Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 30. nóv. 2022

1000/2005

Reglugerð um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kortleggja og meta hávaða og leggja grunn að aðgerðum til að draga úr ónæði og truflunum af völdum hávaða.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til hávaða sem fólk verður fyrir á byggðum svæðum, á útivistarsvæðum, og kyrrlátum svæðum í þéttbýli og dreifbýli, við skóla, sjúkrastofnanir og aðrar byggingar þar sem fólk er viðkvæmt fyrir hávaða.

Reglugerðin tekur ekki til hávaða sem þolandi veldur sjálfur, hávaða frá íbúðarhúsnæði, frá nágrönnum, á vinnustöðum, inni í farartækjum eða frá neyðarstarfsemi.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og hugtaka sem hér segir:

Aðgerðaáætlun: Áætlun um aðgerðir sem hafa það markmið að stýra hávaða og draga úr hávaða og óæskilegum áhrifum hans.

Almenningur: Einn eða fleiri einstaklingar, lögaðilar og félög þeirra, samtök eða hópar eftir því sem við á.

Desíbel (dB): Mælieining fyrir hljóðstyrk.

Frísviðsgildi: Hljóðstig við mannvirki þar sem ekki er tekið tillit til endurkastaðs hljóðs frá vegg mannvirkisins.

Hávaði: Óæskileg eða skaðleg hljóð sem stafa frá athöfnum fólks, svo sem frá flutningum, umferð ökutækja og flugvéla og hvers kyns atvinnustarfsemi.

Hávaðavísir: Vísir til að lýsa hávaða, notaður til að meta neikvæð áhrif hávaða:

  1. Lden (hávaðavísir að degi - kvöldi - nóttu): Hávaðavísir fyrir heildarónæði og truflun, sbr. nánar í viðauka I.
  2. Lday (hávaðavísir að degi): Hávaðavísir fyrir ónæði á daginn, sbr. nánar í viðauka I.
  3. Levening (hávaðavísir að kvöldi): Hávaðavísir fyrir ónæði á kvöldin, sbr. nánar í viðauka I.
  4. Lnight (hávaðavísir að nóttu): Hávaðavísir fyrir svefntruflun að næturlagi, sbr. nánar í viðauka I.

Hljóðstig: Mælikvarði á hljóðstyrk, oftast mælt í desíbelum með svonefnda A - síu sem líkir eftir næmi eyrans. Hljóðstigið er þá táknað LA og mælieiningin er dB(A).

Jafngildishljóðstig: Vegið meðaltalshljóðstig, táknað Leq, sem samsvarar sömu hljóðorku á mælitímanum og hinn raunverulegi breytilegi hávaði. Ef jafngildishljóðstigið er mælt í dB(A), er það táknað LAeq.

Kyrrlátt svæði: Afmarkað svæði þar sem Lden eða annar viðeigandi hávaðavísir er undir umhverfismörkum sem gilda fyrir kyrrlát svæði samkvæmt reglugerð um hávaða.

Mat á hávaða: Aðferð notuð til að reikna, spá fyrir um, áætla eða mæla hávaðavísi eða tengd skaðleg áhrif á heilsu manna.

Hávaðakort: Kort sem endurspeglar mældan eða útreiknaðan hávaða á tilteknu svæði frá mismunandi hávaðauppsprettum.

Stór flugvöllur: Flugvöllur með meira en 50.000 flughreyfingum á ári. Flughreyfing er flugtak og lending. Æfingaflug lítilla flugvéla er undanskilið.

Stór vegur: Svæðisbundinn vegur, þjóðvegur eða annar vegur, afmarkaður í skipulagi þar sem meira en þrjár milljónir ökutækja fara um á ári.

Umhverfismörk: Hámarksgildi hávaðavísa, Lden, Lnight og annarra hávaðavísa sem skilgreind eru í reglugerð um hávaða. Umhverfismörk geta verið mismunandi eftir aðstæðum.

Þéttbýlissvæði: Landsvæði innan eins eða fleiri sveitarfélaga sem telst þéttbýli í skilningi skipulags- og byggingarlaga og þar sem heildaríbúafjöldi er meiri en 100.000 manns.

4. gr. Kortlagning hávaða.

Kortleggja skal hávaða á þéttbýlissvæðum, við stóra vegi og stóra flugvelli við þær aðstæður sem tilgreindar eru í viðauka VI og meta hve margir verða fyrir áhrifum af völdum hans. Kortlagning skal framkvæmd í samræmi við aðferðir tilgreindar í 6. og 7. gr. í reglugerð þessari.

5. gr. Hávaðavísar og notkun þeirra.

Nota skal hávaðavísana Lden og Lnight til að útbúa og endurskoða hávaðakort. Nota skal matsaðferðir skv. 6. gr. til að ákvarða Lden og Lnight og aðlaga skal eldri gögn að þessum hávaðavísum. Gögnin mega þó ekki vera eldri en þriggja ára þegar þau eru notuð.

Viðbótar hávaðavísa skal nota þar sem umhverfismörk fyrir þá hafa verið skilgreind sérstaklega skv. ákvæðum reglugerðar um hávaða.

6. gr. Aðferðir við mat á hávaða.

Ákvarða skal gildi Lden og Lnight með þeim aðferðum sem skilgreindar eru í viðauka II eða með öðrum aðferðum sem sýnt er fram á að eru jafngildar.

Skaðleg áhrif hávaða má meta með hliðsjón af skammtatengdum áhrifum sem vísað er til í viðauka III.

7. gr. Hávaðakort.

Veghaldari og rekstraraðili flugvallar skulu gera hávaðakort sem sýni stöðu ársins á undan fyrir stóra vegi og stóra flugvelli. Sveitarstjórn skal útbúa hávaðakort sem sýni stöðu ársins á undan fyrir þéttbýlissvæði. Á þéttbýlissvæðum skal vera samvinna milli þeirra aðila sem ábyrgð bera á kortlagningu hávaða á svæðinu og skal niðurstaðan sýnd sem heildstætt hávaðakort sem sveitarstjórn gefur út. Nái þéttbýlissvæði til fleiri en eins sveitarfélags er þeim heimilt að hafa samvinnu um gerð hávaðakorts fyrir þéttbýlissvæðið í heild eða einstaka hluta þess.

Meta skal á a.m.k. fimm ára fresti hvort nauðsynlegt sé að endurskoða hávaðakort.

Hávaðakort skulu uppfylla þær lágmarkskröfur sem fram koma í viðauka IV.

Veghaldarar og rekstraraðilar flugvalla skulu halda skrá yfir stóra vegi og stóra flugvelli og skal skráin uppfærð á a.m.k. fimm ára fresti.

Hávaðakort og skrár skv. 4. mgr. skulu send Umhverfisstofnun sbr. ákvæði viðauka VI.

8. gr. Aðgerðaáætlanir.

Komi í ljós við hávaðakortlagningu að hávaði er yfir umhverfismörkum skal vinna áætlun um aðgerðir með það að markmiði að draga úr áhrifum hávaða. Sveitarstjórn, hver á sínu svæði ber ábyrgð á að aðgerðaáætlun sé gerð og skal hún unnin í samvinnu við veghaldara stórra vega og rekstraraðila stórra flugvalla á svæðinu. Ennfremur skal við gerð aðgerðaáætlunar haft samráð við heilbrigðisnefnd á viðkomandi svæði.

Í aðgerðaáætlun skal á skýran hátt gerð grein fyrir einstökum aðgerðum, áætluðum áhrifum þeirra og forgangsröðun í samræmi við áherslur og ákvarðanir hlutaðeigandi aðila og skal áætlunin uppfylla lágmarkskröfur viðauka V.

Meta skal á a.m.k. fimm ára fresti hvort nauðsynlegt sé að endurskoða aðgerðaáætlanir og oftar ef nauðsyn ber til svo sem þegar umfangsmiklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á svæðinu sem geta haft áhrif á hljóðstig.

Sveitarstjórn, hver á sínu svæði, skal auglýsa aðgerðaáætlun og kynna með almennum hætti í sveitarfélaginu. Aðgerðaáætlun skal liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til kynningar í a.m.k. fjórar vikur og skal almenningi og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir við áætlunina. Að loknum kynningartíma skal sveitarstjórn taka athugasemdir sem borist hafa til umfjöllunar og gera breytingar á aðgerðaáætluninni ef ástæða þykir til.

Fari gerð aðgerðaáætlana fram samhliða skipulagsgerð, mati á umhverfisáhrifum eða veitingu starfsleyfis fyrir starfsleyfisskylda starfsemi er heimilt að kynna aðgerðaáætlun samhliða kynningu vegna þeirra.

Aðgerðaáætlanir skulu sendar Umhverfisstofnun í samræmi við ákvæði viðauka VI.

9. gr. Skipulagsgerð og afmörkun kyrrlátra svæða.

Við gerð skipulagsáætlana skal sveitarstjórn hafa hliðsjón af niðurstöðum hávaðakortlagningar.

Við endurskoðun skipulagsáætlana skal samhliða endurskoða aðgerðaáætlun telji sveitarstjórn það nauðsynlegt.

Sveitarstjórn skal með hliðsjón af niðurstöðu hávaðakortlagningar afmarka kyrrlát svæði eins og það er skilgreint í reglugerð um hávaða innan sveitarfélagsins bæði í þéttbýli og dreifbýli.

10. gr. Upplýsingar til almennings.

Hávaðakort, aðgerðaáætlanir, afmörkun kyrrlátra svæða og aðrar upplýsingar um hávaða skulu vera aðgengilegar almenningi sbr. ákvæði viðauka IV og V.

Upplýsingar til almennings skulu vera skýrar og aðgengilegar með samantekt um mikilvægustu atriðin.

11. gr. Eftirlit.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Umhverfisstofnun skal safna saman gögnum skv. viðauka VI og gefa út reglur um framkvæmd hljóðmælinga.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 og öðlast þegar gildi.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun 2002/49/EB um mat og stjórn á hávaða í umhverfinu, sem vísað er til í tölulið 32g. VI. kafla XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 160/2003, þann 7. nóvember 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þar til umhverfismörk fyrir hávaðavísa hafa verið skilgreind skulu viðmiðunargildi í reglugerð nr. 933/1999 um hávaða gilda sem umhverfismörk í skilningi reglugerðar þessarar.

Hlutaðeigandi aðilar skulu eigi síðar en 1. janúar 2006 senda Umhverfisstofnun skrá skv. 4. mgr. 7. gr.

Gerð hávaðakorta fyrir stóra flugvelli og vegi þar sem umferð er meiri en sex milljónir ökutækja á ári skal lokið eigi síðar en 30. júní 2007.

Gerð hávaðakorta fyrir þéttbýlissvæði og vegi þar sem umferð er meiri en þrjár milljónir ökutækja á ári skal lokið eigi síðar en 30. júní 2012.

Gerð aðgerðaáætlana fyrir svæði sem falla undir 3. mgr. skal lokið eigi síðar en 18. júlí 2008.

Gerð aðgerðaáætlana fyrir svæði sem falla undir 4. mgr. skal lokið eigi síðar en 18. júlí 2013.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.