Félagsmálaráðuneyti

493/1996

Reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til stofnframkvæmda í grunnskólum sveitarfélaga með 2.000 íbúa og þar yfir. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til stofnframkvæmda

í grunnskólum sveitarfélaga með 2.000 íbúa og þar yfir.

 

1. gr.

Á árunum 1997-2001 greiðir ríkissjóður allt að 265 millj. kr. á ári til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að styrkja framkvæmdir við grunnskólabyggingar. Framlagið verður greitt sjóðnum með jöfnum mánaðarlegum greiðslum fyrir 15. hvers mánaðar. Til viðbótar leggur sjóðurinn fram í sama skyni á árunum 1997-2002 135 millj. kr. á ári.

 

2. gr.

Framlögum þessum skal varið til að greiða allt að 20% af normkostnaði við grunnskólabyggingar í sveitarfélögum með 2.000 íbúa og þar yfir á árunum 1997-2002. Ákvörðun um normkostnað skal byggjast á reglum sem menntamálaráðherra setur á grundvelli 20. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, með síðari breytingum.

Við ákvörðun framlaga við upphaf og lok tímabilsins skal miða við byggingarstig framkvæmda 1. janúar 1997 og 31. desember 2002.

 

3. gr.

Samband íslenskra sveitarfélaga skal beita sér fyrir gerð heildaráætlunar um þörf fyrir grunnskólabyggingar við einsetningu grunnskóla. Áætlun þessi skal vera tilbúin fyrir lok október 1996.

4. gr.

Umsóknum um stofnframlög samkvæmt reglugerð þessari skal skila til félagsmálaráðuneytisins fyrir 1. september ár hvert vegna framkvæmda á næsta ári. Umsóknirnar skulu vera á eyðublöðum sem Jöfnunarsjóður sveitarfélaga lætur útbúa. Umsóknunum skulu fylgja málsettar grunnmyndateikningar í stærð A3, sundurliðuð kostnaðaráætlun, greinargerð um framkvæmdina og aðrar nauðsynlegar upplýsingar og fylgigögn.

 

5. gr.

Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga gerir tillögur til ráðherra um úthlutun framlaganna.

6. gr.

Úthlutuð framlög hvers árs skulu greidd sveitarfélögum í tvennu eða þrennu lagi eftir framkvæmdahraða, umfangi framkvæmdar og fjárhagsstöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Áður en til greiðslu kemur skulu liggja fyrir gögn frá sveitarfélagi um framkvæmdastig og framkvæmdakostnað staðfest af löggiltum endurskoðanda sveitarfélagsins. Heildarframlag skal ekki greitt fyrr en búið er að framkvæma fyrir jafnvirði þess eða hluta þess, greiðist framlagið í tvennu eða þrennu lagi, enda hafi jafnframt verið framkvæmt fyrir mótframlag sveitarfélagsins. Jöfnunarsjóðurinn lætur útbúa sérstakt eyðublað sem sveitarfélög skulu útfylla og senda sjóðnum þegar þau óska eftir greiðslum.

 

7. gr.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skal skila umsóknum um stofnframlög til félagsmálaráðuneytisins fyrir 15. október 1996 vegna framkvæmda á árinu 1997.

 

Félagsmálaráðuneytinu, 6. september 1996.

 

Páll Pétursson.

Húnbogi Þorsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica