Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

21/2005

Reglugerð um vátryggingar björgunarsveita.

1. gr.
Almenn ákvæði.

Reglugerð þessi tekur til vátryggingarskyldu björgunarsveita sem starfa samkvæmt lögum um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn nr. 43/2003 með síðari breytingum.

Vátryggingar samkvæmt reglugerð þessari skulu taka til tjóns sem verður við björgun, leit og gæslu, sem og önnur störf sem björgunarsveitum eru falin með lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða leiða af venju. Vátryggingar skulu einnig taka til tjóns sem björgunarsveitarmenn, þar á meðal þeir sem enn hafa ekki lokið þjálfun björgunarsveitarmanna, verða fyrir eða valda við björgunaræfingar eða aðra þjálfun björgunarsveitarmanna á vegum björgunarsveita.

Björgunarsveitir skulu halda skrá yfir félaga sína, þar á meðal þá sem teknir hafa verið til þjálfunar, í því skyni að unnt sé að sannreyna hverjir njóti vátryggingarverndar á hverjum tíma sem björgunarsveitarmenn.

Óheimilt er að takmarka vátryggingarvernd björgunarsveitarmanna vegna tjóns sem, beint eða óbeint, er af völdum jarðskjálfta, eldgosa, flóða, skriðufalla, snjóflóða eða annarra náttúruhamfara.

Óheimilt er að semja um lakari vátryggingarvernd til handa björgunarsveitarmönnum, en leiðir af ákvæðum reglugerðar þessarar.

Lágmarksfjárhæðir vátrygginga samkvæmt reglugerð þessari skulu miðaðar við vísitölu neysluverðs í janúar 2005 og breytast annað hvert ár í samræmi við breytingar á vístölunni, í fyrsta sinn 1. janúar 2006.


2. gr.
Slysatrygging björgunarsveitarmanna.

Björgunarsveitum er skylt að tryggja björgunarsveitarmenn vegna slysa er þeir kunna að verða fyrir í störfum sínum á vegum björgunarsveita. Skal vátryggingavernd ná til varanlegs líkamstjóns, dauða og tímabundins missis starfsorku, eftir því sem nánar greinir í 2. og 3. mgr.

Við mat á varanlegu líkamstjóni skal litið til þess hvers eðlis tjón er og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði miðað við heilsufar tjónþola þegar það er orðið stöðugt. Varanlegt líkamstjón skal meta til hundraðshluta. Bætur vegna 100% örorku skulu að lágmarki nema 9.000.000 króna, en lágmarksbætur fyrir minni örorku samsvarandi hlutfalli af þeirri fjárhæð. Heimilt er í vátryggingarsamningi að kveða á um að lægri varanleg örorka en 10% sé ekki bætt. Einnig er heimilt að kveða á um það í vátryggingarsamningi að aðrar til-teknar tryggingabætur dragist frá bótum.

Dánarbætur skulu að lágmarki nema 4.000.000 króna.

Dagpeningar vegna tímabundins missis starfsorku skulu að lágmarki nema 5.000 krónum fyrir hvern dag meðan starfsorkumissir varir. Í vátryggingarsamningi er heimilt að kveða nánar á um hvernig meta skuli tímabundinn starfsorkumissi, sem og frádrátt frá dagpeningum vegna starfsorkumissis að hluta eða vegna annarra greiðslna. Þá er heimilt að kveða á um að dagpeningar greiðist því aðeins að starfsorkumissir vari í ákveðinn lágmarkstíma (biðtími bóta). Biðtími bóta skal ekki vera lengri en fjórar vikur. Einnig er heimilt að kveða á um að tímabundinn starfsorkumissir verði aðeins bættur að hámarki fyrir ákveðið tímabil (bótatími). Lágmarksbótatími skal þó ekki vera skemmri en 48 vikur.


3. gr.
Munatrygging björgunarsveitarmanna.

Björgunarsveitum er skylt að tryggja björgunarsveitarmenn vegna tjóns á persónulegum munum sem kann að verða í störfum þeirra á vegum björgunarsveita. Til persónulegra muna telst allur tilskilinn og venjulegur einstaklingsbúnaður björgunarsveitarmanns. Til persónulegra muna teljast ekki loftför, skip, bátar eða ökutæki, svo sem bifreiðir, vélsleðar eða vélhjól.

Heimilt er að ákveða í vátryggingarsamningi að sjálfsáhætta björgunarsveitarmanna á persónulegum munum nemi allt að 75.000 krónum vegna hvers tjónsatburðar. Við ákvörðun vátryggingarfjárhæðar vátryggingarsamnings skal tekið mið af stærð björgunarsveitar, búnaði sem félagar sveitarinnar eiga sjálfir og leggja með sér við störf í þágu sveitarinnar og umfangi starfsemi sveitarinnar að öðru leyti.


4. gr.
Ábyrgðartrygging vegna starfa björgunarsveitarmanna.

Björgunarsveitum er skylt að kaupa ábyrgðartryggingu fyrir tjóni sem björgunarsveitarmenn kunna að valda þriðja manni í störfum sínum. Um skaðabótaábyrgð björgunarsveita fer samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.

Fjárhæð ábyrgðartryggingar samkvæmt 1. mgr. skal að lágmarki nema 150.000.000 króna. Heimilt er að ákveða að sjálfsáhætta björgunarsveita nemi allt að 1.000.000 króna vegna hvers tjónsatburðar, en ekki skal það skerða rétt þriðja manns til bóta.


5. gr.
Gildistaka o.fl.

Slysavarnarfélagið Landsbjörg skal varðveita eintak af vátryggingarskírteinum og vátryggingarskilmálum sem félagið, eða einstakar björgunarsveitir innan félagsins, gera samkvæmt reglugerð þessari og afhenda dómsmálaráðuneytinu afrit þeirra, ef þess er óskað.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 4. mgr. 5. gr. laga um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn nr. 43/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 23/2004, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 3. janúar 2005.

Björn Bjarnason.
Ásgerður Ragnarsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica