Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

1201/2014

Reglugerð um gjaldtöku í höfnum vegna losunar, móttöku, meðhöndlunar og förgunar úrgangs og farmleifa frá skipum.

1. gr. Gjaldtaka.

Innheimta skal gjald af skipum vegna losunar úrgangs og farmleifa í höfn sbr. f-lið 1. tölul. 2. mgr. 17. gr. hafnalaga, nr. 61/2003. Gjaldið skal standa straum af kostnaði við móttöku, meðhöndlun og förgun úrgangs og farmleifa frá skipum.

Fjárhæð gjalds skal ákveðin í gjaldskrá hafna. Í gjaldskránni skal jafnframt getið um lágmarksgjald fyrir losun úrgangs í höfn. Við ákvörðun fjárhæðar gjalds skal tekið mið af fjölda skipakoma þeirra skipa sem ætlað er að greiða gjaldið í höfn árið áður, auk viðmiða skv. 3. gr. reglugerðar þessarar.

2. gr. Lækkun gjalds.

Gjald skv. 1. gr. reglugerðar þessarar má lækka ef umhverfisstjórnun, hönnun, búnaður og starfræksla skips er með þeim hætti að skipstjóri geti sýnt fram á að minni úrgangur verði til um borð.

3. gr. Viðmið við ákvörðun fjárhæðar gjalds.

Þegar gjald er ákvarðað vegna losunar olíu, sorps og skólps í höfnum skal gjald reiknað á hvert brúttótonn skips auk þess sem mögulegt er að taka mið af fjölda daga frá síðustu viðkomu í höfn.

Þegar um er að ræða skemmtiferðaskip og farþegaferjur með fleiri en 500 farþega er heimilt að innheimta gjald vegna losunar sorps/skólps sem tekur mið af fjölda farþega/áhafnar um borð auk fjölda daga frá síðustu viðkomu í höfn en gjald fyrir losun olíuúrgangs skal greitt skv. 1. mgr.

4. gr. Undanþágur.

Undanþegin gjaldtöku skv. 1. gr. reglugerðar þessarar, eru fiskiskip, skemmtibátar sem ekki mega flytja fleiri en 12 farþega, herskip, hjálparskip í flota, skip sem þjónusta fiskeldi, skip í ríkiseign og skip í ríkisrekstri sem nýtt eru í þágu hins opinbera.

Hafnarstjóri getur veitt undanþágu frá greiðslu gjalds skv. 1. gr. reglugerðar þessarar, skipum í áætlunarsiglingum sem hafa tíða og reglulega viðkomu í höfnum og sýna fram á trygga afhendingu úrgangs og greiðslu gjalda í einhverri höfn á siglingaleiðinni sbr. 2. málsl. 3. mgr. 11. gr. c. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Skip sem keypt hafa olíu sem greitt hefur verið af úrvinnslugjald skv. lögum nr. 162/2002 um úrvinnslugjald eru undanskilin greiðslu gjalds vegna losunar olíu. Í þeim tilvikum er undanþága skv. 2. málsl. 3. mgr. 8. gr. laga um úrvinnslugjald á við þarf ekki að greiða gjald vegna losunar olíu.

5. gr.

Reglugerð þessi, er sett með stoð í 4. mgr. 11. gr. c laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Reglugerðin öðlast gildi 31. desember 2014.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 19. desember 2014.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Hugi Ólafsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.