Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

97/2021

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 870/2013 um söfnun gagna um framleiðslu, innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti og eftirlit með orkuhlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í heildarsölu til samgangna á landi.

1. gr.

5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Eftirtöldum gögnum ber söluaðilum eldsneytis að skila fyrir 1. mars ár hvert til Orkustofnunar vegna næstliðins almanaksárs:

  1. Sölutölum eldsneytis eftir notkunarflokkum, notkunarstað (innanlands, millilanda), tegund eldsneytis og uppruna, sem skilgreindir eru í leiðbeiningum Orkustofnunar. Gera skal grein fyrir óvissu í tölum.
  2. Upplýsingum um birgðastöðu í upphafi og við lok árs.
  3. Upplýsingum um rýrnun: Gera skal grein fyrir þeirri rýrnun sem orðið hefur á birgðum á því ári sem tölurnar ná til.
  4. Gögnum sem sýna fram á að sjálfbærniviðmið fyrir endurnýjanlegt eldsneyti sem notað er til samgangna á landi séu uppfyllt, sbr. 6. og 7. gr.

Eftirtöldum gögnum ber framleiðendum eldsneytis að skila fyrir 1. mars ár hvert til Orkustofn­unar vegna næstliðins almanaksárs:

  1. Framleiðslutölum eldsneytis eftir notkunarflokkum, sem skilgreindir eru í leið­bein­ingum Orku­stofnunar.
  2. Hráefni sem notað er til framleiðslu eldsneytis, magn, tegund og uppruni.
  3. Framleiðslugetu og stofnár framleiðslueiningar eldsneytis.

Eftirfarandi gögnum ber söluaðilum eldsneytis að skila til Orkustofnunar fyrir 25. hvers mán­aðar fyrir næstliðinn mánuð:

  1. Heildarsölu eldsneytis eftir tegund. Greina skal sérstaklega frá eldsneyti seldu til samgangna á landi og millilandanotkunar.
  2. Upplýsingum um innkaup, innflutning og birgðastöðu.
  3. Upplýsingum um rýrnun. Gera skal grein fyrir þeirri rýrnun sem orðið hefur á birgðum í þeim mánuði sem tölurnar ná til.

Upplýsingar um sölutölur, birgðir og rýrnun skulu gefnar í tonnum. Fyrir hverja eldsneytis­tegund skal jafnframt gefa upp eðlisþyngd í kílógrömmum á lítra, orkuinnihald í mega­júlum á kíló­gramm og brennisteinsinnihald sem hlutfall af massa.

 

2. gr.

8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Gögnum skal skilað til Orkustofnunar á því formi sem stofnunin ákveður. Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests skv. 5. gr. er Orkustofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrir­tæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10.000-100.000 kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal til­kynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimt­una.

 

3. gr.

10. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Orkustofnun skal gefa út yfirlit um heildarsölu eldsneytis og notkun endurnýjanlegs elds­neytis eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að almanaksárinu lýkur.

 

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 87/2003, um Orkustofnun, og 4. og 7. gr. laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, með síðari breytingum.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. janúar 2021.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Erla Sigríður Gestsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica