Iðnaðarráðuneyti

131/2001

Reglugerð um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. - Brottfallin

1. gr.
Almennt.

Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði 12% af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 5. gr. reglugerðar þessarar og 2. og 5. gr. laga nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum.


2. gr
Skilyrði endurgreiðslu.

Við mat á því hvort endurgreiða skuli hlutfall af framleiðslukostnaði kvikmyndar eða sjónvarpsefnis skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:

a. að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri og kynna sögu lands og náttúru,
b. að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa,
c. að stofnað sé sérstakt félag um framleiðsluna á Íslandi; íslenskt útibú eða umboðsskrifstofa félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið telst sérstakt félag,
d. upplýsingar um helstu aðstandendur kvikmyndar eða sjónvarpsefnis liggi fyrir,
e. upplýsingar um innlenda aðila og hlutdeild þeirra við framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis liggi fyrir,
f. að fyrir liggi sundurliðuð áætlun um framleiðslukostnað og fjármögnun auk staðfestingar fjármögnunaraðila ásamt greinargerð umsækjanda um að framleiðslan falli að markmiðum laganna,
g. að fyrir liggi upplýsingar um efni fyrirhugaðrar framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis, þ. á m. handrit, stuttur efnisútdráttur og upplýsingar um tökustaði,
h. að framleiðsluáætlun liggi fyrir (þ.e. töku-, eftirvinnslu- og markaðsáætlun) sem geri ráð fyrir að framleiðslu sé lokið innan þriggja ára frá því að endurgreiðslubeiðni er móttekin,
i. að fyrir liggi að hið framleidda efni sé ætlað til almennrar dreifingar í kvikmyndahús eða til sjónvarpsstöðva,
j. að efni kvikmyndar eða sjónvarpsefnis stríði ekki gegn ákvæðum laga nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum, og 210. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Verði breyting á áætluðum framleiðslukostnaði, sbr. f-lið 1. mgr., eftir að framleiðsla hefst skal iðnaðarráðuneyti send ný kostnaðaráætlun.

Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 1. mgr. getur umsækjandi um endurgreiðslu dregið það að ganga formlega frá stofnun sérstaks félags um framleiðslu myndar hér á landi, eða skráningu sérstaks útibús eða umboðsskrifstofu eftir atvikum, þangað til að fyrir liggur tillaga nefndar skv. 4. gr. um að mæla með endurgreiðslu. Verði afgreiðsla nefndarinnar jákvæð skal umsækjandi hafa þrjá mánuði til þess að ganga frá formlegri stofnun félags eða skráningu útibús eða umboðsskrifstofu. Hafi umsækjandi ekki gengið frá þessum formsatriðum innan þess tímafrests skal litið svo á að hann hafi dregið umsókn sína til baka.

Auglýsinga- og fréttatengt efni, stuttmyndir, upptökur af íþróttaviðburðum og skemmtunum, svo og framleiðsla efnis sem fyrst og fremst er ætlað til sýninga í eigin dreifikerfi telst ekki til efnis samkvæmt i-lið 1. mgr.


3. gr.
Umsókn.
Umsókn um endurgreiðslu skal senda iðnaðarráðuneytinu áður en framleiðsla hefst hér á landi. Umsókn skal vera í samræmi við leiðbeiningar ráðuneytisins um form umsókna, sem birtar eru á heimasíðu þess, og skulu gögn sem staðfesta að skilyrði endurgreiðslu skv. 2. gr. reglugerðar þessarar séu uppfyllt, fylgja umsókn.


4. gr.
Afgreiðsla umsókna.
Nefnd sem skipuð er skv. 4. gr. laga nr. 43/1999 fer yfir innkomnar umsóknir. Nefndin skal hafa að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna að kvikmynd eða sjónvarpsefni stuðli að eflingu innlendrar menningar, eftir atvikum, með skírskotun til sögu lands og náttúru. Nefndinni er heimilt að kalla eftir frekari gögnum telji hún það nauðsynlegt.

Telji nefndin að umsókn fullnægi skilyrðum til þess að hljóta endurgreiðslu gerir hún tillögu til iðnaðarráðherra um að veitt verði vilyrði fyrir endurgreiðslu. Í vilyrði iðnaðarráðherra fyrir endurgreiðslu skal vakin athygli á heimild, skv. 7. gr. til að fresta endurgreiðslu.

Við afgreiðslu umsókna getur nefndin leitað álits sérfróðra aðila um ætlað listrænt gildi viðkomandi framleiðslu.


5. gr.
Framleiðslukostnaður.
Framleiðslukostnaður telst allur sá kostnaður sem heimilt er að draga frá tekjum af atvinnurekstri samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt og fellur til hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.

Til þess að teljast endurgreiðanlegur framleiðslukostnaðar skal sá hluti framleiðslukostnaðar sem fellur til í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið færður í samræmi við bókhaldslög í því ríki þar sem kostnaðurinn fellur til og skal sá hluti framleiðslukostnaðarins sérstaklega staðfestur af löggiltum endurskoðanda í því ríki.

Það er jafnframt skilyrði að greiðsla framleiðslukostnaðar gangi til aðila sem er skattskyldur skv. 1. eða 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða samkvæmt sambærilegum ákvæðum laga í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eða til opinbers aðila.


6. gr.
Ákvörðun endurgreiðslu.
Þegar framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis er lokið skal umsækjandi senda iðnaðarráðuneyti bréflega tilkynningu um það með beiðni um endurgreiðslu ásamt efnahags- og rekstrarreikningi. Jafnframt skal fylgja sundurliðað kostnaðaruppgjör þar sem kostnaður skal sérgreindur eftir því hvaða landi hann féll til í. Kostnaðaruppgjör skal vera staðfest og áritað af löggiltum endurskoðanda.

Nefnd skv. 4. gr. laga nr. 43/1999 fer yfir framlögð gögn og er henni heimilt að óska eftir frekari gögnum til skýringar á kostnaðaruppgjöri, s.s. bókhaldi félagsins. Nefndinni er ennfremur heimilt að óska eftir fundi með umsóknaraðila. Sé kostnaðaruppgjör og/eða fylgigögn þess ófullnægjandi skal nefndin veita umsóknaraðila frest til að skila inn fullnægjandi gögnum. Berist nefndinni ekki fullnægjandi gögn að loknum veittum fresti skal hún leggja til við iðnaðarráðherra að beiðni um endurgreiðslu verði hafnað.

Iðnaðarráðherra ákvarðar endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari að fenginni tillögu nefndar skv. 4. gr. laga nr. 43/1999.


7. gr.
Frestun endurgreiðslu.
Áður en endurgreiðsla fer fram skal félagi slitið og útibúi eða umboðsskrifstofu lokað, sbr. c-lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar. Færa skal ákvarðaða endurgreiðslu til tekna og loka efnahags- og rekstrarreikningur endanlega færður upp. Að því loknu og þegar félagi hefur verið slitið og útibúi eða umboðsskrifstofu verið lokað greiðir ríkisféhirðir stjórnarformanni félags, eða þeim sem stendur fyrir útibúi eða umboðsskrifstofu, ákvarðaða endurgreiðslu að teknu tilliti til áfallinna skuldbindinga.

Fjárhæð endurgreiðslna samkvæmt reglugerð þessari er háð fjárveitingum Alþingis eins og fram kemur í fjárlögum hverju sinni. Iðnaðarráðherra hefur heimild til að fresta endurgreiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni, eins og kveðið er á um í grein þessari. Séu samþykktar endurgreiðslur á fjárlagaárinu umfram fjárveitingar er ráðherra heimilt að fresta endurgreiðslu, annað hvort að öllu leyti eða að hluta til, yfir á næsta fjárlagaár.


8. gr.
Endurgreiðsla.
Endurgreiðsla samkvæmt reglugerð þessari skal færð sem tekjur í bókhaldi félags, útibús eða umboðsskrifstofu en ekki koma til lækkunar á gjaldfærðum kostnaði.


9. gr.
Gildistökuákvæði.
Reglugerð þessi er sett með vísan til 7. og 8. gr. laga nr. 43/1999, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 377/1999.

Að öðru leyti en kveðið er á um í reglugerð þessari og lögum nr. 43/1999, með síðari breytingum, gilda ákvæði laga um hlutafélög og einkahlutafélög.


Iðnaðarráðuneytinu, 9. febrúar 2001.

Valgerður Sverrisdóttir.
Þorgeir Örlygsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica