Fara beint í efnið

Prentað þann 29. apríl 2024

Breytingareglugerð

1131/2023

Reglugerð um breytingu á reglugerð um endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 1271/2016.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. reglugerðarinnar:

Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Til þess að kostnaður skv. d-lið 1. mgr. geti talist endurgreiðsluhæfur þarf að vera um að ræða kostnað við sjálfa ferðina til og frá áfangastað. Ekki er átt við óbeinan ferða- og flutningskostnað líkt og gistingu, bílaleigukostnað, viðhald hljóðfæra og uppihald.

Til þess að kostnaður skv. e-lið 1. mgr. geti talist endurgreiðsluhæfur ber umsækjanda að sýna fram á þann kostnað sem féll til við hljóðritun sem sótt er um endurgreiðslu vegna. Við mat á því hvort fallast skuli á endurgreiðslu vegna eigin vinnu ber nefnd skv. 4. gr. laga nr. 110/2016 að hafa að leiðarljósi umfang umsóknar, útlagðan kostnað umsækjanda og hvort það þjóni markmiði laga nr. 110/2016, og reglugerða settra á grundvelli laganna, að fallast á slíka endurgreiðslu.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. reglugerðarinnar.

Á eftir 2. mgr. 8. gr. bætast við tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Nefnd skv. 4. gr. laga nr. 110/2016 er heimilt að kalla eftir frekari gögnum telji hún það nauðsynlegt. Bregðist umsækjandi ekki við beiðni nefndarinnar um frekari gögn innan hæfilegra tímamarka, eða nefndin metur umsóknina enn ófullkomna þrátt fyrir að frekari gögnum sé skilað, er henni heimilt að byggja mat sitt á þeim gögnum sem þegar liggja fyrir.

Nefndin skal við afgreiðslu umsókna meta hvort viðkomandi tónlistarframleiðsla sé til þess fallin að styrkja innviði tónlistariðnaðarins.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 110/2016 um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist og öðlast þegar gildi.

Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 13. október 2023.

F. h. r.

Harpa Theódórsdóttir.

Sóldís Rós Símonardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.