Fara beint í efnið

Prentað þann 20. apríl 2024

Breytingareglugerð

1010/2019

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 698/2013, um framkvæmd laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. reglugerðarinnar:

  1. Við 1. mgr. 4. gr. bætist nýr töluliður, er verður 5. tölul., svohljóðandi: Þegar íbúð er hituð með vatni frá kyntri hitaveitu sem notar grisjunarvið eða annað umhverfisvænt eldsneyti.
  2. Við bætist ný málsgrein, er verður 4. mgr., svohljóðandi: Heimilt er að greiða niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar eignar afturvirkt um allt að 12 mánuði gegn því að framvísað sé gögnum sem staðfesta að öll skilyrði niðurgreiðslna á viðkomandi tímabili séu uppfyllt.

2. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Umsókn um niðurgreiðslur.

Eigandi, orkukaupandi eða umráðamaður eignar getur sótt um niðurgreiðslu til Orkustofnunar á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Í umsókn skal tilgreina:

  1. Nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda auk upplýsinga um staðsetningu og skráningarmerki þeirrar eignar sem sótt er um niðurgreiðslu fyrir.
  2. Ef umsækjandi hefur ekki skráð lögheimili í íbúðarhúsnæði því sem sótt er um niðurgreiðslu fyrir, skal leggja fram gögn um þörf til að halda fleiri en eitt heimili skv. 1. mgr. 3. gr., ella skal litið svo á að sótt sé um niðurgreiðslu húshitunar á grundvelli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar.
  3. Ef umsækjandi sækir um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar fyrir aðra eign en íbúð skal leggja fram gögn frá viðkomandi sveitarfélagi til staðfestingar á þeirri starfsemi sem starfrækt er í eigninni.

Stjórn húsfélags getur sótt um niðurgreiðslur fyrir hönd allra íbúðareigenda í fjöleignarhúsi ef hitanotkun hverrar íbúðar er ekki sérmæld.

Standi húsnæði autt hluta úr ári, sbr. 2. mgr. 4. gr., þarf eigandi þess að sækja um niðurgreiðslur til Orkustofnunar þegar föst búseta fellur niður. Sækja þarf um slíkar niðurgreiðslur á tólf mánaða fresti.

Ekki þarf að sækja á ný um niðurgreiðslu meðan íbúð er notuð til fastrar búsetu. Breytist aðstæður að þessu leyti ber eiganda, orkukaupanda eða umráðamanni að tilkynna Orkustofnun það.

Orkustofnun metur á grundvelli umsóknar hvort skilyrði laga þessara fyrir niðurgreiðslum séu uppfyllt.

3. gr.

Við 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar bætist nýr töluliður, er verður 6. tölul., sem hljóðar svo: Til hitaveitu sem byggir á dreifikerfi kyntrar hitaveitu sem starfrækt hefur verið á viðkomandi dreifiveitusvæði.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. reglugerðarinnar:

  1. 2. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. fellur brott.
  2. 3. tölul. verður svohljóðandi: Styrkir á grundvelli 5. tölul. 11. gr. skulu jafngilda átta ára áætluðum niðurgreiðslum sem lækka í réttu hlutfalli við orkusparnað tengdan umhverfisvænni orkuöflun og/eða aðgerðum sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun. Styrkirnir eru samningsbundnir til 20 ára og að þeim tíma liðnum mun viðkomandi húseign njóta fullrar niðurgreiðslu en þó aldrei meira en sem nemur notkuninni á hverjum tíma eða því hámarki sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. Ákvæði þetta á við um samninga sem gerðir hafa verið frá árinu 2009.
  3. Við bætist nýr töluliður, 4. töluliður, sem hljóðar svo: Styrkur til hitaveitu á grundvelli 6. tölul. 11. gr. getur numið allt að 65% af tólf ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan.

5. gr.

Á eftir orðunum "til Orkustofnunar" í 1. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar kemur: á þar til gerðu umsóknareyðublaði.

6. gr.

16. gr. reglugerðarinnar verður svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Úthlutun og ráðstöfun styrkja.

Greiðsla stofnstyrks skal miðuð við tímamarkið þegar hitaveita eða kynt hitaveita tekur til starfa eða stækkun er tekin í notkun. Ef tengingum íbúðarhúsa er skipt í áfanga eða hluti íbúðarhúsa á orkuveitusvæði er ekki tengdur þegar hitaveita eða kynt hitaveita tekur til starfa er heimilt að ákveða að hluti styrksins skuli greiddur út og niðurgreiðslum vegna rafhitunar tiltekinna íbúðarhúsa haldið áfram þrátt fyrir 15. gr. Endanlegt uppgjör á fjárhæð styrksins fer í þeim tilvikum fram þegar stjórn viðkomandi hitaveitu óskar, þó eigi síðar en níu mánuðum eftir að fyrsti hluti styrksins er greiddur út. Við greiðslu á þeirri fjárhæð sem haldið var eftir skal draga frá heildarfjárhæð niðurgreiðslna á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis á viðkomandi orkuveitusvæði á aðlögunartímanum.

Hitaveita eða kynt hitaveita skal nýta styrkinn að hluta til að greiða niður stofnkostnað veitunnar og að hluta til að styrkja eigendur íbúðarhúsa þar sem kostnaður við tengingu við starfandi eða nýjar veitur er umtalsverður, svo sem vegna kostnaðarsamra breytinga á hitakerfi. Stjórn veitunnar skal ákvarða hlutföllin en hvor hluti styrksins má nema allt að 65% af heildarfjárhæðinni.

Greiðsla styrkja vegna yfirtöku starfandi einkahitaveitna skal miðast við það tímamark þegar samruni einkaleyfishitaveitu og einkahitaveitu á sér stað enda dugi fjárveiting á því ári til greiðslu styrks.

Styrkir skulu renna óskertir til einkaleyfishitaveitu. Beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi einkahitaveitu skulu ekki dregnir frá styrkfjárhæðinni.

Ef ákveðið er í fjárlögum að veita styrki til yfirtöku starfandi einkahitaveitna skal þeim fjármunum varið til starfandi hitaveitna sem hafa einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni og stækka veitusvæði sitt með yfirtöku á hitaveitum sem ekki hafa slíkt einkaleyfi, dreifa heitu vatni um dreifikerfi sitt til a.m.k. 5 aðgreindra húsveitna og standa frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis.

Til að hljóta greiðslu styrkja ber einkahitaveitu sem yfirtaka á, að sýna fram á, með óyggjandi hætti, að hún standi frammi fyrir endurnýjun dreifikerfis og eigi í rekstrarlegum örðugleikum af þeim sökum.

Styrkir á grundvelli 5. tölul. 11. gr. greiðast íbúðareiganda samkvæmt samningi milli Orkustofnunar og íbúðareiganda. Samningurinn byggir á þeim sparnaði sem umsækjandi ætlar að ná gegn eingreiðslu vegna framkvæmdarinnar og lækkunar á niðurgreiðsluhlutfalli hans í samræmi við væntanlegan orkusparnað. Þinglýsa ber samningi á viðkomandi fasteign áður en til greiðslu styrks kemur.

Um úthlutun styrkja til hitaveitu sem byggir á dreifikerfi kyntrar hitaveitu vísast til 4. tölul. 1. mgr. 12. gr. Styrkinn skal nota til að greiða niður stofnkostnað hitaveitu, þ.e. orkuöflun, aðveitu, stækkun dreifikerfis og, ef við á, endurnýjun þess dreifikerfis sem fyrir er.

7. gr.

Í stað orðsins "orkukaupandi" í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar kemur: eigandi, orkukaupandi eða umráðamaður eignar.

8. gr.

Á eftir 18. gr. a í reglugerðinni kemur ný grein, sem verður 18 gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Sérákvæði um umhverfisvæna orkuöflun og aðgerðir
sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun.

Ef fasteign með samning um skerðingu á niðurgreiðslu til 20 ára verður eign lánastofnunar að undangengnu uppboði á samningstímanum getur viðkomandi lánastofnun keypt sér rétt til fullrar niðurgreiðslu með því að greiða upp samninginn eins og upphæðin er samkvæmt honum.

Ef fasteign með samning um skerðingu á niðurgreiðslu til 20 ára er seld á samningstímabilinu og upp kemur ágreiningur milli kaupanda og seljanda um samninginn getur seljandi keypt upp samninginn og eignin farið að nýju inn á fulla niðurgreiðslu.

Ef styrkþegi hefur hlotið greiðslu hluta styrks og uppfyllir ekki skyldur skv. samningi sem Orkustofnun gerir við hann, skal stofnunin lækka niðurgreiðsluhlutfall umræddrar eignar í samræmi við fjárhæð þess styrks sem þegar hefur verið greiddur.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli 21. gr. laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 5. nóvember 2019.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Hreinn Hrafnkelsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.