingarorlofi í tvo mánuði vegna fósturláts eftir 18 vikna meðgöngu. Leggja skal fram læknisvottorð til staðfestingar á lengd meðgöngu.

Vegna andvanafæðinga.

15. gr.

            Greiða skal bætur í fæðingarorlofi í þrjá mánuði vegna andvanafæðingar eftir 22ja vikna meðgöngu. Leggja skal fram læknisvottorð til staðfestingar á lengd meðgöngu.

Sérákvæði vegna ættleiðingar, varanlegs fósturs og varanlegrar dvalar á stofnun.

16. gr.

            Ef fleiri en eitt barn undir fimm ára aldri eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á sama tíma skal framlengja greiðslur í fæðingarorlofi um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.

            Greiðslur í fæðingarorlofi til foreldra falla niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, fósturs eða til varanlegrar dvalar á stofnun. Í þessum tilvikum skulu greiðslur þó aldrei inntar af hendi í skemmri tíma en tvo mánuði.

Fæðingarorlof feðra.

17. gr.

            Faðir, sem er í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barns, á sjálfstæðan rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í tvær vikur, sem taka má hvenær sem er á fyrstu átta vikum eftir fæðingu eða heimkomu barns.

            Ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður á faðir rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í fjórar vikur. Faðir á jafnframt rétt á greiðslum í fæðingarorlofi í tvær vikur til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt, ef um fjölburafæðingu er að ræða.

            Umsókn föður um greiðslur í fæðingarorlofi skal fylgja yfirlýsing vinnuveitanda þess efnis að faðir muni leggja niður launuð störf þann tíma sem greiðslur í fæðingarorlofi eru inntar af hendi.

            Notfæri faðir sér ekki rétt samkvæmt ákvæði þessu fellur hann niður. Réttur föður samkvæmt ákvæði þessu er óháður rétti móður og almenn ákvæði reglugerðar þessarar um greiðslu fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga eiga við um greiðslur til föður eftir því sem við á.

Heimild til að skipta töku fæðingarorlofs.

18. gr.

            Fæðingarorlof skal að jafnaði taka í einu lagi. Tryggingaráð getur þó, þegar sérstaklega stendur á heimilað að foreldri fresti hluta fæðingarorlofs. Hvert tímabil má þó ekki vera skemmra en mánuður, sbr. þó 4. og 17. gr. varðandi fæðingarorlof feðra.

Upphaf greiðslna.

19. gr.

            Að jafnaði skulu greiðslur í fæðingarorlofi miðast við fæðingardag barns. Þó má hefja greiðslur í fæðingarorlofi allt að 30 dögum fyrir áætlaðan fæðingardag, sem staðfestur hefur verið, enda hafi móðir lagt niður launuð störf er greiðslur í fæðingarorlofi hefjast.

            Hafi barnshafandi kona lagt niður launuð störf vegna veikinda á meðgöngu og að uppfylltum skilyrðum 9. gr. skal heimilt að hefja greiðslur í fæðingarorlofi allt að 60 dögum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.

20. gr.

            Þegar um er að ræða frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sbr. 1. gr. skulu greiðslur í fæðingarorlofi hefjast við komu barns á heimili, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir bærir aðilar ráðstöfunina.

            Ef barn sem ættleiða á er sótt til annars lands skal ættleiðandi foreldri heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf utanlandsferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn muni ættleitt.

III. Ákvörðun fæðingardagpeninga.

Viðmiðunartímabil.

21. gr.

            Fjárhæð fæðingardagpeninga ákvarðast af þeim dagvinnustundafjölda sem foreldri hefur unnið á vinnumarkaði hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir töku fæðingarorlofs.

            Þegar innan við 12 mánuðir líða frá lokum fyrra fæðingarorlofs til upphafs hins síðara skulu greiðslur í síðara fæðingarorlofi ekki vera lægri en í hinu fyrra.

Vinnuframlag.

22. gr.

            Dagvinnustundir í merkingu reglugerðar þessarar eru allar vinnustundir allt að 40 stundum á viku án tillits til þess á hvaða tíma sólarhrings þær eru unnar.

            Fullra fæðingardagpeninga njóta þeir sem unnið hafa 1.032 - 2.064 dagvinnustundir á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs.

            Hálfra fæðingardagpeninga njóta þeir sem unnið hafa 516 - 1.031 dagvinnustund á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs.

Launþegar.

23. gr.

            Hafi umsækjandi unnið launuð störf skal hann leggja fram vottorð launagreiðanda sem staðfestir vinnustundafjölda og launagreiðslur síðastliðna 12 mánuði fyrir töku fæðingarorlofs. Sé um fleiri en einn launagreiðanda að ræða skal lagt fram vottorð frá sérhverjum þeirra.

            Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að krefjast gagna sem sýna fram á að umsækjandi hafi haft tekjur í samræmi við upp gefnar vinnustundir.

Sjálfstæðir atvinnurekendur.

24. gr.

            Foreldri, sem rekur sjálfstæða atvinnustarfsemi og vinnur við hana, án þess að þiggja laun sem launþegi, skal sanna launagreiðslur með skattframtali, staðfestingu löggilts endurskoðanda, staðfestingu lífeyrissjóðs um greiðslu iðgjalda eða á annan fullnægjandi hátt.

            Sé um að ræða launuð störf við gæslu barna í heimahúsi, telst heilsdagsgæsla eins barns í 12 mánuði nema fjórðungi úr fullu starfi, eða 516 dagvinnustundum. Leggja skal fram staðfestingu á starfsleyfi og tekjum.

Námsmenn.

25. gr.

            Foreldri, sem stundað hefur nám á síðastliðnum 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs, skal fá námið metið til dagvinnustunda og telst fullt nám jafngilda fullri vinnu.

            Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur.

            Verklegt nám, sem stundað hefur verið á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs skal meta til jafns við atvinnuþátttöku.

Atvinnulausir.

26. gr.

            Hafi foreldri sannanlega notið atvinnuleysisbóta á síðastliðnum 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs skal það jafngilda vinnnuframlagi samkvæmt reglugerð þessari.

Veikindi foreldra.

27. gr.

            Hafi foreldri af heilsufarsástæðum látið af launuðum störfum, skal veikindatíminn teljast jafngildur vinnuframlagi samkvæmt reglugerð þessari, enda hafi foreldri átt rétt á greiðslu launa eða sjúkra- eða slysadagpeninga á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs.

            Áætlað vinnuframlag samkvæmt 1. mgr. skal miðað við þau laun eða þá dagpeninga sem foreldri átti rétt á á veikindatímabilinu.

Vinnustundir í öðrum samningsríkjum.

28. gr.

            Við ákvörðun fæðingardagpeninga skal taka til greina tryggingatímabil í öðrum samningsríkjum ef foreldri hefur unnið hér á landi í a.m.k. 160 dagvinnustundir á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

            Að öðru leyti gilda sömu reglur vegna atvinnuþátttöku í öðrum samningsríkjum og um atvinnuþátttöku hér á landi.

IV. Almenn ákvæði.

29. gr.

            Tryggingastofnun ríkisins er, þrátt fyrir 12 mánaða lögheimilisskilyrði skv. 2. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk og eftir atvikum fæðingardagpeninga þegar um er að ræða:

a.         Foreldra, sem hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. 5 ár fyrir flutning. Skilyrði samkvæmt ákvæði þessu er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldrar eigi ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi frá þeim. Ef fyrir hendi er réttur til greiðslna úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en fæðingarorlofsréttur hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða mismun sem því nemur.

b.         Foreldra, sem eignast barn eftir flutning til fastrar búsetu erlendis, og fullnægja skilyrðum III. kafla reglugerðar þessarar til greiðslu fæðingardagpeninga.

c.         Foreldra, sem íslenska ríkisstjórnin hefur veitt hæli hér á landi sem flóttamönnum.

            Við ákvörðun greiðslna í fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði þessu ber að draga frá greiðslur sem foreldri nýtur úr almannatryggingum vegna sömu fæðingar í öðru landi. Með umsókn skulu fylgja gögn sem staðfesta hvort foreldri hafi notið fæðingarorlofsgreiðslna frá öðru landi, fjárhæðir þeirra og tímabil.

            Tryggingaráð úrskurðar um ágreining um ákvörðun greiðslna í fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði þessu, sbr. 33. gr.

30. gr.

            Enginn getur notið greiðslna í fæðingarorlofi samtímis umönnunargreiðslum vegna sama barns eða sömu fæðingar og hvorki er heimilt að greiða sjúkradagpeninga né lífeyrisgreiðslur samhliða fæðingardagpeningum. Eigi foreldri rétt á fleiri en einni tegund greiðslna getur það valið þær greiðslur sem hærri eru.

            Þegar saman fara veikindi móður og barns/barna skal framlengja greiðslur í fæðingarorlofi sem svarar veikindatíma móður eða barns og miða við það sem veitir betri rétt.

31. gr.

            Greiðslur frá öðrum löndum vegna sömu fæðingar og fyrir sömu tímabil koma til frádráttar greiðslum í fæðingarorlofi skv. reglugerð þessari.

32. gr.

            Vilji foreldri hefja störf að nýju áður en lokið er fæðingarorlofi skal það tilkynnt Tryggingastofnun ríkisins fyrirfram. Fæðingardagpeningar falla þá niður þann tíma sem ekki er nýttur.

33. gr.

            Rísi ágreiningur um greiðslur í fæðingarorlofi skv. reglugerð þessari getur foreldri eða lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins óskað úrskurðar Tryggingaráðs.

            Tryggingaráð skal úrskurða um slíkan ágreining innan mánaðar frá því kæra barst.

34. gr.

            Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 15., 16., 16. gr. a, 54. og 66. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um fæðingarorlof nr. 546/1987, með síðari breytingum, og 1. - 5. gr. og 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 655/1994.

Ákvæði til bráðabirgða.

            Ákvæði reglugerðar þessarar um aukinn rétt til greiðslna í fæðingarorlofi gilda frá 1. janúar 1998. Foreldri sem fellur undir ákvæði reglugerðarinnar getur sótt um fæðingarorlof samkvæmt reglugerðinni vegna fæðingar fyrir 1. janúar 1998 í þann tíma sem eftir er af fæðingarorlofstímabili 1. janúar 1998, enda uppfylli foreldri önnur skilyrði reglugerðarinnar til greiðslu fæðingarstyrks og eftir atvikum fæðingardagpeninga.

            Tryggingastofnun ríkisins skal fyrir 1. september 1998 setja almennar reglur um hvað skuli teljast viðurkennt nám.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 19. maí 1998.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica