Fjármálaráðuneyti

74/1969

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 245 31. desember 1963 um tekjuskatt og eignarskatt. - Brottfallin

1. gr.

10.tl.20.gr.orðist svo

Eignaauki, sem stafar af aukavinnu, sem einstaklingar leggja fram utan reglulegs vinnutíma við byggingu íbúða til eigin afnota.

Eigin vinna einstaklings telzt því aðeins vera aukavinna, að hún sé unnin utan reglulegs vinnutíma þ. e. a. s. að einstaklingurinn hafi unnið fullan vinnutíma við hið eiginlega eða fasta starf sitt og skilað eðlilegum árstekjum af því, nema um veikindi sé að ræða. Eigin vinna einstaklings unnin í reglulegum vinnutíma telzt því eigi til aukavinnu og telzt því ávallt til skattskyldra tekna, hvort heldur unnin við eigin íbúð eða aðra hluta húseignarinnar ætlaða til íbúðar eða önnur mannvirki, sem ekki eru ætluð til íbúðar.

Þegar búið er að ákveða, hve há upphæð teljist til aukavinnu við húsið, skal reikna út, hve mikill hluti hússins eða húshlutans, sem aðili á, muni notaður til íbúðar fyrir hann sjálfan annars vegar og hins vegar fyrir önnur afnot eiganda en til íbúðar, til útleigu eða sölu og finna hlutfallið milli þessa eftir stærð miðað við rúmmetra. Eftir þessu hlutfalli ákveðst hve mikill hluti aukavinnunnar er við byggingu íbúðar til eigin afnota og þar með skattfrjáls og hve mikill hluti hennar er vegna annars og því skattskyldur.

Framteljandi skal láta fylgja framtali sínu greinargerð um fjölda vinnustunda, sem hann hefur varið til byggingar hússins eða húshlutans, skiptingu þeirra milli aukavinnu og vinnu í reglulegum vinnutíma. Enn fremur skal fylgja greinargerð um hvaða störf innt voru af hendi, svo sem almenn verkamannavinna, trésmíði, múrun, málun o. fl. Svo og skal gerð glögg lýsing á húsnæði því, sem í smíðum er, svo að séð verði, hve mikill hluti af hinu byggða er einkaíbúð. Fylgi þessar upplýsingar ekki með framtali eða séu ófullnægjandi skal áætla um þessi atriði.

Ef sá, sem notið hefur skattfrelsis vegna vinnu við eigin íbúð, selur íbúðina innan 5 ára og fær vinnu sína að einhverju eða öllu leyti endurgreidda í söluverðinu skal hin skattfrjálsa vinna, sem unnin var innan 5 ára fyrir söludag, talin til skattskyldra tekna á því ári, sem sala fer fram, án tillits til þess, hvort keypt eða byggð er önnur íbúð í staðinn eða ekki. Undanþáguákvæði í 1. tl. 15. gr. um skattfrjálsa sölu fasteigna, ef önnur fasteign er keypt eða byggð í staðinn, ná því ekki til skattfrjálsrar vinnu við eigin íbúð.

Nú óskar gjaldandi eftir því, að sú skattfrjálsa vinna, sem hann fær endurgreidda í söluverði skv. framansögðu, verði ekki skattlögð á söluárinu, heldur verði hún skattlögð á þeim skattárum, þegar hún var lögð fram, og má þá um reikna skattinn fyrir þau ár, enda hafi gjaldandi gert fullnægjandi grein fyrir þessari vinnu á framtölum sínum fyrir viðkomandi skattár.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. heimild í lögum nr. 90 7. október 1965, öðlast gildi þegar í stað og skal koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts fyrir skattárið 1968.

Fjármálaráðuneytið, 12. marz 1969.

Magnús Jónsson.

Jón Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica