Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

137/2021

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 1011/2011 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2160/2003 um varnir gegn salmonellu og öðrum tilteknum smitvöldum mannsmitanlegra dýrasjúkdóma sem berast með matvælum.

1. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2160/2003 er ekki heimilt að flytja til slátrunar alifuglahópa sem greinst hafa með salmonellu. Matvælastofnun getur þó heimilað slátrun á alifuglahópum sem greinst hafa með salmonellu með skilyrðum sem eru nánar tiltekin í landsáætlun Matvælastofnunar um varnir og viðbrögð vegna salmonellu í alifuglarækt og afurðum alifugla.

Óheimilt er að senda alifuglahóp til slátrunar sem alinn er í húsi þar sem greinst hefur salmonella síðastliðna 12 mánuði, nema fyrir liggi tvö sýni úr sláturhópnum, sem tekin eru skv. landsáætlun Matvælastofnunar um varnir og viðbrögð vegna salmonellu í alifuglarækt og afurðum alifugla og að ekki hafi greinst í þeim salmonella. Seinna sýnið má ekki vera eldra en fimm daga gamalt fyrir slátrun.

Finnist salmonella í sýnum sem tekin eru við slátrun, skal innkalla afurðirnar, þeim fargað eða þær hitameðhöndlaðar, þannig að kjarnhiti nái 72°C, áður en afurðunum er dreift, samkvæmt fyrir­mælum Matvælastofnunar.

 

2. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli og 29. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og öðlast gildi við birtingu.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 27. janúar 2021.

 

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kolbeinn Árnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica