Fara beint í efnið

Prentað þann 3. maí 2024

Breytingareglugerð

1071/2023

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1061/2008, um mælifræðilegt eftirlit með raforkumælum, með síðari breytingum.

1. gr.

Við reglugerðina bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

Þrátt fyrir ákvæði 15. gr., um gildistíma löggildingar mæla, er dreifiveitu heimilt að óska eftir tímabundinni undanþágu hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frá kröfum um endurlöggildingu mæla, enda liggi fyrir, útfærð og tímasett endurnýjunaráætlun fyrir útskipti mæla þar sem nýir snjallmælar koma í stað eldri mæla eða mælasafns. Dreifiveita skal í slíku tilviki upplýsa Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um áform sín og skila tímasettri áætlun um útskipti mæla. Forsenda undanþágu er að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi fengið öll gögn og farið yfir áform viðkomandi veitu um útskipti mæla fyrir snjallmæla. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að fara fram á viðbótargögn eða óska nánari upplýsinga telji hún það nauðsynlegt.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er heimilt að afturkalla undanþágu skv. 1. mgr. komi í ljós að forsendur fyrir henni séu brostnar eða að ekki hafi verið unnið eftir endurnýjunaráætlun fyrir útskipti mæla.

Veiti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun dreifiveitu undanþágu skv. 1. mgr. skal dreifiveita upplýsa viðskiptavini sína um áform sín um útskipti mæla og snjallmælavæðingu, og gefa viðskiptavinum kost á að skipt verði um mæli, sé þess óskað, í samræmi við tímamörk skv. 15. gr., óháð áformum dreifiveitunnar um uppsetningu snjallmæla.

Synji Húsnæðis- og mannvirkjastofnun beiðni um undanþágu skv. 1. mgr. skal synjun rökstudd og dreifiveitu veitt færi á að gera úrbætur á umsókn eftir atvikum.

Heimild til að veita undanþágu skv. 1. mgr. fellur úr gildi 31. desember 2028. Tryggja skal að löggildingarferli hvers mælis eða mælasafns verði aldrei frestað um meira en sex ár.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 13. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og öðlast þegar gildi.

Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 29. september 2023.

F. h. r.

Ingvi Már Pálsson.

Harpa Theodórsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.