Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

1144/2025

Reglugerð um plastvörur.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis, koma í veg fyrir og draga úr myndun úrgangs af völdum plastvara ásamt því að draga úr áhrifum af notkun þeirra á umhverfið.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um plastvörur sem settar eru á markað hér á landi og falla undir X. kafla A í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Framleiðandi og innflytjandi: Aðili sem:

  1. í atvinnuskyni framleiðir, fyllir á, selur eða flytur inn og setur á markað í því ríki þar sem hann hefur starfsstöð einnota plastvöru, áfyllta einnota plastvöru eða veiðarfæri sem innihalda plast, óháð þeirri sölutækni sem er notuð, eða
  2. í atvinnuskyni selur einnota plastvöru, áfyllta einnota plastvöru eða veiðarfæri sem innihalda plast beint til notenda yfir landamæri.

Einnota plastvara: Vara sem gerð er úr plasti að öllu leyti eða að hluta til og er ekki hugsuð, hönnuð eða sett á markað til að fara á vistferli sínum í gegnum margar ferðir eða hringrásir þar sem henni er skilað aftur til framleiðanda til enduráfyllingar eða endurnotkunar í sama tilgangi og henni var ætlað upphaflega.

Plast: Efni sem samanstendur af fjölliðu, eins og hún er skilgreind í reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), sem íblöndunarefnum eða öðrum efnum kann að hafa verið bætt við og getur nýst sem aðalbyggingarefni fullunninnar vöru, þ.m.t. plast sem getur brotnað niður með eðlisfræðilegu og lífrænu niðurbroti, en undanskildar eru náttúrulegar fjölliður sem hefur ekki verið breytt með efnafræðilegum aðferðum.

Plast sem er niðurbrjótanlegt með oxun: Er efni úr plasti sem inniheldur íblöndunarefni sem leiða til þess með oxun að plastefnið sundrast í öragnir eða úr verður efnafræðilegt niðurbrot.

Setja á markað: Er þegar vara er í fyrsta sinn afhent hér á landi í atvinnuskyni til dreifingar, neyslu eða notkunar, hvort sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

Veiðarfæri: Hver sá hlutur eða hluti af búnaði sem er notaður við fiskveiðar eða í lagareldi til að einangra, fanga eða ala líffræðilegar auðlindir hafsins eða sem flýtur á yfirborði hafsins og er notað með það fyrir augum að laða að og fanga eða ala slíkar líffræðilegar auðlindir hafsins.

Veiðarfæraúrgangur: Öll veiðarfæri sem falla undir skilgreininguna á úrgangi í lögum um meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. allir aðskildir íhlutir, efni eða efniviðir sem voru hluti af eða festir við slík veiðarfæri þegar þeim var fleygt, þ.m.t. þegar þau voru skilin eftir eða týndust.

4. gr. Merkingar einnota plastvara.

Framleiðendur eða innflytjendur sem setja eftirfarandi einnota plastvörur á markað hér á landi er skylt að sjá til þess að þær séu merktar samkvæmt þeim kröfum sem koma fram í 2. mgr.:

  1. dömubindi (innlegg) og tíðatappar og hólkar til að koma tíðatöppum fyrir,
  2. blautþurrkur, þ.e. forbleyttar þurrkur til persónulegrar umhirðu og heimilisnota,
  3. tóbaksvörur með síum og síur sem eru settar á markað til notkunar í samsetningu með tóbaksvörum, og
  4. bollar og glös fyrir drykkjarvörur.

Merkingin skal vera í samræmi við kröfur sem koma fram í I.-IV. viðauka við framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2151 frá 17. desember 2020 um reglur um samræmdar nákvæmar skilgreiningar um merkingar á einnota plastvörum sem eru tilgreindar í D-hluta viðaukans við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Upplýsingatextinn á merkingunni skal vera á íslensku. Þó má merking innfluttrar vöru bera upprunalegan texta á dönsku, norsku, sænsku eða ensku.

5. gr. Töluleg markmið fyrir söfnun til endurvinnslu á veiðarfæraúrgangi
sem inniheldur plast.

Söfnunarhlutfall á veiðarfæraúrgangi sem inniheldur plast skal vera yfir hvert almanaksár a.m.k. 60% af því magni af veiðarfærum sem innihalda plast sem sett eru á markað að meðaltali á viðkomandi almanaksári og næstu fjórum almanaksárum á undan. Meðhöndlun veiðarfæraúrgangs sem inniheldur plast skal vera í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs skv. 7. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003 .

6. gr. Eftirlit.

Um eftirlit með reglugerð þessari fer samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 .

7. gr. Þvingunarúrræði, málsmeðferð og viðurlög.

Um þvingunarúrræði, málsmeðferð og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum XVII.-XIX. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

8. gr. Innleiðing tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirtöldum EES-gerðum:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.
  2. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2151 frá 17. desember 2020 um reglur um samræmdar nákvæmar skilgreiningar um merkingar á einnota plastvörum sem eru tilgreindar í D-hluta viðaukans við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.

9. gr. Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Eftirtalin gerð sem vísað er til í XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, skal öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

  1. Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2020/2151 frá 17. desember 2020 um reglur um samræmdar nákvæmar skilgreiningar um merkingar á einnota plastvörum sem eru tilgreindar í D-hluta viðaukans við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið sem vísað er til í lið 9dd í XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 286/2024 frá 6. desember 2024. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 10/2025, 20. febrúar 2025, bls. 934-944.

10. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 7. tölul. 5. gr. og 2. mgr. 37. gr. d laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 . Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 5. nóvember 2025.

Jóhann Páll Jóhannsson.

Stefán Guðmundsson.

B deild - Útgáfudagur: 6. nóvember 2025


Þetta vefsvæði byggir á Eplica