Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 10. nóv. 2004

1058/2003

Reglugerð um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

I. KAFLI Hlutverk og starfssvið.

1. gr. Hlutverk.

Hlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra er að vinna að rannsóknum á íslensku táknmáli, annast kennslu táknmáls og sinna táknmálstúlkun og annarri þjónustu sem fellur undir starfssvið stofnunarinnar.

Starf stofnunarinnar skal sérstaklega nýtast þeim sem nota táknmál til daglegra samskipta við aðra, svo sem heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum og fjölskyldum þeirra. Sérstök áhersla skal lögð á þjónustu við börn á máltökualdri og nemendur á öllum skólastigum.

2. gr. Rannsóknir á íslensku táknmáli.

Stofnunin fæst við rannsóknir á táknmálssamskiptum og íslensku táknmáli og tekur þátt í frekari þróun þess. Í því skyni sinnir stofnunin prófunum ýmis konar, hún vinnur að þróun greiningar- og kennsluaðferða, námsefnisgerð og hugbúnaðarþróun á því sviði, auk rannsókna og nýsköpunar á sviði túlkunar og táknmálssamskipta.

3. gr. Táknmálskennsla.

Samskiptamiðstöð stendur fyrir táknmálskennslu fyrir einstaklinga og hópa, ásamt námsefnisgerð vegna þessa. Kennslunni er ætlað að skapa skilyrði til máltöku fyrir börn sem fæðast heyrnarlaus eða heyrnarskert með það að markmiði að þau nái fullri málfærni í táknmáli og fullum skilningi á því. Jafnframt er kennslunni ætlað að stuðla að almennri táknmálsþekkingu meðal þeirra sem nota táknmál til daglegra samskipta og aðila sem veita þeim þjónustu, þannig að samskipti þeirra verði svo auðveld og árangursrík sem kostur er. Stofnunin skal bjóða upp á námskeið í táknmáli fyrir þjónustuaðila og almenning.

4. gr. Táknmálstúlkaþjónusta.

Helstu verkefni Samskiptamiðstöðvar við táknmálstúlkaþjónustu eru annars vegar að veita táknmálstúlkaþjónustu gegn gjaldi eða endurgjaldslaust skv. nánari ákvæðum í gjaldskrá sbr. 4. mgr. 5. gr. og hins vegar að veita túlkanemum á háskólastigi verklega þjálfun samkvæmt sérstökum samningum við stofnanir sem annast menntun táknmálstúlka.

5. gr. Önnur þjónusta.

Samskiptamiðstöð skal veita fræðslu og ráðgjöf til hagsmunahópa, stofnana og annarra er sinna þjónustu við þá sem nota táknmál.

Stofnunin skal semja, eða láta semja, og miðla efni á táknmáli fyrir börn er nota táknmál og fjölskyldur þeirra, annað en skyldubundið námsefni fyrir grunnskóla.

Stofnuninni er heimilt að taka að sér verkefni fyrir eða í samvinnu við aðra aðila á sviði námsefnisgerðar, símenntunar og fleira því tengt.

Menntamálaráðherra setur stofnuninni gjaldskrá að fengnum tillögum stjórnar.

II. KAFLI Samstarf við aðra aðila. Gildistaka.

6. gr. Samstarf.

Stofnunin skal veita almennar upplýsingar um táknmál og táknmálssamskipti og eiga samstarf við félagasamtök og opinbera aðila er fjalla um málefni heyrnarlausra og heyrnarskertra, þ. á m. félagsþjónustu sveitarfélaga, svæðisskrifstofur um málefna fatlaðra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, skóla, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Námsgagnastofnun.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 2. mgr. 2. gr. laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra nr. 129/1990 og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 30. desember 2003.

Tómas Ingi Olrich.

Guðmundur Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.