Innviðaráðuneyti

1123/2025

Reglugerð um framlög jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk.

1. gr. Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk.

Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk eru eftirfarandi og skulu þær renna í sérstaka deild innan sjóðsins:

  1. Hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga af álagningarstofni útsvars er nemur 1,44%.
  2. Framlag úr ríkissjóði er nemur 0,235% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs.
  3. Sérstakt framlag úr ríkissjóði vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).

Við skil á staðgreiðslu útsvars samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda skulu Jöfnunarsjóði gerð skil á sínum hluta skv. a-lið 1. mgr. Fjársýsla ríkisins skal sjá um útreikning á tekjum þessum og skipta innheimtri staðgreiðslu hvers mánaðar milli ríkis, sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs. Tekjur sjóðsins skulu reiknaðar af þeim stofni sem staðgreiðsla hvers mánaðar er greidd af.

Enn fremur skal Fjársýsla ríkisins við álagningu sjá um útreikning á hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvari af þeim tekjum sem skattlagðar eru eftir á. Fjársýsla ríkisins skal í uppgjöri staðgreiðslu sveitarfélaga við álagningu útsvars, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, taka tillit til hlutdeildar Jöfnunarsjóðs og gera sjóðnum skil á henni.

Til viðbótar þeim tekjum Jöfnunarsjóðs, sem tilgreindar eru í 1. mgr., eru til ráðstöfunar á árinu óráðstöfuð framlög frá fyrra ári vegna NPA.

2. gr. Framlög.

Jöfnunarframlög vegna þjónustu við fatlað fólk skiptast í:

  1. Almenn framlög til þjónustusvæða og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á grunni laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, sbr. 3. gr.
  2. Önnur framlög, sbr. 4. gr.
  3. Framlög vegna NPA, sbr. 5. gr.
  4. Framlög í Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk eru óháð öðrum framlögum sjóðsins, sbr. þó 4. mgr. 3. gr.

Jöfnunarsjóður sendir þjónustusvæðum/sveitarfélögum upplýsingar um áætluð framlög ársins og greiðsludreifingu þeirra eftir því sem við verður komið. Framlög skulu greidd mánaðarlega. Framlög skulu endurskoðuð innan ársins í samræmi við breytingar á áætluðum tekjum sjóðsins, sbr. 1. gr. og á grundvelli nýrra upplýsinga frá þjónustusvæðum/sveitarfélögum.

3. gr. Almenn framlög vegna þjónustu við fatlað fólk.

I. HLUTI: SKIPTING RÁÐSTÖFUNARFJÁRMAGNS.

Áætluðum ráðstöfunartekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk, að frádregnu framlagi í Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, framlögum vegna NPA og öðrum framlögum, sbr. b- og d-lið 1. mgr. og 2. mgr. 2. gr., skal skipta milli sveitarfélaga sem mynda þjónustusvæði með eftirfarandi hætti:

  1. 88% skiptast hlutfallslega miðað við niðurstöðu mælinga á útgjaldaþörf, sbr. II. hluta þessarar greinar.
  2. 10,75% skiptast hlutfallslega miðað við áætlaðan útsvarsstofn sveitarfélaga.
  3. 1,25% skiptist eftir fjarlægðum innan þjónustusvæða og að teknu tilliti til fjölda sveitarfélaga sem eiga í samstarfi um þjónustuna. Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs skal setja sér verklagsreglur um hvernig skiptigrunnur samkvæmt þessum tölulið er reiknaður út.

Áætluð framlög ársins eru reiknuð út á grundvelli framlaga ársins á undan að teknu tilliti til endanlegs álagningarstofns útsvars á árinu þar á undan og endurskoðaðrar áætlunar um útsvarstekjur sveitarfélaga. Framlögin skulu síðan endurreiknuð sem hér segir:

  1. Í maí á grundvelli viðbótarupplýsinga frá þjónustusvæðum/sveitarfélögum, sbr. 1.-3. tölul. 8. mgr. II. hluta.
  2. Í nóvember, sbr. 2.-3. tölul. 8. mgr. II. hluta.

Útreiknuð framlög skal leiðrétta þegar endanlegur álagningarstofn útsvars liggur fyrir. Upplýsingar um leiðréttingu skulu liggja fyrir eigi síðar en 31. desember ársins á eftir og skal leiðrétting framlaga til hvers þjónustusvæðis eða sveitarfélags koma til frádráttar/viðbótar almennum framlögum Jöfnunarsjóðs vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu þar á eftir.

Reynist áætlun ársins þegar frádráttur á að fara fram lægri en leiðrétt framlög, sbr. 3. mgr., er heimilt að innheimta mismuninn af öðrum framlögum Jöfnunarsjóðs.

II. HLUTI: MÆLING Á ÚTGJALDAÞÖRF.

Við mælingu á útgjaldaþörf vegna þjónustu við fatlað fólk, sbr. a-lið 1. mgr. I. hluta, skal byggt á sömu upplýsingum um notendur og lagðar voru til grundvallar árið á undan að teknu tilliti til leiðréttinga á lögheimilisskráningu og stuðningsþörfum, sbr. 2. mgr. I. hluta 3. gr.

Útgjaldaþörf þjónustusvæðis er fundin út frá samanlagðri þjónustuþörf íbúa þess. Þjónustuþörf notanda skal ákvörðuð út frá samræmdu mati stuðningsþarfa. Eftirfarandi gildir um samræmt mat stuðningsþarfa:

  1. Miða skal við SIS-A mat vegna notenda eldri en 18 ára, sbr. þó b-lið. Liggi gilt SIS-A mat notanda fyrir skal það ávallt ganga framar SIS-C mati við útreikning framlaga, óháð aldri notandans.
  2. Miða skal við SIS-C mat vegna barna að 18 ára aldri. Þó er heimilt að miða við SIS-C mat vegna ungmenna að 20 ára aldri þar til SIS-A mat liggur fyrir.
  3. Einstaklingar telja til útgjaldaþarfar þjónustusvæðis ef þeir raðast í 5. flokk SIS-A mats eða ofar, eða í 9. flokk SIS-C mats eða ofar. Við útreikning framlaga jafngildir 9. flokkur SIS-C 5. flokki SIS-A, og hækka flokkar þaðan í jöfnum skrefum.

Ef samræmt stuðningsmat barns yngra en átta ára liggur ekki fyrir er heimilt að ákvarða útgjaldaþörf út frá áætluðum kostnaði. Framlög á grundvelli áætlaðs kostnaðar geta þó aldrei numið hærri fjárhæð á ársgrundvelli en sem nemur framlagi vegna 18. flokks samkvæmt SIS-A. Þá getur heildarfjárhæð framlaga vegna notenda á grunni áætlaðs kostnaðar aldrei numið stærri hluta framlaga en fjöldi þeirra segir til um.

Njóti notandi, sem fær framlög á grundvelli SIS-C mats, fastrar búsetuþjónustu í sértæku búsetuúrræði fyrir fatlað fólk er heimilt að reikna álag á stuðningsflokk hans. Álag samkvæmt þessu ákvæði getur numið allt að sex matsflokkum. Eingöngu er heimilt að reikna álag vegna búsetuþjónustu þegar veiting hennar orsakast alfarið af fötlun notanda.

Framlög eru greidd í þrjá heila mánuði frá dánardegi notanda í þjónustu.

Félagsmálastjóri eða tilgreindur tengiliður sveitarfélags vegna málefna fatlaðs fólks getur kallað eftir yfirliti frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem sýnir hvernig framlög vegna stuðningsþarfa skiptast niður á einstaka notendur. Skulu samskipti sem varða einstaka notendur fara fram á grundvelli auðkenna notenda.

Við mælingu á útgjaldaþörf skv. framangreindu vegna úthlutunar framlaga skal jafnframt taka tillit til eftirfarandi þátta á grundvelli viðbótarupplýsinga frá þjónustusvæðum/sveitarfélögum auk Þjóðskrár og Ráðgjafar- og greiningarstöðvar:

  1. Uppfæra skal upplýsingar um lögheimili notenda í þjónustu með tilliti til flutnings þeirra milli þjónustusvæða/sveitarfélaga. Við útreikning framlaga skal miðað við lögheimili notanda 1. janúar.
  2. Við endanlegan útreikning framlaga skal miða við samræmt mat eins og það stendur 1. október á úthlutunarári. Þrátt fyrir þetta er heimilt að líta til uppfærslu mats sem berst eftir það, berist hún Jöfnunarsjóði í tæka tíð fyrir útreikning framlaga.
  3. Skráningu á nýliðun notenda, sbr. 6. gr.

Þegar um tímabundna búferlaflutninga notenda í þjónustu, eða flutning innan ársins er að ræða, er þjónustusvæðum heimilt að semja sín á milli um að framlög Jöfnunarsjóðs vegna þeirra notenda, skv. III. hluta. Slíkir samningar hafa ekki áhrif á jöfnunarframlög samkvæmt þessari reglugerð. Samband íslenskra sveitarfélaga getur gefið út leiðbeinandi viðmið um samninga sem þjónustusvæði gera sín á milli.

III. HLUTI: ÚTREIKNINGUR FRAMLAGA.

Framlög til einstakra þjónustusvæða eða sveitarfélaga skulu reiknuð út sem hér segir:

  1. Þegar niðurstaða liggur fyrir skv. a-, b- og c-lið í 1. mgr. I. hluta, skal á grunni áætlaðs útsvarsstofns reikna út útsvarstekjur sem samsvara 0,25% af útsvarsstofni og sem renna skulu beint til þjónustu við fatlað fólk innan viðkomandi þjónustusvæðis.
  2. Finna skal mismun mældrar heildarútgjaldaþarfar hvers þjónustusvæðis eða sveitarfélags skv. II. hluta og áætlaðra útsvarstekna skv. 1. tölulið.
  3. Sé mæld útgjaldaþörf sveitarfélaga, sem mynda þjónustusvæði, hærri en sem nemur útsvarstekjum af 0,25% hlutdeild þeirra í útsvarsstofni er mismunurinn greiddur sem almenn framlög vegna þjónustu við fatlað fólk.

4. gr. Önnur framlög.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir árlega framlag til Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nemur 0,14% af tekjum sjóðsins skv. a-lið 1. mgr. 1. gr. vegna kostnaðar Sambandsins við verkefni er tengjast þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk.

Jöfnunarsjóði er jafnframt heimilt að ráðstafa fjármagni á eftirfarandi hátt:

  1. Til greiðslu kostnaðar vegna eftirfarandi þátta:
    1. Upplýsingasöfnunar, greiningar og ráðgjafar.
    2. Samræmds mats á stuðningsþörf á landsvísu.
    3. Útfærslu jöfnunaraðgerða og fasteignamála.

Ráðgjafarnefnd setur nánari verklagsreglur um framlög skv. 2. mgr. og gerir tillögu til ráðherra um úthlutun þeirra.

5. gr. Framlög vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).

Við úthlutun framlaga vegna NPA, sbr. c-lið 1. mgr. 2. gr., skal byggt á 11. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, sem og áætlun skv. ákvæði til bráðabirgða I með þeim lögum, sbr. einnig reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð, nr. 1250/2018.

6. gr. Mat á stuðningsþörf.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur forgöngu um samræmt mat á stuðningsþörf á landsvísu, semur við matsaðila um framkvæmd matsins og ber kostnað af því. Heimilt er að ákveða að greiðsla kostnaðar takmarkist við mat á tilteknum fjölda einstaklinga.

Þjónustusvæði og sveitarfélög fela matsaðila skv. 1. mgr. að sjá um matið á grundvelli ákvæða laga um málefni fatlaðs fólks og er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilt að krefja matsaðila, þjónustusvæði og sveitarfélög um niðurstöður slíks mats.

7. gr. Staðfesting.

Tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um verklagsreglur og úthlutanir framlaga á grundvelli þessarar reglugerðar skulu hljóta staðfestingu ráðherra. Við setningu verklagsreglna skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.

8. gr. Gildistaka og endurskoðun.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 11. gr. og 22. gr. laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 56/2025, og tekur gildi 1. janúar 2026. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk, nr. 192/2023.

Innviðaráðuneytinu, 30. október 2025.

Eyjólfur Ármannsson.

Ingilín Kristmannsdóttir.

B deild - Útgáfudagur: 31. október 2025


Þetta vefsvæði byggir á Eplica