Fjármálaráðuneyti

89/2009

Reglugerð um starfsheiti tollvarða.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfsheita tollvarða.

2. gr.

Skilgreining.

Í reglugerð þessari er orðið tollverðir annars vegar notað yfir þá starfsmenn embættis tollstjóra sem, auk tollstjórans og löglærðra fulltrúa hans, eru handhafar tollgæsluvalds og hins vegar sem starfsheiti tiltekins hluta þeirra starfsmanna.

3. gr.

Starfsheiti tollvarða.

Starfsheiti og starfsstig tollvarða eru sem hér segir:

 1. Yfirtollverðir.
 2. Aðstoðaryfirtollverðir.
 3. Aðalvarðstjórar og tollfulltrúar.
 4. Varðstjórar og tollsérfræðingar.
 5. Tollverðir.

Starfsheitið tollvörður hafa þeir sem eru skipaðir til starfa sem tollverðir og þeir sem eru settir til starfa sem tollverðir meðan þeir stunda nám við Tollskóla ríkisins eða vegna afleysinga eða annarra tímabundinna starfa.

4. gr.

Yfirtollverðir.

Verksvið og ábyrgð yfirtollvarða er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Yfirtollverðir eru æðstu yfirmenn tollgæslunnar í hópi tollvarða. Þeir annast daglega stjórn tollgæslunnar eða tiltekins hluta hennar fyrir hönd tollstjórans.
 2. Þeir skulu upplýsa tollstjórann um hvaðeina sem varðar málefni tollgæslunnar og hann þarf að fá upplýsingar um til að hann hafi næga yfirsýn yfir þau og geti byggt ákvarðanir sínar á réttum forsendum.
 3. Þeir skulu vera tollstjóranum til ráðuneytis um málefni tollgæslunnar, þ. á m. um hvaðeina sem getur horft til umbóta í starfsemi hennar. Ennfremur skulu þeir vera öðrum samstarfsmönnum sínum, undirmönnum og öðrum til aðstoðar og leiðbeiningar varðandi málefni tollgæslunnar.
 4. Þeir skulu stuðla að góðum stjórnarháttum innan tollgæslunnar, m.a. hvað varðar stefnumótun, markmiðasetningu, áætlanagerð, upplýsingamiðlun, áhættustýringu og innra eftirlit.
 5. Þeir skulu stuðla að því að verklag tollgæslunnar sé nægilega vel útfært, vinnubrögð séu fagleg og standist þær kröfur sem gerðar eru, skráning og gæði upplýsinga varðandi starfsemina sé fullnægjandi og rekstur tollgæslunnar sé innan fjárheimilda.
 6. Þeir skulu hafa eftirlit með að starfsemi tollgæslunnar sé í samræmi við lög, stjórnvaldsreglur, verklagsreglur og fyrirmæli tollstjórans.
 7. Þeir skulu vinna að framþróun, hagræðingu og einföldun tollframkvæmdar og auknum árangri og skilvirkni og sem bestri þjónustu tollgæslunnar.
 8. Þeir skulu stuðla að og viðhalda góðu samstarfi tollgæslunnar við önnur stjórnvöld og atvinnulífið.
 9. Sérstök verkefni sem tollstjóri felur þeim vegna stöðu þeirra, sérþekkingar og reynslu.

5. gr.

Aðstoðaryfirtollverðir.

Verksvið og ábyrgð aðstoðaryfirtollvarða er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Aðstoðaryfirtollverðir eru yfirtollverði og öðrum yfirmönnum til aðstoðar.
 2. Þeir eru yfirmenn einstakra deilda eða skipulagseininga tollgæslunnar eða fara með tiltekna viðameiri málaflokka á sviði tollgæslu sem krefjast sérþekkingar og reynslu.
 3. Þátttaka í samstarfi innan embættis tollstjóra og í samstarfi embættisins við önnur stjórnvöld.
 4. Þátttaka í starfshópum um sérstök málefni; verkefnastjórnun.
 5. Greiða götu þeirra sem eiga í samskiptum við embætti tollstjóra; leiðbeiningar og aðstoð við viðskiptamenn varðandi tollframkvæmd.
 6. Ákvæði 2.-8. töluliðs 4. gr. skulu, að breyttu breytanda, gilda um störf og ábyrgð aðstoðaryfirtollvarða, eftir því sem við getur átt.

6. gr.

Aðalvarðstjórar.

Verksvið og ábyrgð aðalvarðstjóra er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Aðalvarðstjórar eru aðstoðaryfirtollverði og öðrum yfirmönnum til aðstoðar, m.a. við stjórnun deilda eða skipulagseininga eða vegna umsjónar með viðameiri málaflokkum. Starfi fleiri en einn aðalvarðstjóri í sömu deild skal einn þeirra vera staðgengill yfirmanns deildarinnar.
 2. Verkstjórnarskyldur. Aðalvarðstjórar eru yfirmenn tiltekinna undirdeilda eða skipulagseininga og/eða fara með tiltekin verkefni sem krefjast sérhæfingar, sérþekkingar og reynslu, þ.m.t. stjórn og umsjón með þjálfun fíkniefna­leitar­hunda­teyma og umsjá forvarnarmála.
 3. Þátttaka í samstarfi innan embættis tollstjóra og í samstarfi embættisins við önnur stjórnvöld.
 4. Þátttaka í starfshópum um sérstök málefni; verkefnastjórnun.
 5. Almenn tollgæslustörf, þ.m.t. að halda uppi lögum, stjórnvaldsreglum og öðrum fyrirmælum sem gilda á sviði tollamála.
 6. Aðstoð og leiðbeining gagnvart öðrum tollstarfsmönnum og þeim sem embættið á samskipti við varðandi málefni sem þeir hafa umsjón með.
 7. Greiða götu þeirra sem eiga í samskiptum við embætti tollstjóra; leiðbeiningar og aðstoð við viðskiptamenn varðandi tollframkvæmd.
 8. Ákvæði 2.-8. töluliðs 4. gr. skulu, að breyttu breytanda, gilda um störf og ábyrgð aðalvarðstjóra, eftir því sem við getur átt.

7. gr.

Tollfulltrúar.

Verksvið og ábyrgð tollfulltrúa er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Tollfulltrúar eru aðstoðaryfirtollverði og öðrum yfirmönnum til aðstoðar.
 2. Þeir fara með tiltekin verkefni sem krefjast sérhæfingar, sérþekkingar eða reynslu, en hafa almennt ekki verkstjórnarskyldur, nema í einstökum tilvikum og samkvæmt nánari ákvörðun yfirmanns.
 3. Þátttaka í samstarfi innan embættisins og í samstarfi embættisins við önnur stjórnvöld.
 4. Þátttaka í starfshópum um sérstök málefni; verkefnastjórnun.
 5. Almenn tollgæslustörf, þ.m.t. að halda uppi lögum, stjórnvaldsreglum og öðrum fyrirmælum sem gilda á sviði tollamála.
 6. Aðstoð og leiðbeining gagnvart öðrum tollstarfsmönnum og öðrum um málefni sem þeir hafa umsjón með.
 7. Greiða götu þeirra sem eiga í samskiptum við embætti tollstjóra; leiðbeiningar og aðstoð við viðskiptamenn varðandi tollframkvæmd.
 8. Ákvæði 2.-8. töluliðs 4. gr. skulu, að breyttu breytanda, gilda um störf og ábyrgð tollfulltrúa, eftir því sem við getur átt.

8. gr.

Varðstjórar.

Verksvið og ábyrgð varðstjóra er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Varðstjórar eru aðalvarðstjórum og öðrum yfirmönnum til aðstoðar.
 2. Verkstjórnarskylda er almennt hluti starfans.
 3. Það getur verið hluti starfans að hafa umsjón með tilteknum málaflokkum, verkefnum eða verkþáttum sem, auk almennrar þekkingar á tollamálum, krefjast sérhæfingar eða sérþekkingar í viðkomandi málaflokki eða á viðkomandi starfssviði.
 4. Almenn tollgæslustörf, þ.m.t. að halda uppi lögum, stjórnvaldsreglum og öðrum fyrirmælum sem gilda á sviði tollamála.
 5. Þátttaka í samstarfi innan embættis tollstjóra og í samstarfi embættisins við önnur stjórnvöld.
 6. Þátttaka í starfshópum um sérstök málefni.
 7. Greiða götu þeirra sem eiga í samskiptum við embætti tollstjóra; leiðbeiningar og aðstoð við viðskiptamenn varðandi tollframkvæmd.
 8. Eftirlit með að reglum og fyrirmælum sé fylgt.

9. gr.

Tollsérfræðingar.

Verksvið og ábyrgð tollsérfræðinga er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Tollsérfræðingar eru aðalvarðstjórum og öðrum yfirmönnum til aðstoðar.
 2. Verkstjórnarskylda getur verið hluti starfans samkvæmt nánari ákvörðun yfirmanns.
 3. Umsjón með tilteknum málaflokkum, verkefnum eða verkþáttum sem, auk almennrar þekkingar á tollamálum, krefjast umtalsverðrar sérþekkingar eða sérhæfingar í viðkomandi málaflokki eða á viðkomandi starfssviði.
 4. Almenn tollgæslustörf, þ.m.t. að halda uppi lögum, stjórnvaldsreglum og öðrum fyrirmælum sem gilda á sviði tollamála.
 5. Þátttaka í samstarfi innan embættis tollstjóra og í samstarfi embættisins við önnur stjórnvöld.
 6. Þátttaka í starfshópum um sérstök málefni.
 7. Greiða götu þeirra sem eiga í samskiptum við embætti tollstjóra; leiðbeiningar og aðstoð við viðskiptamenn varðandi tollframkvæmd.
 8. Eftirlit með að reglum og fyrirmælum sé framfylgt.

10. gr.

Tollverðir.

Verksvið og ábyrgð tollvarða er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Almennir tollverðir.
  1. Almenn tollgæslustörf, þ.m.t. að halda uppi lögum, stjórnvaldsreglum og öðrum fyrirmælum sem gilda á sviði tollamála.
  2. Greiða götu þeirra sem eiga í samskiptum við embætti tollstjóra; leiðbeiningar og aðstoð við viðskiptamenn varðandi tollframkvæmd.
  3. Tiltekin tollgæsluverkefni samkvæmt ákvörðun yfirmanns.
 2. Tollverðir sem stunda nám í Tollskóla ríkisins.
  1. Almenn tollgæslustörf í starfsnámi undir stjórn og leiðsögn yfirmanna.
  2. Tiltekin tollgæsluverkefni samkvæmt ákvörðun yfirmanns.
 3. Tollverðir sem eru ráðnir tímabundið og til afleysinga.
  1. Almenn tollgæslustörf undir stjórn og leiðsögn yfirmanna.
  2. Tiltekin tollgæsluverkefni samkvæmt ákvörðun yfirmanns.

11. gr.

Nánar um verksvið og ábyrgð tollvarða.

Um verkefni og ábyrgð, réttindi og skyldur tollvarða fer samkvæmt tollalögum, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og öðrum lögum og stjórnvaldsreglum sem taka til starfa þeirra, auk nánari fyrirmæla tollstjórans.

Tollstjórinn skal gera formlegar starfslýsingar fyrir alla tollverði.

Þegar fleiri tollverðir með sama starfsheiti eru á vettvangi, skal sá fara fyrir þeim sem hefur lengstan starfsaldur, nema tollstjórinn ákveði annað.

12. gr.

Skipurit.

Tollstjórinn ákveður fjölda tollvarða með einstök starfsheiti í samræmi við hlutverk og markmið embættis tollstjóra, sem og stjórnunarlegar, verkefnalegar og fjárhagslegar forsendur fyrir starfsemi og rekstri embættisins.

Fjármálaráðherra staðfestir skipurit tollgæslunnar.

13. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimildum í 2. mgr. 46. gr. og 193. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, og tekur gildi þegar í stað.

Við gildistöku reglugerðarinnar skal breyta starfsheitum sem notuð hafa verið innan tollgæslunnar til samræmis við reglugerðina. Þeir sem hafa verið með starfsheitið aðaldeildarstjóri og deildarstjóri skulu ekki fá starfsheiti með lægra starfsstig en aðalvarðstjóri eða tollfulltrúi.

Fjármálaráðuneytinu, 26. janúar 2009.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.

Maríanna Jónasdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica