Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

624/1997

Reglugerð um gáma.

1. gr. Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð hafa eftirfarandi orð þá merkingu sem hér greinir:

  1. Gámasamningurinn: Alþjóðasamningur um gáma (International Convention for Safe Containers), sem undirritaður var á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í Genf 2. desember 1972, ásamt viðaukum og síðari breytingum.
  2. Umboðsaðili: Stofnun, sem Siglingastofnun Íslands hefur veitt umboð til að annast prófun, skoðun og viðurkenningu gáma, í samræmi við ákvæði 1. tl. IV. gr. gámasamningsins.

Skilgreiningar gámasamningsins gilda að öðru leyti fyrir þessa reglugerð.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um nýja og eldri gáma sem notaðir eru í flutningum til og frá Íslandi, að undanteknum þeim gámum sem sérstaklega eru hannaðir fyrir loftflutninga.

3. gr. Framkvæmd.

Umboðsaðilar annast prófun, skoðun og viðurkenningu á gámum, í samræmi við ákvæði gámasamningsins.

4. gr. Kröfur til gáma.

Gámar sem falla undir þessa reglugerð eru háðir prófun, skoðun, viðurkenningu og viðhaldi í samræmi við ákvæði gámasamningsins og skulu þeir fullnægja þeim kröfum sem kveðið er á um í gámasamningnum.

5. gr. Skyldur eiganda.

Eigandi eða umráðamaður gáms skal uppfylla þær skyldur sem ákvæði gámasamningsins kveða á um að lagðar séu á eiganda, þ.m.t. skyldu til að halda gámi í öruggu ástandi.

6. gr. Undanþágur.

Siglingastofnun Íslands getur veitt undanþágur frá ákvæðum þessarar reglugerðar.

7. gr. Refsingar.

Brot á ákvæðum þessarar reglugerðar varðar sektum samkvæmt 2. gr. laga um framkvæmd alþjóðasamnings um gáma nr. 14/1985, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 14/1985 um framkvæmd alþjóðasamnings um gáma og staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 31. október 1997.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.