Samgönguráðuneyti

588/2002

Reglugerð um þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta.

1. gr.
Gildissvið, markmið og tilgangur.

Reglugerð þessi og viðaukar hennar eru kröfur sem Siglingastofnun Íslands gerir til þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja öryggi íslenskra sjófarenda. Þessu markmiði skal ná með því að gera tilteknar kröfur til þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta, staðfesta nægjanlegan fjölda þjónustustöðva og hafa virkt eftirlit með þeim.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja að gúmmíbjörgunarbátar um borð í íslenskum skipum séu örugg björgunarför á neyðarstundu.


2. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

1. Gúmmíbjörgunarbátur er uppblásanlegur björgunarfleki, með eða án tjaldþaks, sem blæs sig upp og er að jafnaði geymdur óuppblásinn og tilbúinn til notkunar.
2. Þjónustustöð gúmmíbjörgunarbáta er stöð sem skoðar, gerir við, og athugar ástand og virkni gúmmíbjörgunarbáta.


3. gr.
Viðurkenningar.

Siglingastofnun Íslands viðurkennir þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta, veitir þeim starfsleyfi og hefur eftirlit með þeim. Einungis þeir sem hlotið hafa viðurkenningu Siglingastofnunar Íslands mega reka þjónustustöð gúmmíbjörgunarbáta.

Starfsleyfi Siglingastofnunar Íslands til þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta eru í fyrsta sinn gefin út til eins árs og síðan til fimm ára í senn. Í starfsleyfi skal rita nöfn þeirra skoðunarmanna sem hafa viðurkenningu og þjálfun til að starfa við og þjónusta gúmmíbjörgunarbáta.

Siglingastofnun Íslands getur afturkallað starfsleyfi telji hún að þjónustustöð uppfylli ekki reglur þessar eða vegna annarra gildra ástæðna.

Siglingastofnun Íslands og framleiðendur gúmmíbjörgunarbáta skulu tryggja að þjónusta við þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta sé með þeim hætti að aðgengi notenda sé tryggt og ávallt sé fyllstu öryggissjónarmiða gætt.


4. gr.
Skoðun gúmmíbjörgunarbáta.

Skoðun gúmmíbjörgunarbáta skal framkvæmd með hliðsjón af II. - IV. viðauka reglugerðar þessarar.

Fyrir sérhverri þjónustustöð skal vera umsjónarmaður eða verkstjóri.

Við pökkun gúmmíbjörgunarbáta skulu að lágmarki starfa tveir menn og skal að minnsta kosti annar þeirra hafa hlotið menntun og þjálfun samkvæmt reglugerð þessari.


5. gr.
Húsnæði þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta.

Húsnæði þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta skal uppfylla ákvæði I. viðauka við þessa reglugerð svo og gildandi íslenskar reglur um húsnæði vinnustaða.

Húsnæði þjónustustöðva gúmmíbjörgunarbáta skal að jafnaði ekki notað til annarrar starfsemi.

Í sérstökum tilfellum er heimilt er að leyfa þjónustustöð gúmmíbjörgunarbáta að nota annað húsnæði til tímabundinna verkefna enda uppfylli það viðeigandi kröfur. Sækja skal skriflega um leyfi til notkunar slíks húsnæðis til Siglingastofnunar Íslands.


6. gr.
Menntun og þjálfun starfsmanna.

Til að hljóta viðurkenningu sem skoðunarmaður gúmmíbjörgunarbáta skal viðkomandi hafa fengið lágmarksþjálfun sem hér segir:

1. Hafa starfað við pökkun gúmmíbjörgunarbáta samfellt í tvo mánuði, þ.e.a.s. 320 klukkustundir.
2. Hafa á þeim tíma pakkað án aðstoðar að minnsta kosti tíu viðurkenndum gúmmíbjörgunarbátum af mismunandi gerðum undir eftirliti viðurkennds skoðunarmanns.
3. Að starfsþjálfun lokinni skal skoðunarmaður sækja námskeið hjá viðurkenndum framleiðanda gúmmíbjörgunarbáta.
4. Skoðunarmaður skal sækja námskeið hjá Siglingastofnun Íslands um reglur sem varða gerð gúmmíbjörgunarbáta og íslenskar sérkröfur. Þátttakendur á námskeiðinu skulu greiða allan kostnað vegna námskeiðsins.
5. Hafi skoðunarmaður sótt námskeið í þjónustu og viðgerðum hjá tveimur viðurkenndum framleiðendum gúmmíbjörgunarbáta ásamt því að hafa sótt námskeið

Siglingastofnunar Íslands um reglur er varða gúmmíbjörgunarbáta telst það vera jafngilt liðum 1. - 4.

Frameiðendur gúmmíbjörgunarbáta, sem heimild hafa til að selja framleiðslu sína hér á landi, skulu tryggja að starfsfólki þjónustustöðva sé veitt sú menntun og þjálfun sem reglugerð þessi gerir ráð fyrir.


7. gr.
Handbækur, verkfæri og varahlutir.

Framleiðendum gúmmíbjörgunarbáta, sem heimild hafa til að selja framleiðslu sína hér á landi, ber að útvega þjónustustöð, sem hefur viðurkenningu Siglingastofnunar, þjónustuhandbækur, verkfæri og varahluti.


8. gr.
Eftirlit Siglingastofnunar Íslands.

Eftirlitsmaður Siglingastofnunar Íslands skal skoða árlega hverja þjónustustöð gúmmíbjörgunarbáta og fylgjast með pökkun gúmmíbjörgunarbáta. Jafnframt skal hann ganga úr skugga um að stöðin uppfylli að öðru leyti kröfur þessarar reglugerðar.


9. gr.
Skýrslugerð.

Þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta skulu fyrir sérhvern bát, sem stöðin þjónustar, fylla út þau eyðublöð sem Siglingastofnun Íslands gefur fyrirmæli um. Árlega skulu þjónustustöðvar senda upplýsingar til Siglingastofnunar um fjölda skoðaðra báta ásamt samantekt á ástandi þeirra og helstu athugasemdum sem koma fram við skoðun.

Þjónustustöðvar skulu tilkynna til Siglingastofnunar um gúmmíbjörgunarbáta sem ekki uppfylla reglur svo og um gúmmíbjörgunarbáta sem fara í aukaskoðun.


10. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. gr. laga nr. 35 frá 30. apríl 1993 um eftirlit með skipum og með hliðsjón af reglum um öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994, með síðari breytingum og ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) A 761 (18) og öðlast gildi þann 1. ágúst 2002.

Jafnframt falla úr gildi reglur um þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta, dags. 16. mars 1995.


Samgönguráðuneytinu, 18. júlí 2002.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.I. VIÐAUKI
Skilyrði.

1. Til að hljóta viðurkenningu skal þjónustustöð uppfylla eftirfarandi skilyrði:

.1 Gúmmíbjörgunarbáta skal eingöngu þjónusta í lokuðu rými. Þar skal vera nægjanlegt rými fyrir þann fjölda gúmmíbjörgunarbáta sem ætla má að þjónustaðir séu á hverjum tíma. Annaðhvort skal lofthæð vera næg til að hægt sé að snúa við stærsta gúmmíbjörgunarbátnum sem þjónustaður er uppblásinn eða jafngóð aðstaða svo hægt sé að skoða sauma á botni bátsins.
.2 Gólfið skal vera hreint og slétt svo ekki sé hætta á að skemmdir verði á efni gúmmíbjörgunarbátsins.
.3 Þjónusturýmið skal vera vel upplýst. Gera skal ráðstafanir svo sólargeislar nái ekki að skína inn í rýmið.
.4 Unnt skal vera að stjórna hita, og þar sem það þykir nauðsynlegt, rakastigi nægjanlega til að tryggja að hægt sé að þjónusta og gera við gúmmíbjörgunarbátinn á árangursríkan hátt.
.5 Í þjónusturýminu skal vera góð loftræsting og skal það vera laust við dragsúg.
.6 Sérstök svæði eða rými skulu vera fyrir;
(a) gúmmíbjörgunarbáta sem bíða þjónustu, viðgerðar eða afhendingar;
(b) viðgerðir á trefjaglershylkjum og málningu þrýstiloftshylkja;
(c) efni og/eða varahluti;
(d) skýrslugerð/stjórnun.
.7 Við geymslu gúmmíbjörgunarbáta skal vera þannig aðstaða að gúmmíbjörgunarbátum í hylkjum eða töskum sé ekki staflað hærra hvorum ofan á annan en í tvær raðir, nema til komi hillur þannig að bátarnir verði ekki fyrir miklu álagi vegna stöflunar (excessive load).
.8 Flugeldabirgðir og úrelta flugelda og blys skal geyma í aðgreindri, öruggri og lokaðri geymslu fjarri öðrum þjónustu- og geymslurýmum.
.9 Næg verkfæri skulu vera tiltæk til að þjónusta gúmmíbjörgunarbáta og losunarbúnað í samræmi við fyrirmæli framleiðanda og þar með talin(n);
a) heppilegur og nákvæmur loftþrýstimælir, hitamælir og loftvog, sem auðveldlega má lesa af;
b) ein eða fleiri loftdælur til að blása upp og lofttæma gúmmíbjörgunarbáta ásamt búnaði sem hreinsar og þurrkar loftið, svo og nauðsynlegar háþrýstislöngur og millistykki;
c) vog til að vega loftflöskur af nægri nákvæmni;
d) nægt gas til að blása í gegnum uppblásturskerfi gúmmíbjörgunarbáta.
.10 Setja skal vinnureglur um meðferð loftflaskna sem tryggja að sérhver loftflaska sé rétt fyllt og loftþétt áður en hún er sett í gúmmíbjörgunarbátinn.
.11 Nægjanlegt magn efna og aukahluta skal vera aðgengilegt til viðgerða á gúmmíbjörgunarbátum, ásamt birgðum af neyðarbúnaði sem fullnægir kröfum framleiðanda.
.12 Þegar gúmmíbjörgunarbátar, sem sjósettir eru með uglum, eru þjónustaðir skal vera til staðar búnaður til að yfirálagsprófa þá.
.13 Þjónusta og viðgerðarvinna skal eingöngu unnin af mönnum sem hlotið hafa næga þjálfun og réttindi frá framleiðanda gúmmíbjörgunarbáts eða viðurkenningu frá Siglingastofnun Íslands.
.14 Tryggja skal að viðurkenndar þjónustustöðvar fái;
(a) breytingar á þjónustuhandbókum, ásamt þjónustufréttum og leiðbeiningum;
(b) rétt efni og varahluti;
(c) þjálfun fyrir fagmenn.
.15 Reykingar skal ekki leyfa í þjónusturýmum og á pökkunarsvæðum.II. VIÐAUKI
Skoðun gúmmíbjörgunarbáta.

1. Eftirfarandi próf og athuganir skal gera, nema annað sé tekið fram, við hverja skoðun á gúmmíbjörgunarbáti sem notaður er sem björgunartæki:

.1 Athugun á hylki og hvort á því eru skemmdir.
.2 Athugun á samanbrotnum gúmmíbjörgunarbátum og innra ástand hylkisins með tilliti til raka.
.3 Uppblásturspróf með loftflösku (GI-próf) skal fara fram á 5 ára fresti. Þegar uppblásturspróf með loftflösku er gert skal gæta sérstaklega að virkni útblástursventla. Gúmmíbjörgunarbátinn skal taka samanbrotinn úr hylkinu áður en uppblásturinn er ræstur. Eftir að uppblásturinn er hafinn skal ætla hæfilegan tíma til að láta þrýstinginn í lofthólfunum jafna sig og leyfa CO2 ís að gufa upp. Að því loknu skal, ef nauðsyn þykir, fylla lofthólfin af lofti og bátinn skal láta í þrýstipróf, ekki skemur en í eina klukkustund, þar sem þrýstifall má ekki verða meira en 5% af vinnuþrýstingi.
.4 Sérhvern gúmmíbjörgunarbát skal reyna með nauðsynlegu viðbótarþrýstingsprófi (NAP), eins og lýst er í III. viðauka, eða öðru jafngildu prófi, árlega eftir að gúmmíbjörgunarbáturinn er orðinn 10 ára, nema skoðun leiði í ljós að prófa þurfi bátinn fyrr. Eftir þann tíma sem tekur að láta efni gúmmíbjörgunarbátsins ná efnisspennu við vinnuþrýsting skal láta gúmmíbjörgunarbátinn í þrýstipróf ekki skemur en eina klukkustund, þar sem þrýstifall má ekki vera meira en 5% af vinnuþrýstingi.
.5 Þegar NAP- eða GI-prófs er ekki krafist skal framkvæma vinnuþrýstingspróf (WP) (sjá IV. viðauka) með því að blása gúmmíbjörgunarbátinn upp með þurru þrýstilofti eftir að flekinn hefur verið tekinn úr hylkinu eða umbúðunum og losaður við fylgilínur, upp í vinnuþrýsting, eða þann þrýsting sem framleiðendur krefjast, ef hann er hærri. Gúmmíbjörgunarbátinn skal láta í þrýstingspróf, ekki skemur en eina klukkustund, þar sem þrýstifall má ekki verða meira en 5% af vinnuþrýstingi.
.6 Meðan gúmmíbjörgunarbátur er uppblásinn skal skoða hann nákvæmlega að innan og utan í samræmi við fyrirmæli framleiðanda.
.7 Botn gúmmíbjörgunarbáts skal blása upp og athuga hvort saumar séu slitnir og botninn skal prófa í samræmi við fyrirmæli framleiðanda.
.8 Samsetningu botns og flothylkja skal athuga og gæta að misfellum og hvort brúnir hafi losnað upp.
.9 Meðan lofthólfunum er haldið uppi í hæfilegri hæð yfir gólfi þjónustustöðvarinnar á maður, ekki léttari en 75 kg, að ganga eða skríða eftir jaðri botnsins allan hringinn og sauma botnsins á að athuga aftur eftir prófunina. Þjónustustöðvar hafa, í stað framangreinds, heimild til að nota hvaða aðra aðferð sem sannað getur öryggi samsetningar botnsins og flothólfs þar til að næstu skoðun kemur. Þessi próf skal gera árlega eftir að gúmmíbjörgunarbátur er orðinn 10 ára.
.10 Eftir að lofti hefur verið hleypt úr bátnum skal athuga samsetningar þaks og lofthólfa í samræmi við fyrirmæli framleiðanda.
.11 Alla hluta búnaðar skal athuga til að tryggja að þeir séu í góðu ástandi og að hlutar eða búnaður með dagstimplun séu endurnýjaðir við skoðun ef minna en 6 mánuðir eru eftir af árituðum endingartíma sem viðurkenndur er af yfirvöldum.
.12 Gúmmíbjörgunarbáta sem sjósettir eru með uglum, skal prófa með 10% umframþunga þar sem bátarnir eru látnir hanga í lyftibúnaði. Þetta skal gert í annarri hverri skoðun.
.13 Ganga skal úr skugga um að gúmmíbjörgunarbátur og andrúmsloft séu þurr þegar gúmmíbjörgunarbátnum er pakkað.
.14 Merkingar sem krafist er skal uppfæra og athuga.
.15 Skoðunarskýrslur skal geyma í a.m.k. 5 ár.
.16 Tölfræðilegar skýrslur skal gera um skoðun allra gúmmíbjörgunarbáta sem skoðaðir eru. Þar skal skrá sérstaklega galla sem fram hafa komið, viðgerðir, gúmmíbjörgunarbáta sem dæmdir hafa verið ónýtir eða teknir úr notkun. Þessar skýrslur skal afhenda Siglingastofnun Íslands.

Skyldur framleiðenda, stjórnvalda og útgerðarmanna.

Framleiðendur, stjórnvöld og útgerðarmenn bera samhliða og í sameiningu ábyrgð á að tryggt sé að þjónusta gúmmíbjörgunarbáta fari fram með markvissum hætti þannig að þeir séu örugg björgunarför á neyðarstundu. Þessi ábyrgð felur meðal annars í sér eftirfarandi sem er þó ekki tæmandi upptalning:
.1 Framleiðendur ábyrgjast að:

1.1 tryggð sé næg þjónusta við björgunarför þeirra, í samræmi við viðauka með reglugerð þessari eða sérhverjar viðbótarkröfur sem nauðsynlegar teljast vera fyrir tiltekna framleiðslu eða gerð og staðfesta viðurkenningu nægilegs fjölda þjónustustöðva, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðar þessarar;
1.2 sérhver þjónustustöð sem þeir viðurkenna til þjónustu og viðgerða björgunarfara þeirra hafi hæft starfsfólk, sem þeir hafa veitt næga þjálfun og starfsréttindi til slíkra starfa og sem er kunnugt um allar breytingar og nýja tækni;
1.3 gera stjórnvöldum fullkomna grein fyrir skráðum þjónustustöðvum sem þeir hafa viðurkennt og breytingum sem verða á þeirri skrá, sbr. 3. gr. reglugerðar þessarar;
1.4 sjá þjónustustöðvum fyrir:
- breytingum á handbókum, þjónusturitum og fyrirmælum;
- réttu efni og varahlutum;
- tilkynningum og fyrirmælum frá stjórnvöldum;
1.5 upplýsa stjórnvöld um öll sjóslys sem þeim er kunnugt um þar sem gúmmíbjörgunarbátar sem þeir hafa framleitt koma við sögu. Einnig um hvers kyns galla í gúmmíbjörgunarbátum sem komið hafa í ljós, aðra en galla sem komið hafa í ljós í skoðunum og stjórnvöldum er kunnugt um; og
1.6 upplýsa útgerðarmenn, þegar þess er kostur, um hvers kyns galla eða hættur sem þeim er kunnugt um og tengjast notkun gúmmíbjörgunarbátanna og gera þær ráðstafanir til bóta sem þeir telja vera nauðsynlegar.

.2 Stjórnvöld bera ábyrgð á reglubundnu eftirliti með þjónustustöðvum til að sannprófa að þær séu í samræmi við þessi tilmæli og framkvæma gæðamat með skyndiskoðunum eða því eftirliti sem nauðsynlegt kann að teljast til að ná árangri.
.3 Útgerðarmenn bera þá lágmarksábyrgð að tryggja að allir gúmmíbjörgunarbátar sem notaðir eru sem björgunartæki séu viðurkenndir og þjónustaðir með hæfilegu millibili á viðurkenndum þjónustustöðvum.
III. VIÐAUKI
Nauðsynlegt viðbótarþrýstipróf (NAP - próf).
1. Loka afhleypiventlunum.
2. Auka smám saman þrýstinginn til þess sem lægra er af; tvisvar sinnum vinnuþrýsting eða það sem er nauðsynlegt til að efni lofthólfsins nái a.m.k. 20% af lágmarkstogþoli efnisins.
3. Eftir að þrýstingi er náð og hann hefur verið á í 5 mínútur eiga hvorki að vera lát á saumum, sprungur, rifhljóð eða aðrir gallar, (sjá IMO Res. A521 (13)), né áberandi þrýstifall. Þegar rifhljóð í flothólfum eru heyranleg skal dæma gúmmíbjörgunarbátinn ónýtan. Ef engin rifhljóð eru skal lækka þrýstinginn samtímis því að taka tappana af afhleypiventlunum.
4. Framleiðendur gúmmíbjörgunarbáta skulu setja inn í handbækur sínar töflur um nákvæman NAP-prófþrýsting sem á við um stærð lofthólfa í bátum þeirra, ásamt togþolskröftum sem reiknaðir eru samkvæmt jöfnunni:

p (kg/cm²) = 2 x togþol (kg/5 cm)
25 x þvermál (cm)IV. VIÐAUKI
Próftíðni.

Tíðni viðbótarþrýstiprófa (NAP-prófa), vinnuþrýstingsprófa (WP), uppblástursprófa með CO2 og athugun á saum á botni (FS) skal vera eftirfarandi.

Próftíðni Reglubundin próf
Í lok fyrsta árs WP-próf
Í lok annars árs WP-próf
Í lok þriðja árs WP-próf
Í lok fjórða árs WP-próf
Í lok fimmta árs WP-próf
Í lok sjötta árs WP-próf
Í lok sjöunda árs WP-próf
Í lok áttunda árs WP-próf
Í lok níunda árs WP-próf
Í lok tíunda árs GI-próf + FS
Ellefta til fjórtánda ár NAP-próf + FS
Fimmtánda ár GI-próf + NAP-próf + FS
Sextánda til nítjánda ár NAP-próf + FS
Tuttugasta ár GI-próf + NAP-próf + FS
Tuttugasta og fyrsta til fjórða ár NAP-próf + FS
Tuttugasta og fimmta ár GI-próf + NAP-próf + FS
o.s.frv.
NAP = Nauðsynleg viðbótarþrýstipróf
WP = Vinnuþrýstingur
GI = Uppblásturspróf með loftflösku
FS = Athugun sauma á botni


Þetta vefsvæði byggir á Eplica