Leita
Hreinsa Um leit

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

136/2015

Reglugerð um sóttvarnastöðvar fyrir alifugla.

I. KAFLI

Orðskýringar og yfirstjórn.

1. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:

  1. Alifuglar: Hænsnfuglar af ættbálki Galliformes, endur, gæsir og aðrir fuglar aldir til framleiðslu á kjöti og eggjum.
  2. Alifuglabú: Bú með sérstöku búsnúmeri, landnúmeri samkvæmt fasteignamati auk númers rekstrareiningar innan býlis, þar sem alifuglar eru aldir í einu eða fleiri húsum.
  3. Fuglahópur: Allir alifuglar sem haldnir eru í sama húsnæði eða innan sömu girðingar og mynda eina faraldsfræðilega einingu og hafa sér rekjanleikanúmer. Séu fuglar aldir á húsi eru meðtaldir í hópi allir fuglar sem deila sama loftrými.
  4. Útungunarstöð: Staður þar sem meira en 1.000 frjóeggjum alifugla er ungað út sam­tímis í vélum.

2. gr.

Yfirstjórn.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.

II. KAFLI

Aðbúnaður og starfsleyfi sóttvarnastöðva fyrir alifugla.

3. gr.

Húsakostur og búnaður.

Alifuglasóttvarnastöð skal standa í a.m.k. 5 km fjarlægð frá öðrum alifuglabúum og öðrum alifuglasóttvarnastöðvum. Nánasta svæðið umhverfis sóttvarnastöð skal afgirt, þannig að dýr komist þar ekki að.

Húsnæði það sem útungun og eldi fugla fer fram í skal vera rúmgott miðað við þarfir og vera þannig úr garði gert að auðvelt sé að þrífa það og sótthreinsa. Þar skal vera góð aðstaða til að þrífa búnað og áhöld. Í húsnæði skal vera tvískipt forstofa þar sem farið er í sturtu áður en farið er á milli hreins og óhreins svæðis. Gólf skulu vera úr steinsteypu, galla­laus, með niðurföllum, sem tengd eru rotþró og siturleiðslu samkvæmt leiðbeiningum umhverfis­stofnunar og fyrirmælum heilbrigðisnefndar. Aðeins má nota rotþrær sem umhverfis­stofnun hefur viðurkennt. Húsnæði, búnaði og áhöldum skal halda hreinum og þrifa­legum. Í húsnæði má ekki geyma hluti sem eru starfseminni óviðkomandi. Húsnæði skal vera laust við meindýr og skal þar halda uppi reglubundnu eftirliti með meindýrum.

Starfsfólk sóttvarnastöðva má eingöngu starfa við einn innfluttan alifuglahóp í einu. Starfs­fólki er ekki heimilt að sjá um hirðingu á öðrum fuglum né starfa í alifuglasláturhúsi eða annarri sóttvarnastöð. Starfsfólk skal ávallt fara í sturtu bæði þegar komið er í sótt­varna­stöð og áður en farið er frá henni. Allir sem í sóttvarnastöð koma skulu klæðast hrein­legum hlífðarfatnaði, sem nota skal eingöngu á staðnum. Óviðkomandi er bannaður aðgangur að sóttvarnastöðvum nema dýralæknir alifuglasjúkdóma hafi áður veitt skriflegt leyfi.

Sóttvarnastöð má aðeins taka við frjóeggjum og fuglum skv. einu innflutningsleyfi í einu.

Innflutt frjóegg skal flytja strax í viðurkennda sóttvarnastöð þar sem þau skulu sótthreinsuð og sett í vélar, samkvæmt reglum sem yfirdýralæknir setur í samráði við dýralækni alifugla­sjúkdóma.

Fúlegg úr útungunarvélum, eggjaskurn, sjálfdauða unga eða unga sem eru deyddir skal hirða jafnóðum og brenna eða grafa á tryggilegan hátt, í samráði við hlutaðeigandi heil­brigðis­nefnd. Útungunarvélar, húsnæði, búnað og áhöld skal þrífa og sótthreinsa eftir hvern innflutning. Fylgja skal reglum um sótthreinsun sem yfirdýralæknir setur í samráði við dýra­lækni alifuglasjúkdóma. Eldishús skal hvíla a.m.k. þrjár vikur eftir hreinsun, áður en nýr fugla­hópur er settur í hús. Leyfilegt er að hafa útungunarstöð og eldishús í sama sóttvarna­húsnæði, en skal þá útungunarstöð og eldi vera í aðskildum rýmum. Í sóttvarna­húsnæði þar sem bæði er eldishús og útungunarstöð skulu hvíldartímar einnig reiknast frá því fuglar fara út úr sóttvarnastöð og þar til ný egg koma.

Til flutnings á eins dags gömlum ungum úr sóttvarnaútungunarstöð í sóttvarnaeldishús, skal nota hreinar, ónotaðar umbúðir og farartæki samþykkt af dýralækni alifuglasjúkdóma. Gæta skal að því að sem best fari um ungana meðan á flutningi stendur og leitast við að flutn­ingar á ungunum séu eins beinir og greiðir og kostur er.

Starfsmaður sóttvarnastöðvar skal halda nákvæmar skýrslur um fjölda móttekinna eggja, árangur útungunar og dreifingu unga. Einnig skal daglega halda skýrslur um eldi fuglanna.

Verði vart óeðlilegra vanhalda í útungun eða í eldi skal starfsmaður sóttvarnastöðvar gera dýralækni alifuglasjúkdóma viðvart.

Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur eða grunur um smitsjúkdóm í fuglum í sóttvarnastöð, að mati dýralæknis alifuglasjúkdóma, skal hann hlutast til um að nauðsynleg sýni séu send til rannsóknar án tafar. Ef talið er nauðsynlegt að grípa til aðgerða, skal það gert í samráði við yfirdýralækni. Innflutningsaðila er skylt að veita nauðsynlega aðstoð við sýnatöku og láta sýni af hendi endurgjaldslaust. Innflutningsaðili ber allan kostnað af nauðsynlegum rannsóknum.

4. gr.

Eftirlit.

Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal eftir nánari fyrirmælum yfirdýralæknis hafa reglubundið eftirlit með rekstri sóttvarnastöðva.

Ef sóttvarnastöð fullnægir ekki skilyrðum, sem sett eru í þessari reglugerð skal dýralæknir alifuglasjúkdóma krefjast úrbóta skriflega. Dýralæknir alifuglasjúkdóma skal gefa hæfilegan tímabundinn frest til nauðsynlegra lagfæringa og endurbóta. Afrit af fyrirmælum þessum skal senda yfirdýralækni.

Nú telur dýralæknir alifuglasjúkdóma að ítrekuðum kröfum um úrbætur hafi ekki verið sinnt á viðunandi hátt eftir að veittur frestur er liðinn og skal hann þá veita stuttan lokafrest í samráði við yfirdýralækni. Ef viðhlítandi úrbætur hafa ekki verið gerðar að lokafresti liðnum skal tafarlaust tilkynna það yfirdýralækni.

5. gr.

Leyfisveiting.

Allir þeir sem reka sóttvarnastöð fyrir alifugla, skulu hafa til þess skriflegt leyfi sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra.

Umsókn um leyfi til þess að reka sóttvarnastöð, skal senda sjávarútvegs- og land­búnaðar­ráðherra, sem aflar umsagnar yfirdýralæknis. Ennfremur skal fylgja umsókn lýsing á stærð og gerð húsnæðis stöðvarinnar, útungunarvélum og afkastagetu þeirra, sem og öðrum búnaði. Leyfi til reksturs sóttvarnastöðvar má afturkalla án fyrirvara, ef ástæða þykir til t.d. vegna sjúkdóma eða brota á settum reglum, án þess að bætur komi fyrir.

6. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra og laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breyt­ingum. Meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fer samkvæmt lögum um meðferð saka­mála.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum og lögum um dýra­lækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 28. janúar 2015.

Sigurður Ingi Jóhannsson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Rebekka Hilmarsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica