Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 18. apríl 2019

1276/2014

Reglugerð um velferð svína.

I. KAFLI Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði svína með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að svín geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:

  1. Aðbúnaður: Húsakostur, skjól, gerði og girðingar.
  2. Ásetningsgylta: Gylta ætluð til ásetnings.
  3. Átrými: Sérstakt svæði við fóðurtrog fyrir eitt eða fleiri svín.
  4. Bás: Einstaklingshólf þar sem ekki er gert ráð fyrir að svín geti snúið sér við.
  5. Deild: Hluti af svínabúi þar sem svín eru haldin saman eftir aldri eða ástandi.
  6. Eldisgrís: Grís sem fluttur hefur verið í eldisdeild og er frá u.þ.b. 30 kg.
  7. Fanggylta: Gylta sem hleypt hefur verið til og hefur fest fang.
  8. Fráfærugrís: Grís sem vaninn hefur verið undan gyltu og er frá u.þ.b. 6 til 30 kg.
  9. Geldstöðugylta: Gylta frá fráfærum og þar til hún hefur aftur fest fang.
  10. Harðýðgi: Gróf valdbeiting, svo sem barsmíðar, snúið upp á eyru, dregið á eyrum eða gefið rafstuð.
  11. Legurými: Sérstakt svæði með heilu gólfi í stíum eða básum, ætlað til legu. Gólf telst heilt þótt í því séu raufar til frárennslis sem nema allt að 10% af flatarmáli.
  12. Sláturgrís: Grís sem kominn er að slátrun og/eða hefur verið fluttur í sláturhús.
  13. Spenagrís: Grís sem ekki hefur verið vaninn undan gyltunni.
  14. Stía: Afmarkað svæði fyrir eitt eða fleiri svín, þar sem svín geta gengið frjálst um.
  15. Svín: Allir grísir og öll fullorðin svín.
  16. Svínahald: Hvert það fyrirkomulag þar sem svín eru haldin, hvort sem það er í atvinnuskyni eða ekki.
  17. Umráðamaður: Eigandi eða annar aðili, sem er ábyrgur fyrir umsjá svína.
  18. Unggylta: Ásetningsgylta sem hleypt hefur verið til.
  19. Undirburður: Efni í stíu sem stráð er á gólf, s.s. hálmur eða spænir í þeim tilgangi að draga í sig raka og mýkja stíuna.

II. KAFLI Úttekt og eftirlit.

3. gr. Opinbert eftirlit.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Umráðamanni svína ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum svínum og öllum þeim svæðum þar sem svín eru haldin.

4. gr. Tilkynning.

Umráðamanni svínahalds eða starfsemi sem fellur undir viðauka I, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða starfsemi eigi síðar en 30 dögum áður en áætluð starfsemi hefst.

III. KAFLI Meðferð og umsjá.

5. gr. Geta, hæfni og ábyrgð.

Öllum þeim sem halda svín, hvort sem þau eru eitt eða fleiri, er skylt að afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun svína og þeim skyldum sem hvíla á umráðamönnum.

Umráðamaður tilkynninga- og úttektarskylds svínahalds, skv. 4. gr., skal hafa lokið prófi í búfræði, lokið námskeiði í svínahaldi viðurkenndu af Matvælastofnun eða starfað við umsjá svína sem nemur tveimur árum í fullu starfi. Námskeiðið skal ná til kennslu um líffræðilegar þarfir og atferli svína, umsjá og aflífun í neyð og löggjöf er varðar dýravelferð.

Umráðamaður svínahalds skal einnig tryggja að starfsmenn við svínahaldið hafi fengið grunnþjálfun í umönnun svína og fræðslu um þarfir þeirra og skal hann halda skrá um þjálfun og fræðslu starfsmanna.

Óheimilt er að selja, gefa eða afhenda svín einstaklingi sem ástæða er til að ætla að hafi ekki aðbúnað og getu til að annast svínið.

6. gr. Almenn meðferð og eigið eftirlit.

Bannað er að beita svín illri meðferð.

Eftirlit skal haft með svínum að lágmarki einu sinni á sólarhring og bæta svo fljótt sem auðið er úr því sem er ábótavant. Fylgjast skal með heilsufari svína og tryggja að hreinlæti, fóðrun, fóður, vatn og aðrir umhverfisþættir og tækjabúnaður sem getur haft áhrif á líðan þeirra, sé í lagi.

Aukið eftirlit skal haft með nýfæddum, sjúkum og slösuðum svínum og gyltum nálægt goti.

Fylgjast skal með heilbrigði klaufa og snyrta þær svo tryggt sé að svín líði ekki fyrir vanhirðu þeirra.

Umráðamaður skal halda bókhald um fjölda svína, afdrif þeirra, meðhöndlun og sjúkdóma. Skráningar skulu geymdar í 2 ár.

7. gr. Hreyfing, hvíld og þarfir.

Svín eiga að geta óhindrað lagst niður, legið eðlilega, risið á fætur, staðið, snúið sér og hreyft sig.

Svín skulu höfð í lausagöngu og óheimilt er að binda svín eða hafa á básum. Í eftirfarandi tilvikum er þó heimilt að loka gyltur á básum í takmarkaðan tíma:

  1. Í tengslum við fóðrun.
  2. Í tengslum við meðhöndlun dýralæknis eða umráðamanns í læknisfræðilegum tilgangi.
  3. Í tengslum við beiðsli og sæðingu.
  4. Frá og með 7 dögum fyrir got til og með 7 dögum eftir got í gotbásum.

Gæta skal þess í hvívetna að við uppeldi og í umhverfi svína sé komið í veg fyrir aðstæður sem leiða til vanlíðunar, eineltis, vanfóðrunar eða vanþrifa. Skapist slíkt ástand engu að síður skal bæta úr því eins fljótt og auðið er, svo sem með því að fjarlægja árásargjörn svín úr hópi.

Grísum skal haldið í stöðugum hópum eftir fráfærur og blöndun haldið í lágmarki. Ef nauðsynlegt reynist að blanda hópum skal það gert sem fyrst eða þegar grísirnir eru sem yngstir, helst innan viku frá fráfærum og viðhafa aukið eftirlit.

Óheimilt er að einangra svín nema þegar sérsakar aðstæður krefjast þess, svo sem sjúkdómar eða önnur sérstök meðhöndlun. Þó er heimilt að hafa gelti og gyltur í einstaklingsstíum en þau þurfa þá að heyra í, sjá og hafa möguleika á að þefa af öðrum svínum.

Færa skal gyltu í gotstíu eða gotbás í síðasta lagi 3 dögum fyrir áætlað got. Í gotstíum skal alltaf vera nægjanlegt magn af hálmi eða öðru því efni sem uppfyllir þarfir gyltna til hreiðurgerðar. Fínmalað efni flokkast ekki undir efni til hreiðurgerðar.

Ávallt skal tryggja öllum svínum aðgengi að nægilegum hálmi eða öðru efni sem gerir þeim kleift að róta eða krafsa og/eða sem uppfyllir þarfir þeirra til þessara athafna.

Spenagrísir skulu færðir frá gyltum í fyrsta lagi þegar þeir eru 28 daga gamlir. Þó er heimilt að færa þá frá fyrr, ef heilsufar þeirra eða gyltunnar krefst þess.

8. gr. Fóðrun og brynning.

Fóðra skal svín að lágmarki einu sinni á dag.

Fóður skal að magni, gæðum og efnainnihaldi fullnægja þörfum þeirra til þroska, vaxtar og viðhalds. Fullorðin svín skulu hafa stöðugan aðgang að heyi, hálmi eða öðru gróffóðri.

Tryggja skal spenagrísum aðgang að broddmjólk strax eftir fæðingu. Byrja skal að gefa spenagrísum fasta fæðu eigi síðar en viku fyrir fráfærur.

Við skammtafóðrun skal tryggt að öll svín geti étið samtímis og að þau hafi öll greiðan aðgang að fóðri. Um stærð átrýma fer samkvæmt C-lið viðauka II.

Öll svín skulu ávallt hafa stöðugan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Um vatnsþörf og lágmarksrennsli vatns fer samkvæmt D-lið viðauka II.

Þannig skal gengið frá fóðrunar- og brynningarbúnaði að svín geti étið og drukkið í stöðu sem þeim er eðlileg.

Svín skulu ekki vera grennri en sem nemur holdastigi 2. Við mat á holdafari svína skal farið samkvæmt A-lið viðauka III.

9. gr. Aðferðir og útbúnaður við þjálfun, sýningar og keppni.

Svín sem höfð eru til sýnis skulu vera vanin við umgengni manna til að koma í veg fyrir ótta og streitu. Við þjálfun svína skal einungis nota þjálfunaraðferðir sem byggjast á jákvæðri styrkingu. Óheimilt er að nota þjálfunaraðferðir þar sem þvingunum og refsingum er beitt.

Umráðamanni svíns sem nota á við gerð auglýsinga, kvikmynda, leiksýninga eða við aðrar aðstæður og/eða í umhverfi sem svíni er ekki eðlilegt, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða notkun eigi síðar en 10 dögum áður en áætluð notkun fer fram. Óheimilt er að hefja notkun fyrr en skilyrði varðandi húsnæði, búnað, notkun og þekkingu eru uppfyllt og hafa verið staðfest af Matvælastofnun að lokinni úttekt.

Álag á svín má aldrei vera meira en þrek og annað líkamlegt ástand þeirra leyfir, né til þess fallið að valda streitu.

Óheimilt er að setja hring í trýni svína.

10. gr. Aðgerðir.

Við sársaukafulla aðgerð svo sem geldingu skal ávallt deyfa eða svæfa svín og veita því verkjastillandi meðferð. Dýralæknum er einum heimilt að gelda svín.

Óheimilt er að klippa hala grísa nema brýna nauðsyn beri til samkvæmt mati dýralæknis og skal það framkvæmt af dýralækni eða aðila með tilskilin leyfi Matvælastofnunar, að uppfylltum ákvæðum 1. mgr. Þó má í mesta lagi stytta hala um helming, nema af læknisfræðilegum ástæðum.

Óheimilt er að klippa tennur svína. Ef bit á júgri og/eða á gotsystkinum er vandamál, má raspa ofan af vígtönnum grísa yngri en 4 daga, en þess skal gætt að ekki opnist inn að tannkviku.

11. gr. Ræktun.

Óheimilt er að rækta undan svínum sem vitað er að bera alvarlegan erfðasjúkdóm eða erfðagalla.

Þegar hleypt er til gyltna eða þær sæddar skulu ásetningsgyltur hafa náð holdastigi 3, og vera minnst 6 mánaða. Eldri gyltur skulu ekki vera grennri en sem svarar holdastigi 2. Við mat á holdafari svína skal farið samkvæmt A-lið viðauka III.

12. gr. Handsömun, rekstur og flutningur.

Við handsömun og rekstur svína skal þess gætt að valda þeim ekki meiðslum, kvölum eða streitu og ótta. Rekstrarhópar skulu vera hóflegir að stærð. Óheimilt er við rekstur að nota tæki sem gefa rafstuð.

Um flutning á svínum skal farið eftir ákvæðum reglugerðar um flutning búfjár.

13. gr. Heilbrigði og forvarnir.

Umráðamaður skal fylgjast með holdafari og heilbrigði svína í hans umsjá og kalla til dýralækni ef með þarf. Sjúk og/eða slösuð svín skulu fá viðeigandi meðferð og skulu færð eins fljótt og auðið er í sérstaka sjúkrastíu með þurru, hreinu og mjúku undirlagi. Það skal vera möguleiki á hitagjafa í sjúkrastíu. Gæta skal þess að í hverri sjúkrastíu séu haldin svín af svipaðri stærð. Rými í sjúkrastíum skal að jafnaði vera tvöfalt meira en almenn lágmarksgildi fyrir viðkomandi dýrahóp.

Tryggja skal að holdafar svína, undirburður og undirlag sé með þeim hætti að það fyrirbyggi sár, svo sem legu- eða bógsár. Komi engu að síður sár, skal meðhöndla þau í samráði við dýralækni. Um mat á bógsárum fer samkvæmt B-lið viðauka III.

Verja skal svín gegn sjúkdómum og ytri og innri sníkjudýrum. Komi upp slík vandamál skal meðhöndla svínin þegar í stað, í samráði við dýralækni.

Dauð svín skulu tafarlaust fjarlægð úr umhverfi lifandi svína, svo sem úr stíum og húsum og hræjum fargað á viðurkenndan hátt.

14. gr. Aflífun.

Svín sem eru alvarlega sjúk og/eða slösuð og læknismeðferð ekki möguleg, skulu tafarlaust aflífuð.

Við aflífun á svínum skal beita pinnabyssu eða öðru hentugu skotvopni, og blóðga strax á eftir. Þó er heimilt að aflífa grísi sem eru undir 5 kg í lífþyngd með þungu höfuðhöggi og blóðgun strax á eftir. Tryggja þarf að svínið hafi misst meðvitund áður en blóðgun á sér stað. Ekki er heimilt að aflífa svín með blóðgun einni saman. Dýralækni er einum heimilt að aflífa með lyfjum. Aflífun skal eiga sér stað án þess að önnur dýr verði hennar vör.

Um beitingu skotvopna við aflífun fer samkvæmt C-lið viðauka III.

Þeir einir mega aflífa svín sem hafa aflað sér til þess viðhlítandi þekkingar.

Um aflífun gildir að öðru leyti reglugerð um vernd dýra við aflífun.

IV. KAFLI Aðbúnaður.

15. gr. Húsakostur.

Legusvæði skal vera þurrt og hreinsað þannig að svínin haldist hrein og þurr. Flórar og föst gólf skulu vera með góðu frárennsli. Undirburði í stíum skal þannig viðhaldið að svín haldist hrein og þurr.

Öll svín sem haldin eru saman í hópi skulu geta legið samtímis. Legurými skal aldrei vera minna en segir í A-lið viðauka II.

Stíur skulu vera þannig hannaðar að svín hafi auðvelda undankomuleið og ekki skapist hætta á að þau verði innikróuð.

Innréttingar, rekstrargangar, dyr og rampar skulu hannaðir þannig að rekstur gangi auðveldlega fyrir sig og valdi svínum ekki óþarfa streitu.

Í gotstíum skal vera sérstakt svæði fyrir spenagrísi þar sem þeir eru óhultir fyrir gyltunni. Sá staður skal hafa sérstakan hitagjafa.

Stærðir og hlutföll rimla og raufa skulu vera þannig að ekki hljótist meiðsl af.

Um stærð bása, stía, legurýma, rimla- og raufabreidda fer samkvæmt viðauka II.

16. gr. Lýsing, loftgæði og hljóðvist.

Birta hjá svínum skal fylgja sólarhringnum með minnst 8 klst. í fullu ljósi annars vegar og 8 klst. í myrkri (eða slökkt ljós) hins vegar. Þetta á ekki við um hitaljós hjá spenagrísum, fráfærugrísum og/eða sjúkum/slösuðum grísum. Ljósstyrkurinn skal vera að lágmarki 75 lux á þeim tíma sem fullt ljós er.

Tryggja skal eðlileg og nægileg loftskipti fyrir svín án þess að dragsúgur myndist í umhverfi þeirra sbr. E-lið viðauka II. Ryk og skaðlegar lofttegundir skulu ekki berast inn til svína eða vera í umhverfi þeirra í styrk sem er skaðlegur heilsu svína. Ekki skulu vera opin tengsl á milli haughúss og deilda. Gæta skal að ekki hljótist af heilsutjón vegna losunar lofttegunda við flutning á saur og þvagi úr deildum í haughús.

Tryggja skal að hávaði valdi ekki streitu eða álagi hjá svínum. Stöðugur hávaði frá umhverfi, svo sem loftræstingu skal að jafnaði ekki fara yfir 65 dB.

17. gr. Útivist og skjól.

Ef svín ganga úti skulu þau ávallt geta leitað skjóls í húsi með að lágmarki þremur veggjum og þaki og með heppilegum undirburði.

Útisvæði skulu vera þess eðlis að öryggi svína sé tryggt og að þeim stafi ekki slysahætta af. Á útisvæði svína skal vera jarðvegur eða hlutir sem gera þeim kleift að róta eða krafsa. Á fóðursvæðum og á öðrum svæðum þar sem mikill átroðningur er skal vera þétt undirlag með góðu frárennsli.

18. gr. Slysavarnir.

Byggingar, innréttingar, girðingar, tæki og tól skulu þannig hönnuð og þeim þannig viðhaldið að þau geti ekki valdið svínum skaða. Gólf og legusvæði skulu vera með stömu yfirborði. Legusvæði skulu vera þannig gerð að þau valdi ekki meiðslum þegar svín liggja og standa upp.

Tryggja skal að laus svín hafi ekki aðgang að fóðurgeymslu.

Þar sem velferð og heilbrigði svína er háð vélknúinni loftræstingu skal vera til staðar viðvörunarkerfi og vararafstöð og eldsneyti sem tryggir nægjanlega lágmarksloftræstingu í a.m.k. 5 sólarhringa.

Á hverju svínabúi skal vera til staðar áætlun um hvernig bregðast skuli við fari viðvörunarkerfi í gang.

19. gr. Smitvarnir.

Hafi aðilar verið á svínabúum eða sýningum erlendis, þar sem svín hafa verið eða komist í snertingu við hugsanlegt smit sem getur borist í svín hérlendis, skulu þeir ekki fara inn á svínabú eða vera í snertingu við svín fyrr en í fyrsta lagi 48 klst. eftir komu til landsins.

Við innganga í svínahús, sem ætla má að smitefni geti borist inn um með gestum og þjónustuaðilum, skal vera aðstaða til þrifa á fótabúnaði og höndum og/eða viðeigandi hlífðarfatnaður til staðar.

Umhverfi svínahúsa og viðkomandi bygginga skal vera með þeim hætti að smitefni berist ekki auðveldlega inn í þau, né að þau dragi að sér smitbera s.s. nagdýr, skordýr eða fugla.

Við móttöku og afhendingu svína skal gæta að smitvörnum og tryggja að aðstaða til þrifa og sótthreinsunar sé til staðar.

Við móttöku fóðurs og annarra aðfanga skal gæta að smitvörnum. Fóðurgeymsla og aðgengi að henni skal vera hreint og þurrt eða tryggt á annan þann hátt að fóður mengist ekki, þannig að svínum geti stafað smithætta af.

Fóður- og brynningarbúnaður skal þannig útbúinn, uppsettur og viðhaldið að hætta á mengun, bæði af saur eða öðrum óhreinindum, sé í lágmarki.

Gólf, veggir, loft, innréttingar og búnaður í svínahúsum skulu gerð úr þannig efni og þannig viðhaldið að auðvelt sé að þrífa þau reglulega og sótthreinsa og skal það gert ef hætta er á að hættulegt smitefni sé til staðar.

V. KAFLI Önnur ákvæði.

20. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

21. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 353/2011 um aðbúnað og heilbrigði svína, ásamt síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabrigða.

Matvælastofnun getur veitt framleiðanda frest til aðlögunar að skilyrðum 2. mgr. 7. gr. og 2. og 7. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar ef aðstæður eru þannig að kostnaðarsamt er fyrir viðkomandi framleiðanda að uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Matvælastofnun skal ekki veita lengri fresti en til 1. janúar 2025.

Matvælastofnun er óheimilt eftir 1. janúar 2016 að veita undanþágu til notkunar á básum sem varanlegum vistarverum gyltna nema básarnir séu þannig úr garði gerðir að gyltan geti lagst, legið og rétt úr sér liggjandi án átroðnings frá gyltum í næstu básum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.