Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

115/1971

Reglugerð um flutning líka - Brottfallin

1. gr.

Enginn má taka lík til flutnings inn í landið eða úr landi nema það sé í loft- og lagarheldri málmkistu, en þar utan yfir sé traust trékista, og svo um búið, að málmkistan haggist ekki innan í trékistunni. Líkinu skal fylgja vottorð um umbúnað þess og vottorð læknis þar sem tekið er fram, hvort um næman sjúkdóm sé að ræða, er sótthætta geti stafað af.


2. gr.

Sé um lík að ræða, er gæti borið með sér smit einhverrar þeirrar sóttar, er sóttvarnarráðstöfunum samkvæmt sóttvarnarlögum ber ávallt að beita gegn (bólusótt, kólera, svarti dauði), fer um flutning þess og vörzlu í samræmi við ákvæði sóttvarnarreglugerðar. Beita má og sömu ákvæðum þótt um aðra sótt sé að ræða, þegar landlæknir telur sérstaka ástæðu til og ráðherra úrskurðar að svo skuli gert.


3. gr.

Um lík, sem flutt er milli prestakalla hér á landi, skal svo búið (sbr. 4. gr.) að það sé í loft- og lagarheldri kistu úr málmi, eða öðru jafngildu efni, og sé hún skorðuð svo ekki haggist innan í trékistu. Líkinu skal fylgja vottorð um umbúnað þess.


4. gr.

Héraðslæknir (borgarlæknir) má veita undanþágu frá ákvæðum 3. gr., þegar um stuttar ferðir er að ræða, lík aðeins fárra daga gamalt og sótthætta kemur ekki til greina.


5. gr.

Nú óskar maður að grafa upp lík til að flytja það í burtu, og skal þá leita heimildar ráðherra. Ef ráðherra heimilar uppgröftinn, segir hann nánar fyrir hverjar varúðarráðstafanir skuli viðhafðar.


6. gr.

Reglur þessar hagga í engu ákvæðum sóttvarnarlaga og sóttvarnarreglugerðar um frekari öryggisráðstafanir gegn útbreiðslu næmra sótta.


7. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum, nema þyngri refsingu varði samkvæmt almennum lögum.


8. gr.

Reglugerð þessi staðfestist hér með samkvæmt heimild í 39. gr. laga nr. 34 12. apríl 1954 til þess að öðlast gildi þegar í stað.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 30. júní 1971.

Eggert G. Þorsteinsson.
Páll Sigurðsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica