Leita
Hreinsa Um leit

Félagsmálaráðuneyti

525/1998

Reglugerð um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.

I. KAFLI

Orðskýringar.

1. gr.

Hugtök.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:

 1.            Sjálfstætt starfandi einstaklingur: sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum eða félagi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglubundnum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

 2.            Rekstur: rekstur með eða án sérstaks atvinnutækis.

 3.            Nákominn, er sbr. 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 notað um eftirfarandi:

a.             hjón og þá sem búa í óvígðri sambúð,

b.             þá sem eru skyldir í beinan legg eða fyrsta lið til hliðar, en með skyldleika er í þessu sambandi einnig átt við tengsl sem skapast við ættleiðingu eða fóstur,

c.             þá sem tengjast með hjúskap eða óvígðri sambúð með sama hætti og um ræðir í 2. tölul.,

d.             mann og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hluta í,

e.             tvö félög eða stofnanir ef annað þeirra eða maður nákominn öðru þeirra á verulegan hluta í hinu,

f.              menn, félög og stofnanir sem eru í sambærilegum tengslum og um ræðir í liðum a-e.

II. KAFLI

Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklinga.

2. gr.

Skilyrði bótaréttar.

Atvinnuleysisbætur sjálfstætt starfandi einstaklings sem verður atvinnulaus, er í atvinnuleit, er fullfær til vinnu og uppfyllir skilyrði reglugerðar þessarar ákvarðast á eftirfarandi hátt:

 1.            Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur greitt tryggingagjald mánaðarlega af reiknuðu endurgjaldi miðað við fullt starf sbr. 4. gr., vegna síðustu 12 mánaða fyrir skráningu hjá svæðisvinnumiðlun, á hann rétt á hámarksbótum, sbr. 12. gr. laga nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, en hlutfallslega ella miðað við fjölda mánaða sem tryggingagjaldi var skilað. Hafi umsækjandi dregið greiðslu tryggingagjalds lengur en þrjá mánuði er heimilt að fella bótarétt niður vegna viðkomandi tímabils.

 2.            Hafi umsækjandi á liðnum 12 mánuðum verið bæði í launavinnu og rekstri þá skal hver mánuður sem tryggingagjald hefur verið greitt fyrir miðað við fullt starf samsvara fullri dagvinnu þann mánuð við ákvörðun bóta.

 3.            Hafi umsækjandi fengið leyfi til að hefja rekstur á nýjan leik samkvæmt 12. gr. geta greiðslur bóta aldrei hafist á ný fyrr en 10 virkum dögum eftir að hann skráði sig aftur atvinnulausan og ekki fyrr en 70 virkum dögum eftir að hann var síðast skráður atvinnulaus.

 

3. gr.

Ársmaður.

Hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur fengið samþykki ríkisskattstjóra fyrir því að greiða tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds einu sinni á ári (ársmaður), skal hann hafa gert upp skuld sína í tryggingagjaldi vegna síðastliðinna 12 mánaða áður en umsókn hans um atvinnuleysisbætur er afgreidd hjá úthlutunarnefnd.

4. gr.

Útreikningur bótahlutfalls.

Þegar bótahlutfall umsækjanda er ákveðið, sbr. 5. tl. 4. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, skal byggja á viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra samkvæmt 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, um ákvörðun á endurgjaldi sem maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal reikna sér sem laun. Hafi fullt tryggingagjald miðað við lágmark reiknaðs endurgjalds í viðkomandi starfsgrein verið greitt skal það talið jafngilda fullri vinnu þann mánuð.

Hafi fullt tryggingagjald ekki verið greitt skal upphæðinni sem greiða átti deilt í upphæðina sem greidd var og þannig fengið út starfshlutfall viðkomandi fyrir þann mánuð.

Hafi umsækjandi einnig verið launamaður skal heimilt að leggja saman starfshlutfall hans sem launamanns við starfshlutfall hans sem sjálfstætt starfandi við endanlega ákvörðun bótahlutfalls, þó að hámarki samanlagt sem nemur 100% starfi í sama mánuði.

Að öðru leyti gilda ákvæði laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga um bótarétt og útreikning bóta.

III. KAFLI

Lok sjálfstæðrar starfsemi.

5. gr.

Meginregla.

Árstíðabundin stöðvun starfsemi eða tímabundin hlé vegna verkefnaskorts eða af öðrum ástæðum veita sjálfstætt starfandi einstaklingum ekki rétt til atvinnuleysisbóta.

6. gr.

Atvinnuleysi sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst vera atvinnulaus, þegar hann uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:

 1.            hefur stöðvað rekstur, sbr. 7.-10. gr.,

 2.            hefur ekki tekjur af rekstri,

 3.            hefur ekki hafið störf sem launamaður,

 4.            er sannanlega í atvinnuleit og er reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa,

 5.            hefur tilkynnt lok rekstrarins til opinberra aðila, sbr. 7. gr.

7. gr.

Tilkynning um lok rekstrar.

Til að tilkynning um lok rekstrar teljist fullnægjandi þarf hún að bera með sér að:

 1.            lok sjálfstæðrar starfsemi hafi verið tilkynnt launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra

                og

 2.            virðisaukaskattsskyldri starfsemi hafi verið hætt.

8. gr.

Staðfesting á sölu eða afskráningu atvinnutækja.

Staðfesting á sölu eða afskráningu atvinnutækja er að öllu jöfnu fullnægjandi trygging fyrir því að rekstur hafi verið stöðvaður. Hafi atvinnutæki ekki verið selt eða afskráð verður viðkomandi að sýna fram á að honum sé ekki lengur mögulegt að nýta atvinnutæki í rekstri, sbr. 9. gr. Í því sambandi skal miðað við eftirfarandi:

 a.            Þeir sem notað hafa vélknúin ökutæki í rekstri sínum skulu hafa lagt inn númer þeirra eða afskráð þau hjá Skráningarstofunni hf.

 b.            Þeir sem hafa notað skip eða bát í rekstri sínum skulu hafa lagt haffærisskírteini eða skoðunarvottorð inn hjá Siglingastofnun Íslands.

 c.            Þeir sem hafa í rekstri sínum notað önnur tæki eða vélar, en tilgreind eru í a-b liðum, sem Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með, skulu hafa afskráð tækin og vélarnar hjá Vinnueftirlitinu.

Umsækjandi skal leggja fram hjá svæðisvinnumiðlun vottorð frá ofangreindum aðilum til staðfestingar á því að skilyrði ákvæðisins hafi verið uppfyllt.

9. gr.

Afhending eða lok rekstrar.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hættur rekstri ef hann sannar að rekstur hafi verið stöðvaður, hann framseldur öðrum eða tekinn til gjaldþrotaskipta.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur getur talist vera hættur rekstri áður en til afhendingar eða lokunar kemur, ef hann leggur fram skriflega sönnun á því að honum hafi verið gert ókleift að halda rekstrinum áfram t.d. vegna vörslusviptingar atvinnutækis.

Sjálfstætt starfandi getur ekki uppfyllt skilyrði 1. og 2. mgr. með því að afhenda reksturinn nákomnum í merkingu 3. tölul. 1. gr. Sjálfstætt starfandi einstaklingur getur þó uppfyllt skilyrði 1. og 2. mgr. með því að afhenda reksturinn afkomendum eða öðrum nákomnum ef sýnt þykir að reksturinn framfleyti aðeins þeim sem tóku við rekstrinum þegar afhendingin átti sér stað. Leggja skal fram vottorð skattstofu og/eða löggilts endurskoðanda um heildarveltu síðastliðinna þriggja reikningsára. Stjórn Tryggingasjóðs er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði sem uppfylla þarf samkvæmt ákvæði þessu.

10. gr.

Þátttöku í rekstri haldið áfram með launavinnu.

Einstaklingur sem hefur haldið áfram starfi sínu við rekstur eftir að hafa byrjað í launavinnu telst ekki atvinnulaus í skilningi laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga þó hann missi launavinnuna nema hann uppfylli skilyrði 6. sbr. 7. gr. eða sýnt þyki að reksturinn framfleyti aðeins öðrum aðila sem hefur starfað að fullu við reksturinn.

Miða skal við að hreinar tekjur af atvinnurekstri og reiknuð laun fyrir hvern þann aðila, sem hefur tekjur af rekstrinum og er í fullu starfi við hann, séu að jafnaði minni en fullar atvinnuleysisbætur á mánuði. Skal því til sönnunar lagt fram vottorð frá skattstofu.

11. gr.

Um þá sem starfa hjá fyrirtæki sem þeir eiga hlut í og/eða stjórna.

Sjóðfélagi sem starfar við eigin atvinnurekstur, einn eða ásamt maka sínum, eða við starfsemi sem hann rekur í sameign með öðrum aðila eða sem fer fram á vegum lögaðila sem hann á jafnframt 50% eða meiri eignarhluta í og/eða er aðili að stjórnun fyrirtækisins, skal ekki á sama tíma eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Sama gildir um þann sem vinnur við eigin atvinnurekstur og á, einn eða ásamt maka, börnum eða öðrum nákomnum sbr. 3. tl. 1. gr., 10% eða meiri eignarhluta í fyrirtæki, gegni hann jafnframt stöðu framkvæmdastjóra, hafi prókúru þess eða eigi sæti í stjórn þess.

Til að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta verður hlutaðeigandi að sýna fram á að hann hafi framselt eignarhluta sinn og/eða sagt sig í raun frá stjórn fyrirtækisins að uppfylltum skilyrðum 3. mgr. 9. gr. og að hann uppfylli að öðru leyti skilyrði laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga og þessarar reglugerðar fyrir bótarétti.

12. gr.

Beiðni um að hefja rekstur að nýju.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem telst atvinnulaus samkvæmt 6. gr. og þegið hefur atvinnuleysisbætur getur sótt um það til stjórnar Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga að hefja sjálfstæða starfsemi að nýju áður en 12 mánuðir eru liðnir frá fyrstu skráningu hjá svæðisvinnumiðlun, án þess að sæta viðurlögum samkvæmt VI. kafla, enda hafi skapast forsendur fyrir því að hefja rekstur á nýjan leik í a.m.k. 60 virka daga. Skal hann leggja fram yfirlýsingu þess efnis að hann telji að rekstrargrundvöllur sé fyrir atvinnustarfsemi sinni og verkefnaáætlun sem nái samfellt yfir a.m.k. 60 virka daga.

Sé um að ræða sjálfstæða starfsemi sem er sú sama eða hliðstæð þeirri sem hann stundaði áður skal hann jafnframt sýna fram á að verulegar breytingar hafi orðið frá því að hann hætti þeim rekstri og sótti um atvinnuleysisbætur.

IV. KAFLI

Atvinnuleysi maka.

13. gr.

Styrkur vegna atvinnuleysis maka.

Maka sjóðfélaga er heimilt að sækja um styrk til Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga sýni hann fram á að styrkurinn muni nýtast honum við nýsköpun í atvinnurekstri. Skal hann í þessu skyni leggja fram greinargerð er hafi að geyma nákvæmar upplýsingar um það verkefni sem hann hyggst vinna að ásamt fjárhagsáætlun.

Styrkur skal nema hámarksbótum samkvæmt 12. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga og veittur að hámarki í 6 mánuði. Skilyrði styrkveitingar til maka eru eftirfarandi:

 1.            Að maki sé atvinnulaus en geti vegna búsetu sinnar ekki sótt vinnu á næsta atvinnusvæði.

 2.            Að sjóðfélagi stundi atvinnurekstur þegar maki hans sækir um styrk.

 3.            Að samanlagðar tekjur sjóðfélaga og maka hafi á síðustu sex mánuðum ekki verið hærri en sem nemur tvöföldum hámarksbótum að meðaltali. Ef svo er skal afgreiðslu styrks frestað þar til meðaltekjur fyrir liðinn mánuð verða jafnháar tvöföldum atvinnuleysisbótum.

 4.            Að styrkveiting verði ekki talin fela í sér röskun á samkeppnisstöðu.

14. gr.

Umsókn.

Stjórn Tryggingasjóðs tekur ákvarðanir um veitingu styrks samkvæmt þessum kafla. Skal það gert á grundvelli 25. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. Stjórn sjóðsins skal í upphafi hvers árs ákveða heildarfjárhæð sem skal vera til ráðstöfunar samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

Styrkjum er úthlutað þrisvar á ári. Umsóknir skulu hafa borist skrifstofu Vinnumálastofnunar fyrir 15. febrúar vegna fyrstu úthlutunar, fyrir 1. maí vegna annarrar úthlutunar og fyrir 15. september vegna þriðju úthlutunar.

Stjórn sjóðsins skal hafa eftirlit með því að framkvæmd verkefnis sé í samræmi við forsendur styrkveitingar og getur hún að eigin frumkvæði óskað eftir nauðsynlegum upplýsingum og gögnum. Komi í ljós að framkvæmd verkefnis sé á einhvern hátt ekki í samræmi við forsendur styrkveitingar er stjórninni heimilt að stöðva greiðslur styrksins.

Innan átta vikna frá því að verkefni lýkur skal styrkhafi senda skrifstofu Vinnumálastofnunar greinargerð um framkvæmd verkefnisins.

V. KAFLI

Deildir.

15. gr.

Skipting í deildir.

Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga starfar í þremur fjárhagslega sjálfstæðum deildum, A, B og C deild, sem skipta með sér rekstrarkostnaði í hlutfalli við umfang hverrar deildar í rekstri sjóðsins. Starfsemi hverrar deildar skal haldið aðgreindri í bókhaldi og reikningum sjóðsins.

Bændur njóta bóta úr A-deild.          

Smábátaeigendur njóta bóta úr B-deild.          

Vörubifreiðastjórar njóta bóta úr C-deild.       

16. gr.

Lágmarksfjöldi í deild.

Lágmarksfjöldi sjóðfélaga í deild skal vera 500 einstaklingar hið minnsta. Við ákvörðun þess hvort skilyrði þetta telst uppfyllt skal miða við meðaltal þeirra sem greitt hafa tryggingagjald samkvæmt lögum nr. 113/1990 um tryggingagjald í viðkomandi starfsgrein á síðastliðnum 12 mánuðum. Fækki sjóðfélögum í deild miðað við þetta lágmark skal stjórn sjóðsins gera tillögur til ráðherra um hvernig bregðast skuli við.

Ráðherra er heimilt að gera undanþágu frá skilyrði um lágmarksfjölda í deild.

VI. KAFLI

Viðurlög.

17. gr.

Endurkrafa greiddra bóta.

Ef stjórn Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga hefur ekki veitt samþykki sitt fyrir að rekstur sé hafinn á nýjan leik sbr. 12. gr. skal fara með brot hlutaðeigandi í samræmi við ákvæði V. kafla laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Sama gildir ef í ljós kemur að sjóðfélagi hefur haldið áfram sjálfstæðri starfsemi án tilskilinnar skattalegrar skráningar.

VII. KAFLI

Gildistaka.

18. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, öðlast þegar gildi.

Um leið fellur úr gildi reglugerð nr. 741/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Félagsmálaráðuneytinu, 21. ágúst 1998.

Páll Pétursson.

Elín Blöndal.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica