1314/2025
Reglugerð um (6.) breytingu á reglugerð nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta.
1. gr.
Svohljóðandi breytingar eru gerðar á 2. gr. reglugerðarinnar:
- e-liður verður svohljóðandi: Heimaeinangrun hunda er aðstaða sem Matvælastofnun samþykkir að undangenginni umsókn og úttekt, til einangrunar hjálparhunda og sprengjuleitarhunda, sbr. f- og g-lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 201/2020 um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr sem kveður á um skilyrði um heimaeinangrun hunda.
- Við greinina bætist eftirfarandi skilgreining í nýjum g-lið og uppfærast aðrir liðir til samræmis: Sprengjuleitarhundur er sérþjálfaður hundur sem er notaður í sértæk verkefni á vegum ríkislögreglustjóra.
2. gr.
Svohljóðandi breytingar eru gerðar á 8. gr. reglugerðarinnar:
- Í stað 2. mgr. kemur:
Sé hundur eða köttur fluttur til landsins í farþegarými flugvéla ber umráðamanni dýrsins að afhenda það þjónustuaðila flugvallarins samþykktum af Matvælastofnun og á þeim stað sem stofnunin hefur gefið fyrirmæli um í innflutningsleyfi. Þjónustuaðili flytur dýrið í móttökustöð samkvæmt 15. gr. svo fljótt sem verða má.
- Við greinina bætist 3. mgr. sem verður svohljóðandi og uppfærast aðrar málsgreinar samkvæmt því:
Ákvæði 2. mgr. eigi ekki við um vottaða hjálparhunda, sprengjuleitarhunda né hunda eða ketti í millilendingum á Íslandi.
3. gr.
Við 11. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
Sprengjuleitarhundar skulu dvelja í heimaeinangrun á vegum ríkislögreglustjóra undir eftirliti Matvælastofnunar, þegar þeir eru ekki í verkefnum og samkvæmt skilyrðum þar að lútandi, sbr. reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr. Umsókn um einangrun í heimaeinangrun fyrir sprengjuleitarhunda skal berast Matvælastofnun svo fljótt sem auðið er fyrir áætlaðan innflutning.
4. gr.
Svohljóðandi breytingar eru gerðar á 15. gr. reglugerðarinnar:
- Í stað 2. mgr. kemur:
Við komu til landsins skal flutningsaðili eða þjónustuaðili flugvallar í þeim tilvikum þegar dýr eru flutt í farþegarými flytja hunda og ketti rakleiðis í móttökustöð hunda og katta og tryggja að dýrin dvelji þar þangað til þau eru sótt af fulltrúa viðkomandi einangrunarstöðvar að undangengnu innflutningseftirliti.
- Í stað 3. mgr. kemur:
Matvælastofnun skal tryggja að starfsmenn flutningsaðila og þjónustuaðili flugvallar hljóti fræðslu um smitvarnir og umgengni við dýr í móttökustöðinni.
5. gr.
Í stað 2. málsliðar 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar kemur:
Ákvarðanir um slíkar undanþágur skulu tilkynntar til atvinnuvegaráðuneytisins.
6. gr.
Við 18. gr. reglugerðarinnar bætist nýr málsliður, svohljóðandi:
Kostnaður vegna þjónustu þjónustuaðila flugvallar samkvæmt 8. gr. greiðist af innflytjanda.
7. gr.
Við reglugerðina bætist ný grein ásamt fyrirsögn sem verður 20. gr. svohljóðandi og uppfærast aðrar greinar til samræmis:
Sérákvæði um sprengjuleitarhunda.
Yfirgefi sprengjuleitarhundur landið áður en einangrun er lokið, skal það gert með samþykki og undir eftirliti Matvælastofnunar.
8. gr.
Ákvæði til bráðabirgða fellur brott.
9. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, og lögum um velferð dýra, nr. 55/2013.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Atvinnuvegaráðuneytinu, 11. nóvember 2025.
Hanna Katrín Friðriksson.
B deild - Útgáfudagur: 8. desember 2025