Samgönguráðuneyti

402/2003

Reglugerð um úrskurðarnefnd siglingamála.

1. gr.
Úrskurðarnefnd siglingamála.

Úrskurðarnefnd siglingamála starfar samkvæmt 13. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum.


2. gr.
Kæruréttur.

Ákvarðanir Siglingastofnunar Íslands um útgáfu alþjóðlegra skírteina og áritana, viðurkenningu erlendra skírteina, veitingu eða synjun undanþága, útgáfu öryggisskírteina um lágmarksmönnun o.fl. samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, má kæra til úrskurðarnefndar siglingamála.

Úrskurðarnefnd tekur til úrskurðar að kröfu þess sem verulegra hagsmuna á að gæta ákvarðanir Siglingastofnunar, hvort heldur sem kæra lítur að málsmeðferð eða efni hinnar kærðu ákvörðunar.


3. gr.
Kærufrestur.

Kæru skal beina til úrskurðarnefndar innan fjögurra vikna frá því kæranda var tilkynnt um ákvörðun Siglingastofnunar. Kæru sem berst eftir lok fjögurra vikna kærufrests skal að öllu jöfnu vísa frá nefndinni.

Kærur vegna málsmeðferðar Siglingastofnunar eiga almennt ekki að koma til meðferðar úrskurðarnefndar fyrr en ákvörðun stofnunarinnar liggur fyrir. Beinist kæra að málshraða Siglingastofnunar getur úrskurðarnefndin tekið mál til úrskurðar án undangenginnar ákvörðunar Siglingastofnunar.


4. gr.
Málskotsgjald.

Ásamt kæru til úrskurðarnefndar skal greiða málskotsgjald í samræmi við lög um aukatekjur ríkissjóðs.

Úrskurðarnefnd er heimilt að kveða á um endurgreiðslu á málskotsgjaldi enda sé í öllum meginatriðum fallist á kæru.

Greiði kærandi ekki málskotsgjald innan frests sem nefndin getur sett skal vísa máli frá nefndinni og fellur þá krafa um málskotsgjald niður.


5. gr.
Réttaráhrif kæru.

Kæra til úrskurðarnefndar frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Siglingastofnunar. Úrskurðarnefnd er þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þegar sérstakar ástæður mæla með því í samræmi við stjórnsýslulög.


6. gr.
Málskot til dómstóla.

Málskot til dómstóla hindrar ekki að úrskurðarnefnd sé heimilt að taka kæru til málsmeðferðar.


7. gr.
Málsmeðferð kæru.

Kæra skal tekin fyrir á þeim stað og tíma sem formaður hefur boðað fund.

Úrskurðarnefndin skal ákveða tímafresti sem tryggja hraða málsmeðferð kærumála. Hafi aðili máls ekki lagt fram gögn innan tilskilinna tímafresta má taka ákvörðun þó það sé til tjóns fyrir þann aðila.

Úrskurðarnefndin getur gefið öllum þeim er verulega hagsmuni hafa af niðurstöðu máls, kost á að tjá sig um efni máls.


8. gr.
Afturköllun kæru.

Sá aðili sem kærir mál til úrskurðarnefndar getur afturkallað kæru sína hvenær sem er á meðan á málsmeðferð stendur.


9. gr.
Úrskurður.

Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan þriggja vikna frá því að kæra berst.

Úrskurðir skulu vera rökstuddir. Í þeim skal greina hvenær mál var kært, nöfn aðila, kröfur aðila, stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því, helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggja á, niðurstöður nefndarinnar og úrskurðarorð.

Álit minnihluta skulu útgefin samhliða áliti meirihluta nefndar.

Formaður ritar úrskurði eftir að nefndin hefur komist að niðurstöðu um úrskurðarorð.

Aðilum kærumáls skal kynnt niðurstaða úrskurðarnefndar um siglingamál án tafar.

Úrskurður nefndarinnar er endanlegur á stjórnsýslustigi.


10. gr.
Ársskýrsla.

Úrskurðarnefnd siglingamála skal skila árlegri skýrslu um starfsemi undangengins árs til samgönguráðherra í janúar ár hvert.


11. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Samgönguráðuneytinu, 5. maí 2003.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica