Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

117/2009

Reglugerð fyrir Þjóðleikhús.

1. gr.

Þjóðleikhúsið er listastofnun á sviði leiklistar í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk þess er að sviðsetja árlega fjölbreytt úrval innlendra og erlendra sjónleikja, glæða áhuga landsmanna á leiklist, auðga leikhúsmenningu í landinu og stuðla að þróun sviðslista með því að efla íslenska leikritun og hlúa að nýsköpun á vettvangi leiklistarinnar. Þjóðleikhúsið skal leggja sérstaka rækt við íslenska tungu og kappkosta að vera til fyrirmyndar um listrænan flutning leikverka.

Starfsemi Þjóðleikhússins heyrir undir menntamálaráðherra.

2. gr.

Menntamálaráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn, að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og markar listræna stefnu þess í samráði við þjóðleikhúsráð. Hann stýrir leikhúsinu samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á rekstri þess, bæði listrænum og fjárhagslegum. Hann mótar innra skipulag leikhússins og setur því skipurit. Hann ræður starfsmenn leikhússins á grundvelli starfslýsingar og gerir við þá starfssamninga í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

3. gr.

Menntamálaráðherra skipar fimm manna þjóðleikhúsráð. Félag íslenskra leikara tilnefnir einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi annan en þrír eru skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna.

4. gr.

Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd leikhússins. Starfs- og fjárhagsáætlun hvers leikárs skal borin upp í þjóðleikhúsráði til samþykktar, svo og reikningar hvers liðins starfsárs. Ráðinu ber að fylgjast með framkvæmd áætlana og stuðla að því að starfsemin búi við raunhæfan rekstrargrundvöll. Ráðið vinnur með þjóðleikhússtjóra að langtímaáætlun um starfsemi leikhússins og er umsagnaraðili um allar meiriháttar ákvarðanir og stefnumarkandi mál. Þjóðleikhúsráð er umsagnaraðili um skipan þjóðleikhússtjóra og setur sér vinnureglur um mat á hæfni umsækjenda.

Fundir þjóðleikhúsráðs skulu haldnir eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði á starfstíma leikhússins. Formaður ráðsins boðar til funda og stýrir þeim.

Halda skal gerðabók um störf þjóðleikhúsráðs.

5. gr.

Þjóðleikhúsbyggingin er eign íslensku þjóðarinnar. Þjóðleikhússtjóri hefur yfirumsjón með húsakynnum Þjóðleikhússins og öllum eignum þess. Viðhald leikhúsbyggingarinnar er á hendi Fasteigna ríkissjóðs.

Þjóðleikhúsbyggingin stendur ekki til tryggingar skuldbindingum Þjóðleikhússins.

6. gr.

Þjóðleikhúsið skal stuðla að samstarfi við listastofnanir og hópa listamanna sem iðka listgreinar tengdar leiksviði og auðgað geta starfsemina, með sérstöku tilliti til listdanssýninga og óperuflutnings.

Einnig ber Þjóðleikhúsinu að leitast við að efna til hagkvæms samstarfs við stofnanir á sviði listmiðlunar, svo sem ljósvakamiðla.

Þá skal Þjóðleikhúsið stuðla að samstarfi við menntastofnanir er sinna fræðslu og rannsóknarstarfi í listum, m.a. með því að gera leiklistarnemendum kleift að fylgjast með leikhússtarfinu.

Þjóðleikhúsið skal eftir föngum leggja leikfélögum áhugamanna lið og stuðla að samstarfi um afmörkuð verkefni.

7. gr.

Þjóðleikhúsið skal standa að öflugu starfi í þágu barna með fjölbreyttu úrvali leiksýninga. Það skal halda uppi og stuðla að skipulegu fræðslustarfi fyrir nemendur á öllum skólastigum og móta kennsluefni tengt sýningum leikhússins. Einnig skal leikhúsið leggja áherslu á að bjóða upp á farandsýningar fyrir skólahópa á landsbyggðinni.

8. gr.

Þjóðleikhúsið skal stuðla að samstarfi við erlend leikhús, sviðslistahópa og einstaka listamenn með það að markmiði að auðga leikhúsmenningu í landinu og miðla íslenskri listsköpun erlendis. Það skal m.a. gert með samstarfsverkefnum, boði til erlendra listamanna um að taka að sér tilekin verkefni fyrir leikhúsið, leikferðum til annarra landa og móttöku erlendra gestasýninga.

9. gr.

Þjóðleikhúsinu ber að skrá og varðveita gögn og heimildir um starfsemina, svo sem ljósmyndir, handrit, mynddiska og annað sem talið er hafa menningarsögulegt gildi.

10. gr.

Þjóðleikhúsið setur sér starfsmannastefnu í samræmi við markmið sín og ákvæði kjarasamninga og jafnréttisáætlun í samræmi við gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Starfsmenn taki þátt í mótun starfsmannastefnu og jafnréttisáætlunar.

11. gr.

Þjóðleikhúsið skal upplýsa almenning um starfsemi leikhússins m.a. með því að birta upplýsingar um sýningar og viðburði á heimasíðu leikhússins.

Þar skulu einnig vera aðgengilegar upplýsingar um skipurit og innra starfsskipulag, svo sem ábyrgðasvið, deildaskiptingu og helstu störf og starfsmenn.

12. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 8. gr. leiklistarlaga nr. 138 frá 1998, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð fyrir Þjóðleikhús nr. 549 frá 1982, með síðari breytingum.

Menntamálaráðuneytinu, 15. janúar 2009.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Halldór Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.