Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

88/2022

Reglugerð um velferð alifugla.

I. KAFLI

Tilgangur, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði allra alifugla með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði. Leitast skal við að alifuglar geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.

 

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:

 1. Aðgengilegt svæði: Svæði annað en hreiðursvæði sem er a.m.k. 30 cm breitt, með 14% hámarks­halla og lofthæð a.m.k. 45 cm.
 2. Alifuglahús: Bygging þar sem fuglahópur er alinn.
 3. Alifuglar: Hænsnfuglar af ættbálki Galliformes, endur, gæsir og aðrir fuglar aldir til framleiðslu á kjöti og eggjum.
 4. Alifuglabú: Bú með sérstöku búsnúmeri, landnúmeri samkvæmt fasteignamati auk númers rekstrar­einingar innan býlis, þar sem alifuglar eru aldir í einu eða fleiri húsum.
 5. Dritbruni: Vefjaskemmdir á gangþófum fugla.
 6. Fuglahópur: Allir alifuglar sem haldnir eru í sama húsnæði eða innan sömu girðingar og mynda eina faraldsfræðilega einingu og hafa sér rekjanleikanúmer. Séu fuglar aldir á húsi eru meðtaldir í hópi allir fuglar sem deila sama loftrými.
 7. Goggsnyrting: Snyrting fremsta hornhluta goggs.
 8. Goggstýfing: Stytting goggs með því að fjarlægja lifandi vef.
 9. Handsömun: Er þegar fugl er fangaður og honum haldið.
 10. Harðýðgi: Gróf valdbeiting, svo sem barsmíðar og önnur ill meðferð.
 11. Hreiður: Sérstakt rými sem hænur nota til varps, einstaklingshreiður eða hóphreiður. Óheimilt er að hafa vírnet í þeim gólffleti hreiðursins sem hænurnar liggja eða stíga á.
 12. Kjúklingur: Fugl af tegundinni Gallus gallus, alinn til framleiðslu á kjöti.
 13. Pallakerfi: Framleiðslukerfi þar sem fuglarnir geta farið frjálst á milli hæða.
 14. Setprik: Rúnnuð stöng að hámarki 5 cm í þvermál sem er hærra en umliggjandi undirlag. Kantur á pöllum í pallakerfi getur talist til setpriks ef hænur geta gripið um hann með framtám. Setprik þurfa að vera til staðar á minnst tveimur hæðum.
 15. Stía: Afmarkað rými þar sem fugl er haldinn.
 16. Stofnfugl: Foreldri fugla sem aldir eru til framleiðslu á eggjum eða kjöti.
 17. Tínsla: Er þegar fugl er handsamaður í þeim tilgangi að bera hann og flytja frá einum stað til annars, einnig innan sama eldisrýmis.
 18. Umráðamaður: Eigandi eða annar aðili, sem er ábyrgur fyrir umsjá dýrs.
 19. Undirburður: Laust og þurrt efni sem molnar auðveldlega og hentar fuglum til að sinna eðlilegu atferli sínu, svo sem að gogga, krafsa og sandbaða sig.
 20. Unghæna: Hæna af varpstofni yngri en 20 vikna.
 21. Uppsöfnuð dauðatíðni: Hundraðshluti dauðra fugla, annarra en varphæna, frá innsetningu í eldis­hús þar til tínsla fer fram og til flutnings úr húsi til slátrunar.
 22. Útungunarstöð: Staður þar sem meira en 1.000 frjóeggjum alifugla er ungað út samtímis í vélum.
 23. Varphæna: Alifugl af tegundinni Gallus gallus sem náð hefur varpaldri og haldinn er til fram­leiðslu neyslueggja.
 24. Vængstýfing: Stytting ysta tilfinningalausa hluta flugfjaðra sem gerir fugli tímabundið ókleift að fljúga.
 25. Þéttleiki: Samanlögð lífþyngd fugla í einum fuglahópi, deilt með fermetrum aðgengilegs svæðis gefið upp sem kg/m².

 

II. KAFLI

Úttekt og eftirlit.

3. gr.

Opinbert eftirlit.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé fylgt.

Umráðamanni alifugla í starfsemi sem talin er upp í viðauka I, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða starfsemi eigi síðar en 30 dögum áður en áætluð starfsemi hefst. Matvæla­stofnun skal taka út fyrirhugaða starfsemi. Óheimilt er að hefja starfsemi áður en staðfesting Matvæla­stofnunar liggur fyrir um að skilyrði varðandi húsakost, búnað og þekkingu sem tilgreind eru í reglugerð þessari séu uppfyllt.

Umráðamanni alifugla ber að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum alifuglum og öllum þeim svæðum þar sem alifuglar eru haldnir.

Þar sem eigandi er ekki sjálfur umráðamaður yfir búrekstri eða einstakri framleiðslueiningu skal hann tilnefna með sannanlegum hætti hver umráðamaður er.

 

III. KAFLI

Meðferð og umhirða.

4. gr.

Þekking og hæfni.

Öllum þeim sem halda alifugla, hvort sem það eru einn eða fleiri fuglar, er skylt að afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun alifugla.

Umráðamaður starfsemi skv. viðauka I, skal hafa lokið prófi í búfræði frá landbúnaðarskóla, lokið námskeiði í alifuglahaldi, starfað við umhirðu alifugla sem nemur tveimur árum í fullu starfi eða geta sýnt fram á sambærilega þekkingu sem viðurkennd er af Matvælastofnun.

Umráðamaður starfsemi skv. viðauka I, skal tryggja að starfsmenn við búreksturinn hafi fengið þjálfun í þörfum og umönnun alifugla og skal hann halda skrá um það. Starfsmaður skal hafa þekkingu á réttri meðhöndlun fugla, hafa hlotið þjálfun í aflífun fugla og hafa þekkingu á fyrir­byggjandi smitvörnum og réttum umgengnisreglum.

Óheimilt er að afhenda eða gefa alifugla hverjum þeim sem ekki býr yfir eða hefur aflað sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun alifugla.

 

5. gr.

Almenn meðferð og eigið eftirlit.

Bannað er að beita alifugla harðýðgi.

Eftirlit skal haft með alifuglum að lágmarki einu sinni á sólarhring og bæta svo fljótt sem auðið er úr því sem er ábótavant. Eftirlit skal hafa með öllum kjúklingum að lágmarki tvisvar sinnum á sólarhring.

Umráðamaður skal fylgjast með heilsufari fugla og tryggja að hreinlæti, fóðrun, fóður, vatn og aðrir umhverfisþættir og tækjabúnaður sem getur haft áhrif á líðan fugla, sé í lagi. Aukið eftirlit skal haft með sjúkum og slösuðum fuglum.

Umráðamaður starfsemi skv. viðauka I, skal halda skýrslu um fjölda fugla í hverjum fuglahópi, afdrif þeirra, meðhöndlun, sjúkdóma og varp hjá varphænsna- og stofnfuglahópum. Skráningar skal geyma í að minnsta kosti þrjú ár.

 

6. gr.

Fóðrun og brynning.

Gæði fóðurs, magn og samsetning skal fullnægja þörfum fugla. Fóðrun og brynning skal vera aðgengileg og nægileg öllum fuglum. Fuglar skulu hafa daglegan aðgang að ómenguðu drykkjar­vatni og fóðri.

Hafi fuglar ekki stöðugt aðgengi að fóðri skal fóðrunaraðstaða vera þannig að allir fuglar geti étið samtímis. Brynningarbúnaður skal þannig útbúinn, uppsettur og viðhaldið að hætta á vatnsleka sé í lágmarki. Við flutning fugla í önnur hús skal tryggt að þeir finni strax vatn og fóður.

 

7. gr.

Tímabundnar sýningar á alifuglum eldri en vikugömlum.

Fuglar skulu sýndir í einstaklingsbúrum með heilum hliðarveggjum. Fuglar úr sama hópi mega þó vera í hópbúrum. Fuglar skulu hafa aðgang að undirburði. Gólf skulu þannig gerð að stuðningur sé fyrir allar framtær fugls. Ekki má vera dragsúgur í búrunum og hitastig skal vera sem næst kjör­hita fugla. Stærð búra skal vera í samræmi við lið 1.1 í viðauka III.

Tryggja skal fuglum á sýningum nægilegt fóður og stöðugan aðgang að ómenguðu drykkjar­vatni.

Áhorfendum er óheimilt að handfjatla alifugla.

Umráðamanni alifugla sem nota á við gerð auglýsinga, kvikmynda, leiksýninga eða við aðrar aðstæður og/eða í umhverfi sem alifuglum er ekki eðlilegt, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrir­hugaða notkun eigi síðar en 10 dögum áður en áætluð notkun fer fram. Matvælastofnun skal upp­lýsa viðkomandi heilbrigðisnefnd um tilkynninguna.

 

8. gr.

Tímabundnar sýningar á alifuglum yngri en vikugömlum.

Ungar skulu eingöngu sýndir innandyra. Ungar skulu haldnir á undirburði og þeim tryggður frjáls aðgangur að svæði með hitagjafa, fóðri og ómenguðu drykkjarvatni. Allir ungar skulu geta haft samtímis aðgang að skjóli frá áhorfendum.

Áhorfendum er óheimilt að handfjatla og fóðra unga.

Umráðamanni alifugla sem nota á við gerð auglýsinga, kvikmynda, leiksýninga eða við aðrar aðstæður og/eða í umhverfi sem alifuglum er ekki eðlilegt, ber að tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaða notkun eigi síðar en 10 dögum áður en áætluð notkun fer fram. Matvælastofnun skal upplýsa viðkomandi heilbrigðisnefnd um tilkynninguna.

 

9. gr.

Aðgerðir.

Óheimilt er að fjarlægja líkamshluta eða reyta fjaðrir af fuglum. Heimilt er að fjarlægja líkamshlut fugls sé það nauðsynleg aðgerð að mati dýralæknis hverju sinni og vegna velferðar fuglsins. Við sársaukafulla aðgerð skal deyfa eða svæfa fugla og veita þeim verkjastillandi meðferð.

Óheimilt er að goggstýfa alifugla. Heimilt er að snyrta fremsta hornhluta goggs að uppfylltum skilyrðum í viðauka II. Sá sem annast goggsnyrtingu skal hafa fengið til þess faglega þjálfun.

Óheimilt er að festa á fugla sjónsviðsþrengjandi muni eins og gleraugu eða setja á augu hluti sem breyta litarskyni þeirra svo sem litaðar linsur.

Aðeins má vængstýfa þá fugla sem ekki er hægt að halda öðruvísi og þá aðeins af aðila sem hefur reynslu og þekkingu á slíku, að mati Matvælastofnunar. Vernda skal vængstýfða fugla fyrir óvin­veittum dýrum.

 

10. gr.

Ræktun og æxlun.

Óheimilt er að rækta undan alifuglum sem vitað er að bera alvarlega erfðasjúkdóma eða erfða­galla.

Við ræktun skal þess gætt að ávallt séu alin heilsuhraust dýr. Æxlun er óheimil þegar fyrir­sjáan­legt er að hún breyti eiginleikum alifugla á þann hátt að það hafi neikvæð áhrif á heilsu og atferli þeirra.

 

11. gr.

Handsömun og tínsla.

Við handsömun og tínslu fugla skal þess gætt að valda þeim ekki óþarfa hræðslu og/eða að þeir meiðist ekki.

Óheimilt er að bera alifugla á höfði, hálsi, stéli eða vængjum. Halda má utan um háls anda og gæsa meðan fuglinn er borinn á bringunni. Kalkúna má handsama með taki á vængfestu (öxl) og gagn­stæðum fæti. Óheimilt er að lyfta eða halda á kalkúnum á öðrum fæti. Óheimilt er að taka upp eða bera endur og gæsir á fótum.

Starfsmenn við tínslu alifugla skulu hafa hlotið fræðslu og þjálfun í meðhöndlun fugla og tínslu.

Tínsla sláturkjúklinga og annarra fugla í sambærilegri þyngd af tegundinni Gallus gallus skal fara fram í rökkri eða bláu ljósi. Slíkir fuglar skulu bornir þannig að gripið er yfir vængi og bol fuglsins með báðum höndum eða hann borinn á báðum fótum. Tínsla skal skipulögð þannig að fuglinn sé borinn stutta vegalengd. Fjöldi fugla í flutningskössum skal miðast við stærð fugla og hitastig í flutn­ingi. Vélbúnaður til tínslu á kjúklingum fyrir slátrun skal vera þannig hannaður að velferð fugla sé í fyrirrúmi.

 

12. gr.

Heilbrigði og forvarnir.

Umráðamaður skal fylgjast með fóðrun og heilbrigði alifugla í hans umsjá og kalla til dýralækni ef með þarf.

Verja skal alifugla gegn ytri og innri óværu. Komi upp slík vandamál skal meðhöndla fugla í samráði við dýralækni þegar í stað.

 

13. gr.

Aflífun.

Fuglar sem eru slasaðir eða sjúkir, skulu fá viðeigandi meðferð eða vera aflífaðir tafarlaust. Skylt er að aflífa fugla tafarlaust þegar augljóst er að sjúkdómur eða meiðsl eru kvalafull eða banvæn. Eftir atvikum skal haft samráð við dýralækni.

Umráðamaður eða eigandi fugla skal tilkynna til Matvælastofnunar um aflífun á fuglahópum með yfir 250 alifuglum. Tilkynningarskylda gildir ekki um útungunarstöðvar eða sláturhús.

Óheimilt er að snúa alifugla úr hálslið án undangenginnar deyfingar. Um aflífun alifugla gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar nr. 911/2012, um vernd dýra við aflífun.

 

14. gr.

Húsakostur alifugla.

Framleiðslukerfi og tæknibúnaður skal vera í lagi, viðhaldið og öruggur fuglum.

Búnaður skal vera þannig hannaður að engin slysahætta sé fyrir fugla þegar þeir eru settir inn og teknir út.

Í alifuglahaldi og starfsemi sem fellur undir viðauka I skulu setprik staðsett þannig að þau hindri ekki eðlilega umferð fugla. Lárétt bil á milli setprika skal vera a.m.k. 30 cm og lárétt bil frá setpriki til veggs skal vera a.m.k. 20 cm.

Pallakerfi skal þannig hannað að auðvelt sé að hafa eftirlit á öllum hæðum og skal að hámarki vera fjórar hæðir.

Óheimilt er að halda hana í búrum.

 

15. gr.

Loftræsting og loftgæði.

Einangrun húsa, upphitun og loftræsting skal tryggja að ryk, hitastig, loftraki og óæskilegar loft­tegundir séu innan marka samkvæmt viðauka IV. Tryggja skal nægileg loftskipti án þess að drag­súgur myndist í umhverfi fugla.

Í húsum þar sem ekki er gerð krafa um vararafstöð, skulu vera opnanleg fög eða sjálfvirk neyðar­opnun á loftræstibúnaði svo unnt sé að loftræsta húsið við bilun í loftræstikerfi.

 

16. gr.

Lýsing.

Lýsing í húsum og framleiðslukerfum fyrir alifugla skal vera nægileg til að fuglarnir geti haft yfirsýn yfir umhverfi sitt og sinnt eðlilegu atferli. Lýsing skal vera jöfn og nægileg til eftirlits með öllum fuglum. Þetta á við hvort sem notast er við dagsbirtu eða raflýsingu.

Heimilt er að minnka lýsingu tímabundið eða á afmörkuðum svæðum hafi það jákvæð áhrif á heilbrigði og velferð fugla.

Lýsing skal ekki vera svo mikil að hún örvi kropp og fjaðrareytingu. Bannað er að nota lýsingu sem getur haft neikvæð áhrif á atferli fugla. Mögulegt skal vera að stýra ljósstyrk.

Eftir fyrstu aðlögunardagana skal tryggja fullorðnum varphænum órofna myrkvun þriðjung sólarhringsins. Þegar ljós eru slökkt í húsum með pallakerfum skulu ljósaskipti vera nægilega löng til að hænurnar geti sest. Sömuleiðis skal birta smám saman þegar ljós eru kveikt.

Lágmarkslýsing fyrir kjúklinga skal vera 20 lux í augnhæð fuglanna í 80% aðgengilegs svæðis. Heimilt er að lækka ljósstyrk tímabundið samkvæmt ráðleggingu dýralæknis. Að undanskilinni fyrstu eldisvikunni og síðustu þremur dögum fyrir slátrun skulu kjúklingar hafa að minnsta kosti 6 klukku­stunda myrkur á sólarhring, þar af samfellt myrkur í 4 klukkustundir utan ljósaskipta.

 

17. gr.

Hljóðmengun.

Loftræstikerfi, fóðurkerfi og annan vélbúnað skal hanna, setja upp, halda við og reka þannig að sem minnst hljóðmengun verði. Forðast skal stöðugan eða skyndilegan hávaða.

 

18. gr.

Útivist og skjól.

Útisvæði skulu hönnuð með tilliti til fjölda fugla og gerð jarðvegs til að lágmarka smitálag og mengun. Útisvæði skuli hönnuð þannig að þau hvetji til útivistar.

Á langvegg húsa skulu vera útgönguop sem veita beinan aðgang að útisvæði. Þau skulu vera opin á meðan á útivist stendur. Fjöldi opa skal miðast við stærð, tegund og fjölda fugla.

Á útisvæðum skal vera skjól fyrir veðri og vindum.

 

19. gr.

Slysavarnir og viðvörunarbúnaður.

Tæknibúnaður í alifuglahúsum skal vera í lagi og viðhaldið þannig að hann valdi fuglunum ekki meiðslum. Vararafstöð skal vera á búum sem reiða sig alfarið á rafmagn til reksturs á loftræstingu, fóður­kerfum og lýsingu. Á þessum búum skal einnig vera viðvörunarbúnaður fyrir of hátt hitastig og straumrof. Viðvörunarbúnaður skal vera með sjálfvirka bilanavakt. Reglulegt eftirlit skal hafa með viðvörunarkerfum.

Ekki er gerð krafa um viðvörunarbúnað í húsum þar sem loftræsting er nægileg þótt vélbúnaður stöðvist.

 

20. gr.

Smitvarnir.

Ákvæðið gildir eingöngu fyrir starfsemi skv. viðauka I.

Við staðsetningu nýrra alifuglabúa skal taka mið af öðrum alifuglabúum, öðru búfjárhaldi og umhverfi villtra fugla. Alifuglahús skulu vera meindýraheld og varin villtum fuglum. Skipulagðar meindýravarnir skulu vera til staðar. Á alifuglabúum er óheimilt að hleypa inn öðrum dýrum, svo sem í eldishús, fóðurgeymslu og í annað geymslurými á búinu. Óheimilt er að hafa sundfugla og aðra alifugla á sama búi.

Umhverfi alifuglahúss skal vera vel framræst og þrifalegt. Skráðar smitvarnareglur skulu vera til staðar. Gæta skal sérstaklega vel að smitvörnum við móttöku og afhendingu fugla.

Hafi aðili verið í snertingu við alifugla erlendis skal hann ekki fara inn á alifuglabú eða vera í snertingu við fugla fyrr en að liðnum 48 klst., nema hann fari í sturtu og skipti um föt áður en hann gengur inn í alifuglahús.

Dauða fugla skal fjarlægja daglega úr húsi og geyma á öruggan hátt svo ekki stafi smithætta af þeim. Drit skal fjarlægt eftir þörfum.

Stofnfuglar og útungunarstöðvar skulu vera lausar við sjúkdóma sem smitast milli kynslóða, nema varist sé smiti með öðrum hætti, svo sem bólusetningu.

 

21. gr.

Sótthreinsun.

Ákvæðið gildir eingöngu fyrir starfsemi skv. viðauka I.

Alifuglahús skulu hönnuð og byggð þannig að unnt sé að þrífa og sótthreinsa húsin.

Rými, innréttingar og verkfæri, sem fuglar komast í snertingu við, skulu þrifin reglulega. Hús, búr og kerfi milli hópa skal þrífa og sótthreinsa.

Aðstaða til þrifa og sótthreinsunar á fótabúnaði skal vera við innganga í alifuglahús. Að öðrum kosti skal inngöngum skipt í hrein og óhrein svæði. Viðeigandi hlífðarfatnaður og aðstaða til hand­þvottar skal vera til staðar.

Klakegg skal tína að minnsta kosti daglega. Sótthreinsa skal egg strax eftir tínslu. Eftir sótt­hreinsun skal geyma egg í hreinum og sótthreinsuðum umbúðum í þar til gerðu rými. Rýmið skal vera loftræst, snyrtilegt og sótthreinsað reglulega. Tína skal óhrein, sprungin, brotin eða lek egg sérstaklega og aðgreina frá heilum eggjum. Óheimilt er að nota þessi egg til útungunar.

 

IV. KAFLI

Varphænur og stofnfuglar af tegundinni Gallus gallus.

22. gr.

Aðbúnaður í lausagönguhúsum varphænsna og fullorðinna stofnfugla.

Innréttingar skulu þannig gerðar að hænur óhreinkist ekki af driti.

Að hámarki skulu vera 9 fuglar á hvern m² aðgengilegs svæðis fyrir fuglahópa innan við 2,4 kg líkamsþunga að meðaltali. Að hámarki skulu vera 7,5 fuglar á hvern m² aðgengilegs svæðis fyrir fuglahópa yfir 2,4 kg líkamsþunga að meðaltali.

Ekki skulu vera fleiri en sjö hænur um hvert einstaklingshreiður. Ef hóphreiður eru notuð skal vera minnst 1 m² varprými fyrir hverjar 120 hænur.

Hænur af varpkyni skulu hafa aðgang að setprikum, sbr. 14. tl. 1. mgr. 2. gr. og skal hver varp­hæna hafa a.m.k. 15 cm setrými. Setprik skulu ekki staðsett fyrir ofan svæði með undirburði. Lárétt bil milli prika getur verið minna en 30 cm ef prikin eru ekki í sömu hæð.

Eftirfarandi telst ekki til setprika:

 1. stangir og innréttingar sem eru yfir undirburði sem þjónar hænum að færa sig milli hæða og/eða til að komast að hreiðrum. Svæði frá stöngunum að kerfinu reiknast ekki sem undirburðarsvæði,
 2. stangir sem eru byggðar inn í gólf,
 3. þungaberandi innréttingar og kraftsperrur sem halda uppi pallakerfi.

Svæði með undirburði skal vera minnst 1/3 af gólfsvæði stíu og hver fugl skal hafa aðgang að 250 cm² svæði með undirburði í að lágmarki 9 klst. á birtutíma.

Lágmarksrými við fóðurtrog er eftirfarandi:

Fóðurkerfi Fuglar < 2,4 kg Hænur > 2,4 kg Hanar > 2,4 kg
Fóðurrenna, cm 10 15 20
Hringlanga trog, cm 4 10 13

Þar sem notaðar eru drykkjarrennur skal vera 2,5 cm drykkjarrými fyrir hvern fugl og við hring­laga drykkjarker skal vera 1 cm rými á fugl. Þar sem drykkjarnipplar eru notaðir skal vera að minnsta kosti einn drykkjarnippill eða drykkjarbolli fyrir hverja 10 fugla.

Gólf skulu þannig gerð að stuðningur sé fyrir allar framtær fugls. Óheimilt er að hafa fleiri en 18 fugla á hvern m² gólfsvæðis stíu.

Pallakerfi skulu uppfylla öll neðangreind skilyrði:

 1. Að hámarki vera fjórar hæðir, hver upp af annarri.
 2. Brynningar- og fóðurkerfi skulu þannig staðsett að fugl hafi jafnan aðgang að drykkjarvatni og fóðri.
 3. Bil milli hæða skal vera minnst 45 cm.
 4. Hæðirnar skulu hannaðar þannig að drit falli ekki niður á næstu hæðir.

Við skipulag húsa skal vera tryggt að unnt sé að sinna eftirliti með öllum fuglum. Í framleiðslu­kerfum þar sem fuglar hafa aðgang að útisvæði skulu:

 1. Útisvæði hönnuð með tilliti til fjölda fugla og gerð jarðvegs, til að lágmarka smitálag og mengun.
 2. Útgönguop dreifast þannig á veggi að þau veiti sem greiðastan aðgang að útisvæðinu. Hvert útgönguop skal vera a.m.k. 35 cm hátt og a.m.k. 40 cm breitt. Samanlögð breidd útgöngu­opa skal vera minnst 2 m fyrir hverja 1.000 fugla. Útgönguop skulu vera þannig að auðvelt sé að loka þeim þegar ástæða er til.

 

23. gr.

Aðbúnaður í húsum varphænsna með innréttuðum búrum.

Búr skulu þannig gerð að unnt sé að ná fuglum og hafa eftirlit með þeim.

Hver fugl skal hafa að lágmarki 750 cm² búrasvæði, þar af 600 cm² aðgengilegt svæði. Utan aðgengilegs svæðis skal lofthæð vera a.m.k. 20 cm. Samanlögð stærð búra skal vera a.m.k. 2.000 cm² og netþráður skal vera minnst 2 mm að þykkt.

Hænur skulu hafa aðgang að hreiðri, frjálst aðgengi að setprikum, minnst 15 cm á hverja hænu, og aðgang að undirburði. Stærð svæðis með undirburði skal taka mið af fjölda fugla og vera aðgengilegur að lágmarki í 9 klst. á birtutíma. Hænur skulu hafa aðgang að klóslípibúnaði eða öðrum búnaði sem tryggir eðlilegt slit á klóm.

Aðgengi að fóðurrennu skal vera stöðugt og hverri hænu ætlað a.m.k. 12 cm. Brynningarkerfi skal taka mið af þörfum og hópastærð fugla. Hver fugl skal hafa aðgang að minnst 2 drykkjar­nipplum eða bollum. Óheimilt er að nota lausan eða færanlegan brynningarbúnað.

Gangur milli búraraða skal vera minnst 90 cm breiður til að auðvelda eftirlit og flutning í og úr húsi. Bil á milli grinda í neðstu búraröð og gólfs skal ekki vera minna en 35 cm.

Ekki skulu vera fleiri en 5,5 hænur á hvern rúmmetra húss. Aðeins er leyfilegt að halda stofnum með meðallífþyngd undir 2,4 kg í búrum.

 

24. gr.

Aðbúnaður í húsum varphænsna með hefðbundnum búrum.

Óheimilt er að taka í notkun hefðbundin búr.

Búrasamstæður skulu að hámarki vera fjórar hæðir og tryggt skal að unnt sé að fylgjast með hænsnum í þeim. Hæð frá gólfi að lægsta punkti á neðstu hæð búra skal ekki vera minni en 20 sm. Á hvern rúmmetra hússins skulu ekki vera fleiri en átta hænur.

Hver hæna skal að lágmarki hafa 600 cm² gólfpláss og 12 cm pláss við fóðurrennu. Búr skal vera minnst 40 cm á hæð, minnst 32 cm á dýpt (mælt frá framnetinu), með gólfhalla að hámarki 12% og hámark tvær þéttar hliðar.

Brynning skal þannig útbúin að hænur fái alltaf nægt ferskt vatn. Hæð brynningar skal vera þannig að hænur eigi auðvelt með að drekka. Drykkjarnipplar eða bollar til brynningar skulu vera minnst tveir í hverju hólfi, einnig í einstaklingsbúrum. Þegar notuð er vatnsrenna skal hún vera jafnlöng fóður­rennu. Færanleg/hreyfanleg fóður- og/eða brynningarkerfi eru óheimil.

Net og önnur efni í búrum skulu vera af hentugri gerð og gæðum og þykkt netþráðarins skal vera minnst 2 mm.

Hænur skulu hafa aðgang að klóslípibúnaði eða öðrum búnaði sem tryggir eðlilegt slit á klóm.

 

25. gr.

Aðbúnaður í húsum til uppeldis.

Ungfuglar skulu aldir upp í sams konar húsnæði, við lausagöngu eða í búri og þeir verða í sem fullorðnir fuglar.

Um uppeldi á foreldrafugli sláturkjúklinga gilda skilyrði í lið 1.2 í viðauka III. Um unghænur gilda skilyrði í liðum 1.3, 1.4 og 1.5 í viðauka III. Innréttingar skulu þannig gerðar að fuglarnir óhreinkist ekki af driti.

Fuglar skulu hafa stöðugan aðgang að undirburði í lausagönguhúsum. Heimilt er að víkja frá því tímabundið á fyrstu fjórum lífvikum unga.

Ekki er gerð krafa um undirburð og setprik fyrir unghænur sem verða varphænur í hefð­bundnum búrum.

 

V. KAFLI

Kjúklingar.

26. gr.

Aðbúnaður í húsum fyrir kjúklinga.

Brynning skal vera aðgengileg allan sólarhringinn. Fóður skal annaðhvort vera aðgengilegt allan sólarhringinn eða gefið með reglulegu millibili, a.m.k. einu sinni á dag. Fóðrunar- og brynningar­búnaður skal háður skilyrðum í lið 1.6 í viðauka III.

Kjúklingar skulu ávallt hafa aðgang að undirburði, þar sem þeir eru haldnir.

Loftræsting skal vera nægileg til að koma í veg fyrir ofhitnun eldisrýmis og þar sem nauðsyn­legt er skal vera til staðar hitunarbúnaður til að koma í veg fyrir kælingu og raka.

 

27. gr.

Skráningar.

Umráðamaður skal halda skráningar um eftirfarandi atriði fyrir hvern hóp:

 1. Fjölda innsettra fugla.
 2. Aðgengilegt svæði.
 3. Heiti ræktunarstofns.
 4. Dagleg afföll, fjölda dauðra fugla og orsök, sé hún þekkt, og fjölda fugla sem eru aflífaðir, ásamt skýringu.
 5. Fjölda fugla sem eru eftir í húsi eftir sölu eða slátrun hluta hóps.
 6. Rekjanleikanúmer hópsins.

Skráningar skal varðveita í að minnsta kosti þrjú ár og skulu aðgengilegar eftirlitsaðilum.

Upplýsingar um fjölda innsettra fugla og upp­safnaða dauðatíðni á eldistímanum skulu fylgja hverjum hópi til slátrunar. Einnig skulu liggja fyrir upplýsingar um fjölda dauðra fugla í flutningi.

 

28. gr.

Þéttleiki kjúklinga.

Hámarksþéttleiki fugla á aðgengilegu gólfsvæði í eldishúsum skal ekki fara yfir 39 kg/m².

Niðurstöður mats á dritbruna skv. viðauka V hafa áhrif á hámarksþéttleika í húsum.

Matvælastofnun getur veitt tímabundna undanþágu um þéttleika umfram skilgreint hámark í ófyrirsjáanlegum tilvikum, þegar ekki er hægt að koma fuglunum í slátrun.

Matvælastofnun ber að tilkynna umráðamanni kjúklinga um stuðul samkvæmt nýjustu upplýs­ingum frá ræktendum viðkomandi stofns til að umreikna úr sláturþyngd kjúklinga yfir í lífþyngd.

Í öllum kjúklingahúsum skulu eftirfarandi gögn vera aðgengileg:

 1. Teikning af húsi þar sem tilgreint er aðgengilegt gólfsvæði.
 2. Lýsing á loftræstingu, upphitun og staðsetningu búnaðar.
 3. Lýsing á fóðrunar- og brynningarkerfum og staðsetning þeirra.
 4. Lýsing á viðvörunarkerfi fyrir hita- og rafmagnsbilanir og á búnaði sem lætur vita um bilanir í viðvörunarkerfum.

Umráðamaður skal sýna fram á að loftræstingar- og hitakerfi haldi loftgæði innan marka skv. viðauka IV.

 

VI. KAFLI

Kalkúnar.

29. gr.

Aðbúnaður í húsum fyrir kalkúna.

Kalkúnar skulu haldnir í lausagönguhúsum og hafa aðgang að undirburði séu þeir aldir innan­dyra. Lágmarkskröfur til húsakosts eru samkvæmt lið 1.7 í viðauka III.

 

VII. KAFLI

Endur og gæsir.

30. gr.

Aðbúnaður í húsum fyrir endur og gæsir.

Endur og gæsir skulu haldnar í lausagönguhúsum og hafa aðgang að undirburði, séu þær aldar innandyra. Aðgangur að vatni til böðunar skal vera til staðar. Lágmarkskröfur til húsakosts eru sam­kvæmt lið 1.8 í viðauka III.

 

VIII. KAFLI

Útungunarstöðvar.

31. gr.

Almennt.

Fyrir útungunarstöðvar gilda skilyrði þessa kafla og kröfur í 3., 9., 12. og 13. gr. reglugerðar­innar.

Starfsmaður skal hafa hlotið þjálfun um rétta meðferð á frjóeggjum og ungum í útungunar­stöðvum. Hann skal hafa þekkingu á fyrirbyggjandi smitvörnum og réttum umgengnisreglum og einnig hafa hlotið tilsögn í aflífun einstakra fugla.

Umráðamaður útungunarstöðvar skal halda nákvæma skýrslu um móttöku eggja, fjölda eggja í útungun, klakhlutfall og dreifingu unga.

Aðeins má dreifa heilbrigðum og hraustum ungum frá útungunarstöð. Ungum skal tryggja nægilega loftræstingu og eðlilegt hitastig.

 

32. gr.

Smitvarnir.

Umhverfi alifuglahúsa skal vera vel framræst og þrifalegt. Útungunarstöð skal haldið hreinni og snyrti­legri. Búnaður skal þrifinn eftir hverja notkun og sótthreinsaður fyrir hverja notkun. Flutninga­tæki sem flytja frjóegg og fugla skulu þrifin og sótthreinsuð milli lota.

Skipulagðar meindýravarnir skulu vera til staðar og útungunarstöð skal meindýraheld og varin fyrir villtum fuglum.

Útungunarstöð er aðeins heimilt að taka við útungunareggjum frá stofnbúum skv. viðauka I eða frá erlendu stofnbúi þar sem innflutningur frjóeggja hefur verið heimilaður.

Viðeigandi hlífðarfatnaður og aðstaða til handþvotta skal vera til staðar.

Hönnun útungunarhúss skal taka mið af vinnuferli og loftræstingu; egg, ungar og loftflæði fari allt í sömu áttina. Þessa er þó ekki krafist ef ekki er tekið á móti nýjum eggjum meðan á útungun stendur.

Í útungunarstöðvum skulu vera aðskilin rými fyrir:

 1. Fataskipti og skrifstofu.
 2. Eggjamóttöku.
 3. Útungun og klak.
 4. Kyngreiningu fari hún fram.
 5. Þvott á búnaði og kössum.

Einnig skal vera aðskilnaður milli unga og þvottarýmis. Þar sem ekki er tekið á móti nýjum eggjum meðan á útungun stendur eru ekki gerðar kröfur um aðskilin rými skv. 6. mgr. Ungar skulu fluttir í nýjum eða hreinum og sótthreinsuðum kössum.

 

IX. KAFLI

Önnur ákvæði.

33. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra og laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum. Meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

 

34. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð um velferð alifugla, nr. 135/2015.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Notkun á hefðbundnum búrum skv. 24. gr. skal hætt eftir 31. desember 2022.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 17. janúar 2022.

 

Svandís Svavarsdóttir
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kolbeinn Árnason.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica