Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Breytingareglugerð

1066/2004

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 229/2003 um Kvikmyndasjóð.

1. gr.

2. gr. orðast svo:
Fjárveitingar Kvikmyndasjóðs greinast milli einstakra greina kvikmyndagerðar sem hér segir:

a. Til leikinna kvikmynda í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum.
b. Til stuttmyndagerðar.
c. Til heimildamyndagerðar.
d. Til leikins sjónvarpsefnis.

Upplýsingar um styrki úr Kvikmyndasjóði og umsóknargögn skal birta á vefsíðu Kvikmyndamiðstöðvar. Kvikmyndamiðstöð skal senda umsækjanda staðfestingu um móttöku umsóknar og upplýsingar um málsmeðferð. Kvikmyndamiðstöð skal birta ráðstafanir á öllum fjárveitingum sínum jafnóðum á vefsíðu sinni.

Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar er ábyrgur fyrir því að öll skilyrði fyrir úthlutun séu uppfyllt. Forstöðumaður tekur endanlega ákvörðun um styrkveitingu úr Kvikmyndasjóði, að fengnu skriflegu listrænu mati kvikmyndaráðgjafa sbr. 3. gr.

Afgreiðsla á umsóknum úr Kvikmyndasjóði getur orðið með eftirfarandi hætti:

a. Umsókn er synjað um styrkveitingu.
b. Umsókn er veittur forgangur til styrkveitingar.
c. Umsókn hlýtur styrk eða vilyrði um styrkveitingu.

Óheimilt er að veita styrki til kvikmyndaverks eftir að aðaltökutímabil er hafið, sbr. þó eftirvinnslustyrki skv. 9. gr.

2. gr.

3. gr. orðast svo:
Listrænt mat á þeim styrkumsóknum sem Kvikmyndmiðstöð berast er í höndum kvikmyndaráðgjafa sem ráðnir eru tímabundið af forstöðumanni Kvikmyndamiðstöðvar. Kvikmyndaráðgjafar skulu hafa þekkingu og reynslu á sviði kvikmynda og mega ekki hafa hagsmuna að gæta varðandi úthlutun eða gegna störfum utan Kvikmyndamiðstöðvar sem tengjast íslenskri kvikmyndagerð.

Kvikmyndaráðgjafar leggja listrænt mat á umsóknir og með hliðsjón af fjárhags- og framkvæmdaþáttum, nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða leiknar kvikmyndir í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum, sbr. 3. tl. 1. mgr. 8. gr. eða vegna umsókna um kynningarstyrki.

Kvikmyndaráðgjafar fylgjast með því að framvinda verks sé í samræmi við ákvæði úthlutunarsamnings sbr. 4. gr. Kvikmyndaráðgjafar geta kallað eftir nánari gögnum og fundað með umsækjendum/styrkþegum eftir þörfum.

3. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 21. desember 2004.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.