Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

32/2006

Reglugerð um breytingu á reglugerð um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis, nr. 322/1990 með síðari breytingum.

1. gr.

Grein 9.6. skal hljóða svo:

9.6.1

Ef verður flugslys eða alvarlegt flugatvik, þar sem hættulegur varningur um borð gæti hafa komið við sögu, skal flugrekandi loftfars sem flytur hættulegan varning veita án tafar upplýsingar til björgunaraðila um hættulega varninginn um borð eins og fram kemur í skýrslu til flugstjórans. Flugrekandi skal einnig eins fljótt og auðið er veita þessar upplýsingar hlutaðeigandi yfirvöldum ríkis flugrekandans og þess ríkis þar sem slysið eða alvarlega flugatvikið átti sér stað.

9.6.2

Ef flugatvik verður skal flugrekandi loftfars sem flytur hættulegan varning ef um er beðið veita án tafar upplýsingar til björgunaraðila og hlutaðeigandi yfirvaldi í því ríki sem atvikið átti sér stað um hættulega varninginn um borð eins og fram kemur á skýrslunni til flugstjórans.

2. gr.

Á eftir grein 12.0 kemur ný grein og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því.

13.0

Ráðstafanir til verndar hættulegs varnings.

 

Flugrekendur, sendendur eða aðrir sem umsjón hafa með flutningi hættulegs varnings flugleiðis, skulu verja sendingar sem innhalda hættulegan varning frá óheimilum aðgangi, við móttöku, meðhöndlun og meðferð, þar til þær eru settar um borð í loftfar og fram að brottför loftfarsins, hvort heldur er á flugvallarsvæðinu eða utan þess, í því skyni m.a. að koma í veg fyrir þjófnað eða misnotkun. Þessar ráðstafanir skulu vera samsvarandi flugverndarráðstöfunum í samræmi við reglugerð um flugvernd.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. mgr. 78. gr. og 145. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998 með síðari breytingum. Reglugerð þessi tekur þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 6. janúar 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica