Viðskiptaráðuneyti

111/1995

Reglugerð um breytingu á reglugerð fyrir Seðlabanka Íslands, nr. 470 14. nóvember 1986.

1. gr.

            34. gr. orðast svo:

            Bankaeftirlitið skal hafa samstarf við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins vegna eftirlits með starfsemi innlendra innlánsstofnana erlendis og erlendra innlásstofnana hér á landi. Í þessum tilgangi er bankaeftirlitinu skylt að veita lögbærum yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins upplýsingar um stjórnun og eigendur þessara innlánsstofnana, sem að gagni koma við eftirlit og athugun á skilyrðum fyrir leyfisveitingu, auk allra upplýsinga sem auðveldað gætu eftirlit með lausafjárstöðu og gjaldhæfi.

            Bankaeftirlitið skal hafa samvinnu við lögbær yfirvöld í aðildarríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins um eftirlit með áhættu innlánsstofnana frá hlutaðeigandi aðildarríki, sem stafar af viðskiptum þeirra á íslenskum fjármálamarkaði.

2. gr.

            35. gr. orðist svo:

            Bankaeftirlitið skal hafa samráð við lögbær yfirvöld í hlutaðeigandi aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins áður en tekin er afstaða um veitingu starfsleyfis til handa innlánsstofnun sem er dótturfyrirtæki innlánsstofnunar með staðfestu í öðru aðildarríki, dótturfyrirtæki móðurfyrirtækis innlánsstofnunar sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki eða stjórnað er af einstaklingum eða lögaðilum sem jafnframt stjórna innlánsstofnun sem staðfestu hefur í öðru aðildarríki.

            Nú hyggjast þeir aðilar sem tilgreindir eru í 1. mgr. öðlast eignarhlutdeild í fyrirtæki, sem við það yrði dótturfyrirtæki eða undir stjórn hinna tilgreindu aðila, og skal þá mat bankaeftirlits þar að lútandi vera háð undanfarandi samráði, skv. 1. mgr.

3. gr.

            36. gr. orðist svo:

            Bankaeftirlitið skal tilkynna lögbærum yfirvöldum í aðildarríki innan hins Evrópska efnahagssvæðis, ef innlánsstofnun frá hlutaðeignadi aðildarríki, sem veitir þjónustu hér á landi með eða án stofnunar útibús, fer ekki í starfsemi sinni að hérlendum lögum og reglum, þrátt fyrir tilmæli bankaeftirlits þar að lútandi. Jafnframt skal bankaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki um ráðstafanir sem það grípur til.

            Nú hefur bankaeftirlitið fengið tilkynningu frá lögbæru yfirvaldi innan Evrópska efnahagssvæðisins um ólögmæta starfsemi hérlendra innlánsstofnunar í hlutaðeigandi aðildarríki, og skal þá bankaeftirlitið grípa til viðeigandi ráðstafana og tilkynna lögbærum yfirvöldum aðildarríkisins um þær.

            Nú afturkalla viðskiptaráðherra starfsleyfi hérlendrar innlánsstofnunar, sem jafnframt veitir þjónustu í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, og skal þá bankaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki um það.

4. gr.

            Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 36 5. maí 1986, um Seðlabanka Íslands, öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytið, 14. febrúar 1995.

Sighvatur Björgvinsson

Þorkell Helgason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica