Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

1045/2010

Reglugerð um hámarksmagn transfitusýra í matvælum. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fitu og önnur matvæli sem innihalda fitu, hvort sem fitan er innihaldsefni eða afleiðing framleiðsluferlis.

Reglugerð þessi gildir ekki um transfitusýrur sem eru í dýrafitu frá náttúrunnar hendi. Reglugerðin nær til markaðssetningar matvæla til neytenda.

2. gr.

Skilgreiningar.

Fita er öll fituefni, þar á meðal fosfólípíðar, og nær yfir fljótandi olíur, fasta fitu og ýrulausnir.

Markaðssetning er að hafa umráð yfir matvælum með sölu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða þau til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar.

Matvæli eru hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið "matvæli" tekur einnig til drykkja, tyggigúmmís og hvers kyns efna, þ.m.t. neysluvatns, sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við framleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð, svo og fæðubótarefna.

Matvælafyrirtæki er fyrirtæki eða einstaklingur sem rekur starfsemi í tengslum við framleiðslu, vinnslu eða dreifingu matvæla á einhverju stigi, hvort sem það starfar í ágóðaskyni eður ei, og hvort sem það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki.

Neytandi er neytandi matvæla sem notar matvælin ekki sem lið í rekstri eða starfsemi matvælafyrirtækis.

Transfitusýrur eru summan af öllum transfitusýrum með 14, 16, 18, 20 og 22 kolefnisatóm og eitt eða fleiri trans-tvítengi þ.e. C14:1, C16:1, C18:1, C18:2, C18:3, C20:1, C20:2, C22:1, C22:2 transfitusýrur, þó aðeins fjölómettaðar fitusýrur þar sem tvítengin eru aðskilin með metylen hóp (CH2).

3. gr.

Markaðssetning.

Óheimilt er að markaðssetja matvæli sem innhalda meira en 2 grömm af transfitusýrum í hverjum 100 grömmum af heildarfitumagni.

4. gr.

Skyldur matvælafyrirtækis.

Ef þess er óskað af opinberum eftirlitsaðila, ber matvælafyrirtæki að leggja fram gögn, svo sem niðurstöður greininga, til staðfestingar á því að þær transfitusýrur sem matvælin kunna að innihalda séu undir leyfilegu hámarki sem getið er um í 3. gr. reglugerðarinnar.

Matvælafyrirtæki greiða fyrir eftirlit samkvæmt reglugerð þessari í samræmi við lög nr. 93/1995, um matvæli þ.m.t. greiningu sýna sem rannsaka þarf.

5. gr.

Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

Matvælastofnun skal annast samræmingu rannsókna vegna sýna þegar sannreyna þarf efnainnihald matvæla samkvæmt reglugerð þessari.

6. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 30. gr., 30. gr. a - 30. gr. e og 31. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995.

7. gr.

Gildistími - Reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi öðlast gildi þann 1. ágúst 2011. Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 16. gr., sbr. 31. gr. a laga nr. 93/1995, um matvæli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 21. desember 2010.

Jón Bjarnason.

Baldur P. Erlingsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica