Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

916/2012

Reglugerð um merkingar búfjár.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að mark­vissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um merkingar á búfé og skráningar upplýsinga um búfé þ.m.t. í gagnagrunna. Til viðbótar ber að uppfylla reglugerðir um merkingar einstakra búfjár­tegunda.

3. gr.

Orðskýringar.

 1. Auðkenning: Húðflúr, eyrnamark eða merki sem auðkennir býlið.
 2. Búfé: Hross, nautgripir, svín, sauðfé, geitfé og alifuglar.
 3. Búsnúmer: Landnúmer skv. fasteignamati auk númers rekstrareiningar innan býlis.
 4. Bæjarnúmer: Númer býlis eða eiganda í sauðfjárrækt og geitfjárrækt ásamt sýslu­tákni og númeri sveitarfélags skv. landsmarkaskrá.
 5. Einstaklingsnúmer: Einkvæmt númer/bókstafir fyrir hvern ásetningsgrip á lands­vísu.
 6. Framleiðandanúmer: Tveggja stafa númer svínahjarðar ákveðið af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
 7. Fráfærur: Þegar grísir eru vandir undan gyltu mögulega um 7 - 10 kg.
 8. Fæðingarnúmer: Einstaklingsnúmer hrossa á heimsvísu. Í WorldFeng einnig nefnt FEIF-ID númer.
 9. Gripanúmer: Númer grips innan hjarðar sem jafnframt er síðasti hluti ein­stak­lings­númers.
 10. Grís: Spenagrís, fráfærugrís eða eldisgrís.
 11. Heilsukort: Safn upplýsinga með gögnum um greiningu og meðhöndlun sjúkdóma og fyrirbyggjandi aðgerðir.
 12. Hjarðbók: Gagnagrunnur eða skýrsluhaldsform sem umráðamanni búfjár, er skylt að skrá í tilgreindar upplýsingar um dýr í hans umsjón.
 13. Hjörð: Hópur tiltekinnar búfjártegundar innan sama býlis.
 14. Húsnúmer: Númer, sem framleiðandi tilgreinir, fyrir húsnæði þar sem einn hópur alifugla er haldinn og telst ein faraldsfræðileg eining, skilgreint í samráði við Matvæla­stofnun, þ.m.t. þá alifugla sem deila sama loftrými. Ef um er að ræða ali­fugla sem hafðir eru í húsi er átt við húsnæði þar sem allir fuglar deila sama loft­rými.
 15. Rekjanleikanúmer: Minnst tíu stafa númer hóps í alifuglabúi og þannig uppbyggt, að fyrstu þrír tölustafirnir auðkenna alifuglaframleiðandann, tilgreint af Matvæla­stofnun, síðan koma tveir tölustafir fyrir árið, tveir fyrir vikuna sem ungarnir eru klaktir í, einn fyrir raðnúmer eldishópsins innan viku sem hann er klakinn í, og loks tveir fyrir húsnúmer, sem hópurinn er alinn í.
 16. Lamba/kiðamerki: Merki sem sett eru í lömb og kið að vori.
 17. Lambanúmer: Einkvæmt númer lamba innan hvers býlis innan fæðingarárs.
 18. Landsmarkaskrá: Skrá um öll eyrnamörk, brennimörk og frostmörk ásamt öllum bæjarnúmerum í landinu sem Bændasamtök Íslands gefa út skv. reglugerð nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár, með síðari breytingum.
 19. Líf-/ásetningsdýr: Dýr sem sett eru á til undaneldis og/eða nytja.
 20. Merki: Plötumerki, frostmerki, örmerki eða önnur rafræn merki, húðflúr eða önnur skráning sem Matvælastofnun viðurkennir fyrir einstakar búfjártegundir.
 21. Slátrun: Varðar bæði slátrun í sláturhúsi og heimaslátrun til eigin nota á lögbýli.
 22. Stofn: Sérstök ræktunarlína innan sama búfjárkyns.
 23. Svín: Ásett lífdýr, gyltur og geltir.
 24. Umráðamaður búfjár: Eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við lög nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.
 25. Valnúmer: Númer sem umráðamaður nautgripa velur.
 26. Vikunúmer: Tveggja stafa númer vikunnar sem spenagrís er fæddur í.
 27. WorldFengur: Upprunaættbók íslenska hestsins.

4. gr.

Merkingarskylda.

Umráðamaður búfjár ber ábyrgð á að allt búfé sem alið er á hans vegum sé merkt innan tilskilins tíma frá fæðingu með viðurkenndu merki, sem fylgja á dýrinu alla ævi þess, sbr. ákvæði fyrir einstakar búfjártegundir.

Óheimilt er að breyta eða fjarlægja einstaklingsnúmer/merki dýrs eða eldishóps, nema það sé orðið ólæsilegt eða skemmt. Missi dýr merki, glatist það, eða það verði ólæsilegt, skal umráðamaður endurmerkja dýrið með merki sem tryggir rekjanleika þess við fyrra merki og hjarðbók.

Óheimilt er að nota númer sem þegar eru í notkun innan hjarðarinnar. Líða skulu 10 ár milli notkunar á sama einstaklingsnúmeri innan hjarðar.

5. gr.

Kröfur um gerð plötumerkja.

Plötumerki skulu þannig gerð að ekki sé unnt að nota þau aftur eftir að þau hafa verið fjarlægð. Upplýsingar á merkjum skal prenta fyrirfram með skýru letri sem ekki er hægt að breyta. Plötumerki til notkunar samkvæmt reglugerð þessari skulu viðurkennd af Matvælastofnun.

6. gr.

Merkingar nautgripa.

Nautgripir skulu merktir með forprentuðu plötumerki í bæði eyru innan 20 daga frá fæð­ingu. Á merkjunum skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

 1. YD-einkennisstafi Matvælastofnunar.
 2. IS-einkennisstafi Íslands.
 3. Búsnúmer.
 4. Gripanúmer.

Kálfar, sem slátrað er innan 20 daga frá fæðingu, skulu fluttir beint frá búinu í sláturhús og auðkenndir þannig að númer móður sé gefið upp við slátrun.

Heimilt er að nota eigin valnúmerakerfi fyrir nautgripi til viðbótar forprentuðum upp­lýs­ingum.

7. gr.

Merkingar svína.

Öll svín skulu merkt með forprentuðu plötumerki í eyra. Á merkjunum skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

 1. YD-einkennisstafi Matvælastofnunar.
 2. IS-einkennisstafi Íslands.
 3. Búsnúmer.
 4. Gripanúmer.

Svínin skulu merkt með merki áður en þau fara frá fæðingarbýli eða þegar þau eru, eftir fráfærur, meðhöndluð með lyfjum með afurðarnýtingarfresti.

8. gr.

Undanþága til merkingar grísa.

Matvælastofnun er heimilt að veita undanþágu frá því að merkja grísi til slátrunar með merki að uppfylltum öllum eftirfarandi skilyrðum:

 1. Grísirnir hafi ekki verið meðhöndlaðir með lyfjum eftir fráfærur.
 2. Grísirnir eru auðkenndir fæðingarbýli fyrir flutning frá fæðingarbýli.
 3. Grísirnir eru fluttir beint frá fæðingarbýli eða eldisbúi í sláturhús.
 4. Við flutninginn sé aðeins flutt frá einu fæðingarbýli eða einu eldisbúi í einu.
 5. Við flutninginn sé aðeins flutt frá einum framleiðanda í einu.
 6. Við flutninginn eru aðrir gripir s.s. gyltur, geltir og lyfjameðhöndlaðir grísir með merki.
 7. Við slátrun er tryggt að viðkomandi hópur sé sundurgreindur frá öðrum slátur­hópum.
 8. Framleiðandi og sláturleyfishafi tryggi rekjanleika hópsins við flutning og slátrun með rafrænni skráningu þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:
  1. Fæðingarbýli.
  2. Eldisbú.
  3. Fjöldi ómerktra gripa.
  4. Fjöldi merktra gripa.
  5. Flutningsdagur.
  6. Hlaupandi númer fyrir viðkomandi hóp.

Framleiðanda og sláturleyfishafa ber að sýna fram á að ofangreindum skilyrðum sé full­nægt til að undanþága sé gefin til að merkja ekki sláturgrísi.

Undanþága þessi gildir ekki um grísi sem sendir eru í sláturhús innan 30 daga frá frá­færum.

9. gr.

Merkingar sauðfjár og geita.

Ásetningsfé skal merkja með forprentuðu plötumerki í eyra. Á merkjunum skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

 1. YD-einkennisstafi Matvælastofnunar.
 2. IS-einkennisstafi Íslands.
 3. Bæjarnúmer skv. landsmarkaskrá.
 4. Fjögurra stafa gripanúmer, þar sem fyrsti stafur númersins er síðasti tölustafur fæðingarárs, en síðari þrír tölustafirnir eru númer grips innan hjarðar.

Lömb og kið skal merkja með forprentuðu merki (lamba-/kiðamerki) innan 30 daga frá fæðingu. Á merkjunum skal koma fram IS-einkennisstafir Íslands, bæjarnúmer skv. landsmarkaskrá og lambanúmer innan hjarðar. Endurnýting slíkra merkja er óheimil, nema með leyfi Matvælastofnunar.

Heimilt er að notast við merki án IS-einkennisstafa Íslands en gripurinn skal þá endurmerktur við 6 mánaða aldur eða fyrr í samræmi við 1. mgr. 9. gr.

Litir forprentaðra plötumerkja í sauðfé og geitfé skulu vera í samræmi við skráningu Matvælastofnunar í miðlægan gagnagrunn skv. 12. gr.

10. gr.

Merkingar alifugla.

Umráðamaður búfjár á útungunarstöð skal auðkenna hvern alifuglahóp með sérstöku rekjanleikanúmeri.

Húsnúmer í rekjanleikanúmeri alifuglahóps breytist, við flutning, eftir því í hvaða húsi hópurinn er haldinn.

Ekki þarf að auðkenna alifuglahóp með rekjanleikanúmeri sem er eingöngu haldinn til nýtingar afurða til einkaneyslu.

11. gr.

Merkingar hrossa.

Öll hross skal örmerkja. Öll ásetningsfolöld skulu örmerkt við hlið móður fyrir 10 mánaða aldur. Folöld, sem slátrað er fyrir 10 mánaða aldur, skulu auðkennd þannig að fæðingar­númer móður sé gefið upp við slátrun.

12. gr.

Hjarðbók.

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir skráningu upplýsinga um öll dýr hjarðar sinnar í sérstaka hjarðbók, í miðlægan gagnagrunn ef hann er til staðar en annars á skýrsluform, sem Bændasamtök Íslands láta í té og viðurkennt er af Matvælastofnun. Matvælastofnun ákveður og setur reglur um vistun hjarðbóka í formi miðlægs gagnagrunns, reglur um aðgengi, skráningar o.fl. Matvælastofnun hefur eftirlit með skráningu upplýsinga í kerfið.

Eftirfarandi upplýsingar um sauðfé, geitfé og nautgripi skal skrá í rafræna hjarðbók:

 1. Einstaklingsnúmer dýrs.
 2. Fæðingarmánuð og ár.
 3. Valnúmer, ef um slíkt er að ræða.
 4. Kyn dýrs.
 5. Stofn dýrsins.
 6. Einstaklingsnúmer móður.
 7. Dagsetningu slátrunar og ef dýrið ferst eða glatast.
 8. Alla flutninga lífdýra til og frá hjörð, bæði varanlega og tímabundna, þó ekki rekstur eða flutning á afrétt.
  Auk þess:
  1. nafn, heimilisfang og bús- eða bæjarnúmer sendanda og móttakanda;
  2. fjölda dýra sem eru flutt/seld;
  3. einstaklingsnúmer dýra sem eru flutt/seld.
 9. Dagsetning flutnings.
 10. Móttekin plötumerki.

Eftirfarandi upplýsingar um svín skal skrá í hjarðbók:

 1. Einstaklingsnúmer.
 2. Fæðingarmánuð og ár.
 3. Kyn dýrs.
 4. Stofn dýrs.
 5. Einstaklingsnúmer móður.
 6. Dagsetningu dauða eða slátrunar.
 7. Alla svína og grísaflutninga til og frá hjörð, bæði varanlega og tímabundna.
  Auk þess:
  1. nafn, heimilisfang og framleiðandanúmer sendanda og móttakanda;
  2. fjölda dýra sem flutt/seld eru;
  3. dagsetningu flutnings;
  4. nafn og kennitölu flutningsaðila.

Þegar nýtt svín kemur inn í hjörð skal skrá einstaklingsnúmer þess.

Eftirfarandi upplýsingar um hross skal skrá í hjarðbók hrossa (WorldFeng):

 1. Fæðingarnúmer.
 2. Fæðingardag/-mánuð/ár.
 3. Fæðingarnúmer móður.
 4. Dagsetningu dauða eða slátrunar.
 5. Dagsetningu útflutnings.

Eftirfarandi upplýsingar skal skrá í hjarðbók alifugla:

 1. Alla flutninga til og frá eldishúsinu eða faraldsfræðilega einingu, bæði varanlega og tímabundna.
 2. Dagsetningu dauða eða slátrunar.
 3. Nafn og heimilisfang sendanda og móttakanda.
 4. Fjölda dýra sem flutt/seld eru, með rekjanleikanúmeri.
 5. Dagsetningu flutnings.
 6. Nafn og kennitölu flutningsaðila.

13. gr.

Heilsukort.

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir að sjúkdómar í búfé hans og meðhöndlun þeirra sé skráð, sem og fyrirbyggjandi aðgerðir. Upplýsingar skulu skráðar á eyðublöð sem Matvælastofnun viðurkennir eða í tölvuskrár. Við flutning dýra milli hjarða skal afrit heilsukorts fylgja dýrinu til móttakanda.

14. gr.

Varðveisla hjarðbókar og heilsukorta.

Hjarðbækur og heilsukort skulu umráðamenn búfjár varðveita í a.m.k. 10 ár. Sama gildir þótt framleiðslu sé hætt. Umráðamaður búfjár skal, að ósk Matvælastofnunar, veita allar umbeðnar upplýsingar um uppruna, númer og eftir því sem við á, áfangastað þeirra dýra sem hann hefur átt, alið, selt á fæti eða slátrað.

15. gr.

Ábyrgð sláturhúsa og flutningsaðila.

Flutningsaðilum er óheimilt að taka til flutnings ómerkta nautgripi, sauðfé/geitfé, hross og svín sbr. þó undanþágu í 8. gr. þessarar reglugerðar.

Sláturhúsum er óheimilt að taka til sölu og vinnslu búfé sem ekki uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar um merkingar.

Berist ómerkt dýr í sláturrétt sláturhúss skal það tilkynnt dýralækni sláturhússins. Dýrinu skal slátrað en heilbrigðisskoðun dýralæknis frestað eða tryggt við heilbrigðisskoðun dýralæknis og stimplun að afurðirnar fari ekki til manneldis. Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef viðhlítandi skýringar koma fram á því af hverju dýrið er ómerkt og hægt er að sýna fram á uppruna þess m.a. hvaða einstaklingsnúmer dýrið hafði og skráningu í hjarðbók. Það er á ábyrgð sláturhúss og/eða eiganda búfjár að sýna fram á uppruna og veita skýringar sem og óska eftir undanþágu þessari fyrir heilbrigðisskoðun dýralæknis.

Ómerkt lömb sem koma fyrir í réttum er heimilt að merkja viðkomandi sveitarfélagi með rauðu merki og senda í sláturhús en afurðir þeirra mega ekki fara til manneldis.

Innan 10 daga frá slátrun grips skal umsjónarmaður sláturhúss tilkynna Matvælastofnun á tölvutæku formi, hvaða dag slátrun fór fram, númer dýrs eða dýra, fjölda og uppruna þeirra samkvæmt þeim reglum sem gilda um skráningu og móttöku gagna í hjarðbækur.

Um merkingar á afurðum og rekjanleika þeirra til einstaklingsmerkinga eða hópmerkinga dýra fer samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

16. gr.

Ómerkt og óskráð dýr.

Komi í ljós að merkingum og skráningum dýra í tiltekinni hjörð er ábótavant skal Matvælastofnun stöðvar allan flutning dýra frá hjörðinni, þ.m.t. flutning á afrétt.

Sinni umráðamaður búfjár ekki tilmælum Matvælastofnunar um að merkja búfé í hans umsjá, innan tímafrests sem Matvælastofnun ákveður, getur Matvælastofnun fyrirskipað merkingu búfjárins á kostnað eiganda.

17. gr.

Skráningarskylda.

Umráðamaður búfjár skal skrá upplýsingar í samræmi við ákvæði viðauka I við reglu­gerð þessa.

Allir umráðamenn búfjár skulu vera skráðir í tölvuskráningarkerfi fyrir merkingar búfjár.

18. gr.

Eftirlit.

Eftirlit með framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar er í höndum Matvælastofnunar.

19. gr.

Kostnaður.

Kostnað sem hlýst af framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar bera eigendur búfjár, þó bera sláturleyfishafar þann kostnað sem hlýst af ákvæðum 15. gr.

20. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 18. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., 19. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðis­þjónustu við dýr og 30. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og XI. og XII. kafla laga nr. 93/1995 um matvæli.

21. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 17. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli. Reglugerð þessi er auk þess sett með hliðsjón af tilskipun ráðsins nr. 2008/71/EB. Reglu­gerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 289/2005 um merkingar búfjár.

Ákvæði til bráðabirgða.

Gildistaka fyrir nautgripi, sauðfé og geitfé.

Ekki er krafist endurmerkingar á gripum sem eru fæddir fyrir 11. nóvember 2011 sem skráðir eru í kynbótaskýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands og eru einstaklingsmerktir á fullnægjandi hátt. Ef slíkt merki týnist úr grip skal hann merktur skv. ákvæðum þessarar reglugerðar.

Gildistaka fyrir svín.

Ákvæði um merkingar grísa tekur gildi 1. janúar 2013.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 30. október 2012.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Baldur P. Erlingsson.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica