Umhverfisráðuneyti

1027/2005

Reglugerð um öryggisblöð. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um:

  1. Efni og efnavörur sem falla undir reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni.
  2. Efnavörur sem innihalda a.m.k. eitt efni, sem tilgreint er í fylgiskjali 1 við reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni, í styrk ³ 1% miðað við þyngd (föst og fljótandi efni) eða ³ 0,2% miðað við rúmmál (loftkennd efni).
  3. Efnavörur sem innihalda a.m.k. eitt efni sem tilgreint er í viðauka 1 við reglur Vinnueftirlits ríkisins, nr. 154/1999, um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum.
  4. Sprengiefni sem falla undir reglugerð um sprengiefni.

2. gr.

Almenn ákvæði.

Sá sem afhendir efni eða efnavöru sem fellur undir reglugerð þessa, hvort sem það er framleiðandi, innflytjandi, seljandi eða dreifingaraðili, skal láta viðtakanda sem notar efnið eða efnavöruna í atvinnuskyni í té öryggisblöð með upplýsingum sem greinir í 3. gr. Öryggisblöðin skulu vera á íslensku, dagsett og þau skal afhenda án endurgjalds.

Öryggisblöð skulu fylgja með efni og efnavöru við fyrstu afhendingu og þegar breytingar hafa verið gerðar á þeim vegna nýrra upplýsinga um öryggi er varðar heilsu starfsmanna og verndun umhverfis. Þegar öryggisblöðum hefur verið breytt skal koma fram á þeim að um endurskoðaða útgáfu sé að ræða. Við endurskoðun á öryggisblöðum skulu allir þeir sem fengið hafa viðkomandi efni eða efnavöru á síðustu 12 mánuðum fá ný öryggisblöð sér að kostnaðarlausu óski þeir eftir því.

Ekki er skylt að láta öryggisblöð fylgja með efnum eða efnavörum við afhendingu til almenningsnota enda séu umbúðir merktar samkvæmt reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni.

Öryggisblöð má afhenda með tölvu- eða myndskeyti hafi móttakandi slíkan búnað.

3. gr.

Upplýsingar í öryggisblöðum.

Öryggisblöð sem um getur í 2. gr. skulu innihalda upplýsingar um eftirtalin atriði eins og nánar er tilgreint í viðauka:

  1. Heiti efnis eða efnavöru og upplýsingar um framleiðanda, innflytjanda eða seljanda.
  2. Samsetningu/upplýsingar um innihald.
  3. Hættuflokkun.
  4. Skyndihjálp.
  5. Viðbrögð við eldsvoða.
  6. Viðbrögð við efnaleka.
  7. Meðhöndlun og geymslu.
  8. Takmörkun áverkunar (exposure)/persónuhlífar.
  9. Eðlis- og efnafræðilega eiginleika.
  10. Stöðugleika og hvarfgirni.
  11. Eiturefnafræðilegar upplýsingar.
  12. Hættur gagnvart umhverfi.
  13. Förgun.
  14. Flutning.
  15. Lög og reglugerðir.
  16. Aðrar upplýsingar.

4. gr.

Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

5. gr.

Valdsvið og þvingunarúrræði.

Um valdsvið og þvingunarúrræði eftirlitsaðila fer samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

6. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. og 20. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun 2001/58/EB, um aðra breytingu á tilskipun 91/155/EBE, þar sem mælt er fyrir um sérstök upplýsingakerfi er varða hættulegar efnablöndur við framkvæmd 14. greinar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 1999/45/EB og er varða hættuleg efni til framkvæmdar 27. greinar tilskipunar ráðsins 67/548/EBE (öryggisblöð), sem vísað er til í 10. tl. XV. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2004, þann 27. apríl 2004.

Reglugerðin byggir einnig á ákvæðum eftirfarandi áður innleiddra tilskipana:

  1. Tilskipun 91/155/EBE þar sem mælt er fyrir um sérstök upplýsingakerfi er varða hættulegar efnablöndur við framkvæmd 10. gr. tilskipunar 88/379/EBE.
  2. Tilskipun 93/112/EBE um breytingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 91/155/EBE þar sem mælt er fyrir um sérstök upplýsingakerfi er varða hættulegar efnablöndur við framkvæmd 10. gr. tilskipunar 88/379/EBE.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 25. nóvember 2005.

F. h. r.

Magnús Jóhannesson.

Ingibjörg Halldórsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica