Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1101/2014

Reglugerð um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda verðlagsárið 2015. - Brottfallin

1. gr.

Heildargreiðslumark og greiðslumark lögbýla.

Heildargreiðslumark til framleiðslu mjólkur verðlagsárið 2015 skal vera 140 milljónir lítra og skiptist í greiðslumark lögbýla. Greiðslumark lögbýla reiknast í lítrum mjólkur og skiptist hlutfallslega milli lögbýla á sama hátt og greiðslumark til framleiðslu mjólkur á framleiðsluárinu 1. janúar til 31. desember 2014.

2. gr.

Aðilaskipti að greiðslumarki.

Um aðilaskipti að greiðslumarki fer samkvæmt reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum.

3. gr.

Nýting greiðslumarks.

Afurðastöð skal greiða framleiðanda lágmarksverð fyrir mjólk sem miðast við 1. flokks mjólk með skilgreindu efnainnihaldi. Fyrir aðra mjólk sem ekki stenst kröfur sem 1. flokks mjólk greiðir afurðastöð verð allt niður að leyfilegum afföllum frá verði 1. flokks mjólkur.

Greiðslutilhögun afurðastöðvar vegna framleiðslu umfram greiðslumark skal vera með þeim hætti að greiðslur vegna ónotaðs greiðslumarks skulu ganga hlutfallslega til annarra greiðslumarkshafa. Skal fyrst greitt fyrir fyrsta prósentustig sem greiðslumarkshafi framleiðir umfram eigið greiðslumark og síðan annað prósentustig og svo áfram eftir því sem ónotað greiðslumark gefur tilefni til.

Framleiðsla umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers fram­leiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó gefið skriflega heimild til sölu þessara vara innanlands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefa tilefni til.

Öll mjólk sem seld er í afurðastöð frá viðkomandi lögbýli skal reiknast með í uppgjöri greiðslu­marks fyrir lögbýlið.

Mjólk sem unnið er úr til sölu á sama lögbýli og framleiðsla fer fram telst til framleiðslu innan greiðslumarks.

Bændasamtök Íslands safna skýrslum um framleiðsluna.

4. gr.

Brottfall og geymsla greiðslumarks.

Greiðslumark lögbýla sem ekki hefur verið nýtt til framleiðslu að neinu leyti í full tvö verðlagsár (framleiðsluár) fellur niður, enda hafi Matvælastofnun tilkynnt eiganda lögbýlis um rétt til sölu eða geymslu greiðslumarksins. Heimilt er framleiðanda að leggja greiðslu­mark lögbýlisins inn til geymslu hjá Matvælastofnun, allt til 31. desember 2016 og sætir það þá sömu breytingum og annað greiðslumark.

5. gr.

Beingreiðslur.

Beingreiðsla er framlag úr ríkissjóði til framleiðenda mjólkur og greiðist mánaðarlega úr ríkissjóði til handhafa beingreiðslna, sbr. 55. gr. laga nr. 99/1993. Beingreiðslur fyrir verðlagsárið 2015 skulu vera 5.591,8 milljónir kr. Dreifing beingreiðslna og fráviksmörk skulu vera með eftirfarandi hætti:

 

a)

40% beingreiðslna skal greiða greiðslumarkshöfum óháð framleiðslu, að því til­skildu að framleiðsla lögbýlisins sé a.m.k. 100% greiðslumarks á tímabilinu. Greiða skal 1. hvers mánaðar, 1/12 hluta, í fyrsta sinn 1. janúar 2015.

 

b)

35% beingreiðslna skal greiða greiðslumarkshöfum eftir framleiðslu allt að greiðslu­marki hvers framleiðanda. Greiða skal 1. hvers mánaðar fyrir innlegg næstsíðasta mánaðar, í fyrsta sinn 1. mars 2015.

 

c)

25% beingreiðslna skal ráðstafa til greiðslumarkshafa, vegna framleiðslu innan greiðslu­marks, eftir einstökum mánuðum, samkvæmt eftirfarandi töflu:



Janúar

0%

Febrúar

0%

Mars

0%

Apríl

0%

Maí

0%

Júní

15%

Júlí

15%

Ágúst

15%

September

15%

Október

15%

Nóvember

15%

Desember

10%

Að því marki sem beingreiðslur ganga ekki út eftir uppgjör innan greiðslumarks skal greitt samkvæmt stafliðum a og b að ofan hlutfallslega út á heildarframleiðslu umfram greiðslumark hvers lögbýlis í samræmi við 3. gr.

Verði mjólkurframleiðsla minni en sem nemur heildargreiðslumarki þannig að bein­greiðslur ganga ekki út samkvæmt þessari reglu, skal ónotuðum beingreiðslum jafnað út á allt innvegið mjólkurinnlegg greiðslumarkshafa.

Framleiðendur geta einungis öðlast rétt til beingreiðslna fyrir mjólk sem framleidd er á því lögbýli sem greiðslumark fylgir innan þess framleiðslutímabils sem reglugerð þessi nær yfir.

Öll mjólk sem seld er í afurðastöð frá viðkomandi lögbýli og heimaunnin mjólk sam­kvæmt ákvæðum 3. gr. skal reiknast með í uppgjöri greiðslumarks fyrir lögbýlið.

6. gr.

Handhafar beingreiðslna.

Beingreiðslur greiðast ábúanda á lögbýli. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi. Þó er heimilt, þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega. Sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskattsuppgjör. Tilkynna skal Matvælastofnun allar breytingar á því hver eigi að vera handhafi beingreiðslna. Séu handhafar tveir eða fleiri, skal gefa upp hlutfallslega skiptingu beingreiðslna. Jafnframt skulu handhafar beingreiðslna tilgreina sérstakan reikning í bönkum eða öðrum viðskiptastofnunum, sem greiðslur skulu lagðar inn á.

7. gr.

Uppgjör beingreiðslna.

Sjái handhafi beingreiðslna fram á að nýting greiðslumarks gefi ekki rétt til 100% af beingreiðslum framleiðslutímabilsins, ber honum að tilkynna það Matvælastofnun, sem þá skal haga beingreiðslum í samræmi við áætlaða nýtingu. Komi fram við lok fram­leiðslu­tíma­bilsins, að ofgreitt hafi verið, ber handhafa beingreiðslna að endurgreiða mis­mun­inn samkvæmt reikningi.

Afurðastöð skal senda Matvælastofnun tilkynningu um stöðvun mjólkur­innleggs, ef mjólkurinnlegg framleiðanda fellur niður í heilan mánuð eða lengri tíma.

8. gr.

Útreikningur á greiðslumarki lögbýla.

Matvælastofnun reiknar út greiðslumark til framleiðslu mjólkur, heldur skrá yfir greiðslu­mark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslu samkvæmt því og lætur afurða­stöðvum og búnaðarsamböndum í té eintak af henni fyrir starfssvæði þeirra. Matvæla­stofnun aflar upplýsinga og annast útreikninga vegna framkvæmdar þessarar reglu­gerðar og hefur eftirlit með uppgjöri afurðastöðva við framleiðendur. Afurða­stöðvum og framleiðendum er skylt að láta Matvælastofnun í té allar þær upp­lýs­ingar sem að gagni geta komið við störf Matvælastofnunar og þau geta veitt.

9. gr.

Tilkynningar um greiðslumark lögbýla.

Matvælastofnun skal tilkynna framleiðendum um greiðslumark lögbýla. Framleiðendur eiga þess kost að koma á framfæri athugasemdum og skulu þær berast Matvælastofnun innan 20 daga frá dagsetningu tilkynningar um greiðslumark, ella gildir það fyrir framleiðslutímabilið. Matvælastofnun endurskoðar útreikninga, sem athugasemdir eru gerðar við og tilkynnir framleiðanda niðurstöðu sína. Berist Matvælastofnun ekki athuga­semdir við þá niðurstöðu innan 25 daga frá dagsetningu endurútreikningsins gildir hann fyrir hlutaðeigandi framleiðslutímabil. Uni viðkomandi framleiðandi ekki þeirri niður­stöðu, hefur hann rétt til að skjóta ágreiningnum með rökstuddri kæru til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sbr. 10. gr.

10. gr.

Kæruheimild.

Ágreining um ákvörðun á greiðslumarki lögbýlis, skráningu á greiðslumarki og um rétt til beinna greiðslna er heimilt að kæra til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

11. gr.

Ráðstöfun greiðslna vegna kynbóta- og þróunarstarfsemi.

Greiðslum vegna kynbóta- og þróunarstarfsemi samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkur­framleiðslu frá 10. maí 2004, með síðari breytingum, skal ráðstafað samkvæmt reglum í viðauka I.

12. gr.

Ráðstöfun óframleiðslutengds og/eða minna markaðstruflandi stuðnings.

Óframleiðslutengdur og/eða minna markaðstruflandi stuðningur að fjárhæð 193,4 milljónir kr. skal greiddur í janúar 2015 til Bændasamtaka Íslands, sem annast úthlutun fjárins. Ráðstöfun fjárins skal vera sem hér segir:

  1. Ræktunarverkefni: 98,2 milljónum kr. skal varið til gras- og grænfóðurræktar í samræmi við reglur í viðauka II og III.
  2. Skipting á 95,2 milljónum kr. til kynbótaverkefna, þróunarverkefna í naut­gripa­rækt og til nýliðunar í stétt mjólkurframleiðenda, skal vera sem hér segir:
    1. Kynbótaverkefni: 54,8 milljónir kr. sem skal ráðstafa samkvæmt reglum í viðauka IV.
    2. Til nýliðunar í stétt mjólkurframleiðanda: 27,1 milljónir kr. sem skal ráðstafa samkvæmt reglum í viðauka V.
    3. Þróunarfé til rannsókna- og/eða þróunarverkefna í nautgriparækt: 13,3 milljónir kr. sem skal ráðstafa samkvæmt reglum í viðauka VI.

13. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. 82. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Með mál út af brotum skal farið að hætti sakamála.

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verð­lagn­ingu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi frá og með 1. janúar 2015 og gildir til 31. desember 2015.

Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 1037/2013 um greiðslu­mark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda verðlagsárið 2014 og auglýsingar nr. 692/2013, 702/2014, 707/2013, 708/2013, 776/2013 og 1/2014.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 5. desember 2014.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.



Rebekka Hilmarsdóttir. 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica