Leita
Hreinsa Um leit

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

425/1995

Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja. - Brottfallin

Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja.

I. GILDISSVIÐ O.FL.

Gildissvið.

1. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar gilda um stærð og þyngd ökutækja, samkvæmt skilgreiningu 2. gr., sem ætluð eru til notkunar á opinberum vegum, þ.e. þjóðvegum og öðrum vegum í eigu opinberra aðila, svo sem sveitarfélaga, sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda og, eftir því sem við á, um stærð og þyngd annarra ökutækja.

Ákvæðin gilda um notkun ökutækja hér á landi. Um notkun ökutækja, sem skráð eru hér á landi, í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) gilda ákvæði EBE tilskipunar nr. 85/3 með áorðnum breytingum, síðast með tilskipun nr. 92/7.

Skilgreiningar.

2. gr.

Ökutæki: Ökutæki sem er notað á vegum, er á a.m.k. fjórum hjólum, er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. og er annað hvort ætlað:

 • til vöruflutninga þegar hámarksþyngd með farmi fer yfir 3,5 tonn, eða
 • til farþegaflutninga, ef það er með fleiri en níu sæti að meðtöldu sæti ökumanns.

Bifreið: Ökutæki búið aflvél til að knýja það áfram.

Hópbifreið: Bifreið, sem ætluð er til flutnings fleiri en átta farþega, einnig þótt bifreiðin sé jafnframt ætluð til annarra nota.

Liðvagn: Hópbifreið sem sett er saman úr tveimur ósveigjanlegum hlutum sem eru tengdir saman með liðamótum. Innangengt skal vera á milli farþegavagnanna.

Samtengd ökutæki: Vagnlest sem samanstendur af bifreið og viðtengdum eftirvagni.

Eftirvagn: Ökutæki sem hannað er til að vera dregið af öðru ökutæki og aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga.
Útfærsla eftirvagns getur verið þrenns konar:

 • Tengivagn: Eftirvagn á tveimur ásum eða fleiri sem tengdur er við dráttartæki án þess að lóðréttir kraftar geti flust á milli ökutækjanna.
 • Festivagn: Eftirvagn á einum ási eða fleiri sem tengdur við dráttartæki þannig að hluti af þyngd eftirvagnsins hvílir á því.
 • Hengivagn: Eftirvagn á einum ási eða tvíása sem tengdur er við dráttartæki þannig að lóðréttir kraftar færast á milli ökutækjanna.

Kælivagn með þykkum veggjum: Ökutæki, með fastri eða færanlegri yfirbyggingu, sem er sérbúið til flutninga á vörum við fast hitastig í samræmi við B, C, E og F flokka í alþjóðasamningi frá 1. september 1970 um millilandaflutninga á matvælum sem eru viðkvæm fyrir skemmdum og um sérstakan búnað sem nota á til slíkra flutninga (ATP) og sem er með a.m.k. 45 mm þykkum hliðarveggjum að einangrun meðtalinni.

Mesta leyfileg heildarþyngd: Mesta þyngd ökutækis, eða samtengdra ökutækja, með ökumanni, farþegum, farmi og viðfestum vinnutækjum sem leyfð er í akstri.

Leyfður ásþungi: Mesti þungi sem flyst á veg af hjólum á einum ási ökutækis sem leyfður er í akstri.

II. LENGD, BREIDD OG HÆÐ ÖKUTÆKJA.

Lengd ökutækja.

3. gr.

Ökutæki má ekki vera lengra en sem hér segir:

Bifreið 12 m.

Eftirvagn 12 m.

Vagnlest, bifreið með festivagni eða hengivagni 16,5 m.

Vagnlest, bifreið með tengivagni 18,35 m.

Liðvagn 18 m.

Lengd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst fram og lengst aftur. Þó skal mæla lengd eftirvagns frá hugsaðri lóðréttri línu í gegnum miðju tengingar að aftasta hluta eftirvagnsins. Fjarlægð frá lóðréttri línu í gegnum miðju tengipinna að fremsta hluta festivagns má ekki vera meira en 2,04 m.

Bifreið, svo og samtengdum ökutækjum, skal vera hægt að aka á snúningsboga með 12,5 m radíus í ytri hring og 5,3 m radíus í innri hring.

4. gr.

Fjarlægð mæld samhliða lengdarási vagnlestar frá utanverðum fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að utanverðum aftasta hluta eftirvagns, að frádreginni fjarlægðinni milli afturenda dráttartækisins og framenda eftirvagnsins, má mest vera 15,65 m.

Fjarlægð mæld samhliða lengdarási vagnlestar frá utanverðum fremsta hluta farmrýmis aftan við stýrishús að utanverðum aftasta hluta eftirvagns má mest vera 16 m. Fjarlægðin milli aftasta áss bifreiðar og miðlínu fremsta áss tengivagns má ekki vera innan við 3 m.

Breidd ökutækja.

5. gr.

Breidd bifreiðar og eftirvagns má ekki vera meiri en 2,55 m. Yfirbygging kælivagns með þykkum hliðarveggjum má mest vera 2,6 m.

Breidd vinnuvélar eða tengitækis til landbúnaðarstarfa eða vegavinnu má mest vera 3,3 m. Lögregla getur bannað akstur slíkra ökutækja þegar sérstaklega stendur á.

Breidd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst til hliðar. Speglar eða ljósker á hliðum ökutækis teljast ekki til breiddar þess, né heldur keðjur á hjólbörðum.

6. gr.

Breidd eftirvagns eða tengitækis sem bifreið dregur má, auk þess sem tilgreint er í 1. mgr. 5. gr., ekki ná meira en 30 sm út fyrir hvora hlið bifreiðarinnar.

Hæð ökutækja.

7. gr.

Hæð ökutækis má ekki vera meiri en 4 m.

Hæð ökutækis skal mæld lóðrétt frá yfirborði vegar að þeim hluta þess sem hæst stendur.

Almenn ákvæði.

8. gr.

Mál sem tilgreind eru um lengd, breidd og hæð ökutækja eiga einnig við lausar yfirbyggingar og staðlaðar farmeiningar, t.d. gáma, svo og um farm ökutækisins.

Undanþágur.

9. gr.

Lögreglustjóri getur, að höfðu samráði við veghaldara, veitt undanþágu frá ákvæðum um mestu lengd, breidd og hæð ökutækja þegar brýn nauðsyn þykir vegna sérstakra flutninga. Leyfi skal að jafnaði því aðeins veita að flutningarnir geti ekki með góðu móti farið fram með öðrum hætti. Leyfið skal að jafnaði vera skriflegt og haft meðferðis meðan á flutningi stendur.

Leyfi má veita fyrir einstökum flutningi eða sem almennt leyfi í allt að eitt ár. Lögreglustjóri getur sett nánari skilyrði fyrir leyfi.

Þegar undanþága varðar flutning um tvö eða fleiri lögreglustjórnarumdæmi veitir lögreglustjóri þar sem ferð hefst leyfið.

Varúð.

10. gr.

Ökumaður fyrirferðarmikils ökutækis skal sýna sérstaka varúð og tillitssemi gagnvart annarri umferð. Hann skal og víkja greiðlega fyrir öðrum ökutækjum og nema staðar ef þörf krefur.

Þrátt fyrir ákvæði um hæð ökutækja hvílir sú skylda á ökumanni við akstur undir brú, í göngum, undir rafmagns- eða símalínu eða við svipaðar aðstæður að ganga úr skugga um að það sé unnt án hættu eða óþæginda.

III. HEILDARÞYNGD OG ÁSÞUNGI ÖKUTÆKJA

Almenn ákvæði.

11. gr.

Mesta leyfileg heildarþyngd og leyfður ásþungi ökutækja skal vera innan marka sem kveðið er á um í viðauka I. Á vegum sem ekki þola þá heildarþyngd og þann ásþunga sem tilgreindur er í viðauka I skal þyngdin vera innan marka sem kveðið er á um í viðauka II. Veghaldari skal gera og gefa út skrá yfir vegi sem falla undir ákvæði viðauka I eða viðauka II. Ef slík skrá er ekki gerð gilda ákvæði viðauka I.

Ásþyngd drifáss eða drifása ökutækis eða samtengdra ökutækja má ekki vera innan við 25% af heildarþyngd hlaðins ökutækis eða samtengdra ökutækja.

Mesta leyfileg heildarþyngd og leyfður ásþungi ökutækis miðast við að loftþrýstingur í hjólbörðum sé ekki meiri en 0,8 MPa (8 bör eða 116 PSI), mælt í köldum hjólbarða.

Heildarþyngd bifreiðar með fimm eða sex ásum má mest vera 32 tonn og gilda þá ákvæði liðar 1.3.3 í viðauka I.

Heildarþyngd bifreiðar á beltum má mest vera 12 tonn.

12. gr.

Ökutæki má aldrei hlaða þannig að heildarþyngd þess eða ásþungi verði meiri en heimilað er í skráningarskírteini þess.

13. gr.

Veghaldari getur takmarkað tímabundið mestu leyfðu heildarþyngd og leyfðan ásþunga ökutækja, sbr. 11. gr., miðað við burðarþol brúar eða vegar, svo sem á þeim árstíma þegar burðarþol vegar er skert vegna frostþíðuáhrifa.

Undanþágur.

14. gr.

Veghaldari getur leyft meiri heildarþyngd ökutækja á einstökum vegum eða vegarköflum og leyft allt að:

a. 44 tonn fyrir vagnlest sem samanstendur af þríása bifreið og tvíása eftirvagni, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 • hver ás nema framás bifreiðar sé á tvöföldum hjólum og með loftfjöðrum eða öðrum fjöðrunarbúnaði sem telst jafngildur,
 • vagnlestin sé knúin af tveimur sívirkum drifásum,
 • þungi á framási sé ekki meiri en 7 tonn en á öðrum ásum ekki meiri en 10 tonn, og
 • loftþrýstingur í hjólbarða sé takmarkaður í allt að 0,5 MPa (5 bör eða 70 PSI) mælt í köldum hjólbarða eftir ástandi vegar, gerð ökutækis og kröfum veghaldara.

b. 49 tonn fyrir vagnlest sem samanstendur af þríása bifreið með þríása eftirvagni, enda séu uppfyllt:

 • sömu skilyrði og tilgreind eru í a-lið, og
 • a.m.k. 14 m séu milli fremsta og aftasta áss vagnlestar og a.m.k. 6 m frá aftasta ási ökutækis að fremsta ási festivagns.

Veghaldari getur bundið heimild þessa við ástand vega hverju sinni og gerð ökutækis.

15. gr.

Veghaldari ákveður nánar og gefur út undanþágur um mestu leyfðu heildarþyngd og leyfðan ásþunga ökutækja ef ökutæki uppfyllir ekki fyllilega ákvæði reglugerðar þessarar, t.d. um bil milli ása eða fjöðrunarbúnað. Undanþágur þessar er heimilt að veita allt til 1. júní 1997.

Þá getur veghaldari og veitt undanþágu frá ákvæðum um heildarþyngd og ásþunga ökutækis þegar brýn nauðsyn þykir vegna sérstakra flutninga.

Leyfi skal að jafnaði því aðeins veita að flutningarnir geti ekki með góðu móti farið fram með öðrum hætti. Leyfið skal að jafnaði vera skriflegt og haft meðferðis meðan á flutningi stendur. Veghaldari getur sett nánari skilyrði fyrir leyfi.

16. gr.

Brot á skilyrðum fyrir undanþágu eða akstur með þunga umfram heimild getur varðað afturköllun leyfis.

IV. LÖGREGLUAÐSTOÐ

17. gr.

Sá sem fær undanþágu til flutninga samkvæmt 9. gr. eða 2. mgr. 15. gr. skal greiða fyrir lögregluaðstoð sem að mati lögreglustjóra er þörf á við flutninginn.

Lögreglustjóri getur krafist þess að kostnaður þessi verði greiddur fyrirfram eða að sett verði trygging sem hann metur gilda fyrir greiðslu hans.

V. GILDISTAKA

18. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 75. og 76. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, svo og með hliðsjón af 14. tölul. XIII. viðauka við EES samninginn (tilskipun 85/3/EBE með breytingum samkvæmt tilskipunum 86/360/EBE, 88/218/EBE, 89/338/EBE, 89/460/EBE, 89/461/EBE, 91/60/EBE og 92/7/EBE), öðlast gildi 15. ágúst 1995.

EBE gerðirnar sem vísað er til eru birtar í sérritinu EES gerðir S40, bls. 133-147, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda, og í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 4, bls. 375-378.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um stærð og þyngd ökutækja, nr.107 26. febrúar 1988, sbr. reglugerð nr. 447 19. nóvember 1990 og nr. 203 24. apríl 1991.

Ákvæði til bráðabirgða.

Nota má ökutæki sem er stærra en leyft er í reglugerð þessari ef notkun ökutækisins var heimil samkvæmt eldri reglum, með þeim takmörkunum sem hér greinir:

Eftir 31. desember 1995 skal vagnlest sem samanstendur af bifreið og festivagni ekki vera lengri en 19,5 m og vagnlest sem samanstendur af bifreið og tengivagni ekki lengri en 22 m.

Eftir 31. desember 2000 skal vagnlest sem samanstendur af bifreið og festivagni ekki vera lengri en 17,5 m og vagnlest sem samanstendur af bifreið og tengivagni ekki lengri en 20 m. Ákvæðið gildir til 31. desember 2005.

Til 31. desember 2005 má nota ökutæki sem er allt að 4,2 m að hæð.

Til 31. desember 2005 má nota hópbifreið sem er allt að 14,5 m að lengd.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 19. júlí 1995.
Þorsteinn Pálsson.
Ólafur W. Stefánsson.

Viðauki:

Sjá B-deild Stjórnartíðinda.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica