Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

503/1986

Reglugerð um sjúkraflutninga - Brottfallin

1. gr.

Skipulagðir sjúkraflutningar skulu vera með eftirfarandi hætti:

1. Á vegum heilsugæslustöðva og/eða sjúkrahúsa.

2. Á vegum félagasamtaka, sem hafa sjúkraflutninga að markmiði.

3. Á vegum opinberra stofnana.

4. Á vegum aðila, sem vegna sérstöðu starfsemi sinnar þurfa að starfrækja sjúkra­flutninga.

 

2. gr.

Rekstur sjúkraflutninga er háður leyfi heilbrigðisráðherra. Einungis má veita þeim aðilum leyfi, sem hafa í þjónustu sinni menn er hafa tilskilin réttindi sem sjúkraflutninga­menn, sbr. reglugerð frá 18. nóvember 1986, um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutn­ingamanna.

Sjúkraflutningaráð (sbr. 3. gr. og 4. gr.) gerir tillögur til ráðherra um veitingu leyfa.

 

3. gr.

Umsóknir um leyfi til sjúkraflutninga samkvæmt 1. gr. skulu sendar sjúkraflutninga­ráði, ásamt ítarlegum upplýsingum um aðstöðu og gerð og búnað flutningatækja. Sé um að ræða aðra aðila en heilsugæslustöðvar skulu fylgja umsókn samningar milli rekstraraðila og stjórnar viðkomandi heilsugæslustöðvar ásamt umsögn viðkomandi héraðslæknis.

 

4. gr.

Á vegum landlæknis skal starfa sjúkraflutningaráð skipað 3 mönnum. Landlæknir tilnefnir sérfróðan lækni, sem jafnframt skal vera formaður. Rauði Kross Íslands tilnefnir einn og Landssamband sjúkraflutningamanna einn.

Störf sjúkraflutningaráðs, auk þess að gefa umsögn um umsóknir um leyfi til sjúkraflutninga, eru að vera ráðgefandi um allt er varðar sjúkraflutninga í landinu og að gefa út staðla um flutningatæki og búnað þeirra.

 

5. gr.

Staðlar sjúkraflutningaráðs skulu sendir ráðherra til samþykktar og síðan birtir á lögformlegan hátt.

 

6. gr.

Óheimilt er að nota önnur flutningatæki og búnað en þann sem sjúkraflutningaráð hefur viðurkennt.

 

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 34. gr. laga nr. 5911983 um heilbrigðisþjónustu, öðlast gildi við birtingu.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir aðilar, sem annast rekstur sjúkraflutninga við gildistöku reglugerðar þessarar, skulu sækja um leyfi skv. reglugerðinni innan þriggja mánaða frá gildistöku. Er þeim þá heimilt að stunda áfram sjúkraflutninga í allt að eitt ár frá gildistöku.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 18. nóvember 1986.

 

Ragnhildur Helgadóttir.

Páll Sigurðsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica