Sjávarútvegsráðuneyti

147/1998

Reglugerð um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

1. gr.

                Þegar framleiðandi veðsetur framleiðslu sína við töku afurðaláns hjá viðskiptabanka eða öðrum lánveitanda skal hann greiða 8%, sbr. 3. gr., af samanlögðu hráefnisverði hvers skips skv. sölureikningi, sem lagði hráefni til vinnslunnar, inn á sérstaka bankareikninga. Þegar greiðslan er innt af hendi skal tiltaka skipaskrárnúmer viðkomandi skips, nafn skipsins, einkennisstafi, nafn eiganda skips, dagsetningu afhendingar afla, dagsetningu greiðslu og upphæð greiðslu. Veðsetji framleiðandi eða annar fiskkaupandi ekki fiskafurðir sínar skal hann eigi að síður inna þessa greiðslu af hendi innan fjórtán daga frá því fiskurinn var afhentur. Sambærileg skylda hvílir á þeim sem taka fiskafurðir í umboðssölu.

                Viðskiptabanki útvegsmanns skal við gjaldeyrisskil leggja 8% af brúttósöluverðmæti ísfisks samkvæmt sölureikningi, sem seldur er í erlendri höfn inn á samskonar bankareikning og skulu samskonar upplýsingar gefnar upp. Komi ekki til gjaldeyrisskila skal seljandi fisksins inna greiðsluna af hendi innan 14 daga frá því fiskurinn var afhentur.

                Sama greiðsluskylda og að framan greinir hvílir á útvegsmönnum veiðiskipa sem vinna og frysta afla um borð og miðast þá 8% greiðslan við skilaverðmæti framleiðslunnar og fellur í gjalddaga við gjaldeyrisskil eða í síðasta lagi innan 14 daga frá því fiskurinn var afhentur.

                Ákvæði þessarar greinar ná ekki til opinna báta og þilfarsbáta sem samkvæmt skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eru undir 10 lestum, sbr. 2. gr.

2. gr.

                Framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur svo og þeir sem taka sjávarafurðir í umboðssölu skulu greiða 8,4% af samanlögðu hráefnisverði þess afla, samkvæmt sölureikningi, sem þeir taka við af opnum bátum og þilfarsbátum undir 10 lestum, inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning smábáta hjá Lífeyrissjóði sjómanna eftir sömu reglum og greinir í 1. gr., eftir því sem við getur átt.

3. gr.

                Sá banki sem tekið hefur á móti greiðslu skv. 1. gr. skal þegar í stað miðla fénu á þennan hátt:

1.             6% af hráefnisverði greiðist inn á vátryggingarreikning skipsins hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.

2.             2% af hráefnisverði greiðist inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa hjá Lífeyrissjóði sjómanna.

4. gr.

                Fé því, sem safnast á greiðslumiðlunarreikning smábáta skv. 2. gr. skal skipta mánaðarlega og færa til tekna á bankareikninga í þessum hlutföllum:

1.             Til lífeyrissjóða sjómanna                   37,5%

2.             Til Landssambands smábátaeigenda til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja, samskonar þeim sem samið er um í heildarkjarasamningum sjómanna og útvegsmanna, þar á meðal vegna grásleppuveiða, svo og af vátryggingu báts, og eiga þessi ákvæði við allar veiðar smábáta, einnig við grásleppuveiðar, samkvæmt reglum sem sjávarútvegsráðherra setur                     56,5%

3.             Til Landssambands smábátaeigenda, þar með talið vegna grásleppuveiða                               6,0%

5. gr.

                Fé því, sem safnast á greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa skv. 2. tölul. 3. gr., skal skipta mánaðarlega og færa til tekna á bankareikninga í þessum hlutföllum:

1.             Til lífeyrissjóða sjómanna                   92,0%

2.             Til Sjómannasambands Íslands og sjómanna innan Alþýðusambands Austfjarða og Alþýðusambands Vestfjarða                        2,4%

3.             Til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands                               1,6%

4.             Til Landssambands íslenskra útvegsmanna                    4,0%

                Við skiptingu fjár milli þeirra samtaka sem um er rætt í 2. tölul. 1. mgr. annars vegar og 3. tölul. 1. mgr. hins vegar skal taka mið af fjölda félagsmanna er við fiskveiðar vinna. Skulu aðilar koma sér saman um skiptingu fjár milli hlutaðeigandi samtaka og tilkynna Lífeyrissjóði sjómanna um samkomulagið.

                Komi upp ágreiningur um skiptingu fjár skv. 2. mgr. geta þau samtök sem um er rætt í 2. og 3. tölul. 1. mgr. óskað skriflega eftir því við sjávarútvegsráðherra að skipaður verði gerðardómur til að leysa úr ágreiningnum. Gerðardómur vegna ágreinings um skiptingu fjár skv. 2. tölul. 1. mgr. skal skipaður fimm mönnum; tveim tilnefndum af Sjómannasambandi Íslands, einum tilnefndum af Alþýðusambandi Austfjarða, einum tilnefndum af Alþýðusambandi Vestfjarða og einum tilnefndum af dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur og er sá jafnframt formaður gerðardómsins. Gerðardómur um skiptingu fjár skv. 3. tölul. 1. mgr. skal skipaður þrem mönnum; einum tilnefndum af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, einum tilnefndum af Vélstjórafélagi Íslands og einum tilnefndum af dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur og er sá jafnframt formaður gerðardóms. Gerðardómi um skiptingu fjár skv. 3. tölul. 1. mgr. er heimilt að taka mið af fleiri atriðum en um er rætt í 2. mgr.

                Gerðarmenn skulu vera nægjanlega líkamlega og andlega hraustir til að fara með gerðarmál. Þeir skulu vera lögráða og hafa forræði fjár síns. Þeir skulu hafa óflekkað mannorð. Gerðarmenn skulu fullnægja sérstökum hæfisskilyrðum héraðsdómara til meðferðar einstaks máls. Formaður gerðardóms sker úr ágreiningi um hæfisskilyrði gerðarmanna.

                Gerðarmenn skulu allir taka þátt í störfum dómsins. Formaður getur þó einn tekið við skjölum og sinnt öðrum minni háttar framkvæmdaatriðum.

                Kröfur aðila fyrir gerðardómi skulu vera skýrar. Gerðarmenn skulu ávallt gefa aðilum kost á að gera kröfur, færa fram sönnunargögn, kynna sér gögn málsins og tjá sig um sakarefnið. Gæta skal jafnræðisreglu. Gerðardómurinn ákveður sjálfur málsmeðferð. Hraða skal gerðarmáli svo sem kostur er. Málflutningur fyrir gerðardómnum skal jafnan vera munnlegur og ætíð ef aðili krefst þess. Að því leyti, sem ekki er öðruvísi kveðið á um í reglugerð þessari, skal við málsmeðferð fyrir gerðardómnum gætt meginreglna laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði með síðari breytingum.

                Gerðardómur skal vera skriflegur, skýr, rökstuddur í meginatriðum og undirritaður af þeim gerðarmönnum sem að dómi standa. Sátt fyrir gerðardómi skal vera skrifleg og undirrituð af aðilum og gerðarmönnum.

                Afl atkvæða í gerðardómi ræður úrslitum máls. Úrskurður gerðardóms er bindandi fyrir aðila máls.

                Kostnaður af starfi gerðardóms skal greiddur af aðilum máls.

6. gr.

                Lífeyrissjóður sjómanna skal hafa yfirumsjón með því að fé, sem inn kemur skv. 1. tölul. 4. gr. og 1. tölul. 5. gr. sé skipt og greitt inn á reikning hvers skips til hlutaðeigandi lífeyrissjóða í hlutfalli við iðgjaldsskyldan aflahlut skipverja.

                Landssamband íslenskra útvegsmanna skal hafa yfirumsjón með því að fé sem innheimtist skv. 1. tölul. 3. gr. sé skipt og greitt inn á reikning skips hjá hlutaðeigandi tryggingafyrirtæki í samræmi við iðgjaldsskyldu. Ef greiðsla skv. 1. tölul. 3. gr. reynist hærri en iðgjöld vegna vátrygginga skips skal endurgreiða eiganda skipsins mismuninn þegar eftir greiðslu iðgjalda. Landssamband smábátaeigenda skal hafa yfirumsjón með því að fé, sem inn kemur skv. 2. tölul. 4. gr., sé skipt og greitt inn á reikning hvers báts hjá hlutaðeigandi tryggingafyrirtæki. Ef greiðsla skv. 2. tölul. 4. gr. reynist hærri en iðgjöld vegna slysa- og örorkutrygginga skipverja og vátryggingar báts, skal endurgreiða eiganda bátsins mismuninn þegar eftir að iðgjöldin hafa verið innt af hendi.

7. gr.

                Þeim viðskiptabönkum og öðrum, sem halda eftir fé útvegsmanna samkvæmt lögum þessum, er skylt að senda þeim viðurkenningu fyrir móttöku fjárins án tafar. Lífeyrissjóði sjómanna er skylt að senda þeim samtökum og sjóðum, sem tilgreind eru í 4. og 5. gr. mánaðarlega yfirlit yfir allar innborganir á greiðslumiðlunarreikninga og skiptingu þeirra. Enn fremur skal Lífeyrissjóður sjómanna á sex mánaða fresti senda eigendum skipa yfirlit yfir allar greiðslur sem inntar hafa verið af hendi vegna viðkomandi skips samkvæmt reglugerð þessari og yfirlit yfir allar innborganir á greiðslumiðlunarreikninga og skiptingu þeirra.

                Ríkisendurskoðun skal í lok hvers árs endurskoða bókhald Lífeyrissjóðs sjómanna og samtaka þeirra og sjóða sem tilgreindir eru í 3. og 4. gr., sem við kemur greiðslum samkvæmt reglugerð þessari.

                Lögtaksréttur fylgir kröfu vegna hlutdeildar af hráefnisverði, sbr. 1. og 2. gr. reglugerðar þessarar. Sé greiðsla ekki innt af hendi innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af vangreiddri fjárhæð.

8. gr.

                Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 5. mars 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Árni Kolbeinsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica