Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

17/1992

Reglugerð um málaskrár og gerðarbækur vegna aðfarargerða, kyrrsetningar, löggeymslu og lögbanns.

I. KAFLI

Skrár héraðsdómstóla um aðfararbeiðnir og ágreiningsmál

vegna aðfarargerða.

1. gr.

Við hvern héraðsdómstól skal haldin málaskrá um aðfararbeiðnir sem þangað berast. Í skrána skal færa eftirfarandi atriði:

 1. Móttökudag aðfararbeiðni.
 2. Nafn gerðarbeiðanda og umboðsmanns hans.
 3. Nafn, kennitölu og heimilisfang gerðarþola.
 4. Hvaða aðfarargerðar er krafist.
 5. Á grundvelli hvaða heimildar aðfarar er krafist.
 6. Hver annast afgreiðslu beiðninnar við dómstólinn.
 7. Hvaða afgreiðslu mál fær við dómstólinn.

Nú tilkynnir gerðarþoli að hann hafi andmæli fram að færa gegn kröfu gerðarbeiðanda en krafa hefur þó ekki ennþá borist héraðsdómi, og skal þá skrásetja þau atriði samkvæmt 1. mgr. sem koma fram í tilkynningu gerðarþola í málaskrá.

2. gr.

Við héraðsdóm skal að auki haldin skrá um ágreiningsmál sem rekin eru vegna aðfarargerða skv. 13., 14. og 15. kafla aðfararlaga.

Í skrána skal færa eftirfarandi atriði:

 1. Móttökudag kröfu um úrlausn ágreinings.
 2. Nafn sóknaraðila, varnaraðila og umboðsmanna þeirra.
 3. Hvert ágreiningsefnið er.
 4. Hver annast afgreiðslu máls við dómstólinn.
 5. Hvernig og hvaða dag máli lýkur.

3. gr.

Varðveisla gagna og veiting upplýsinga úr málaskrám samkvæmt reglum þessa kafla fer eftir almennum reglum laga um meðferð einkamála.

II. KAFLI

Skrár sýslumannsembætta um aðfararbeiðnir.

4. gr.

Við hvert sýslumannsembætti skulu haldnar málaskrár, eftir atvikum tölvufærðar. Skal ein vera um fjárnámsbeiðnir en önnur um aðfararbeiðnir eftir IV. þætti aðfararlaga.

Í málaskrá um fjárnámsbeiðnir skal færa eftirfarandi atriði:

 1. Hvaða dag og hvenær dags beiðni er móttekin.
 2. Númer sem beiðni fær í skránni.
 3. Nafn, kennitölu og heimilisfang gerðarþola.
 4. Nafn, kennitölu og heimilisfang gerðarbeiðanda.
 5. Nafn, kennitölu og heimilisfang umboðsmanns gerðarbeiðanda.
 6. Fjárhæð kröfu sem fjárnáms er krafist fyrir.
 7. Hvaða dag aðfararfresti lauk.
 8. Á grundvelli hvaða aðfararheimildar aðfarar er krafist.
 9. Hver framkvæmir gerð.
 10. Í hvers konar eignum fjárnám er gert eða hvort henni lýkur án árangurs.
 11. Hvaða dag og hvenær dags gerð lýkur.
 12. Hvort og þá með hvaða hætti máli lýkur með öðrum hætti, þ. á m. hvort það er endursent gerðarbeiðanda eða framsent sýslumanni í öðru umdæmi.

Í málaskrá um aðfararbeiðnir eftir IV. þætti aðfararlaga skal færa þau atriði sem getið er í 1.-S. tölulið, 7.-9. tölulið, 11. og 12. tölulið 2. mgr. Að auki skal þar skrá hvernig aðfarargerð er lokið.

5. gr.

Aðfararbeiðni skal skrá í málaskrá svo fljótt sem verða má eftir að hún berst sýslumanni. Nú er málaskrá tölvufærð, og skal hún þá svo úr garði gerð að unnt sé að færa atriði samkvæmt 1. - 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. í málaskrá af tölvudisklingum sem gerðarbeiðandi lætur í té ásamt beiðni sinni.

Í tölvufærðri málaskrá er málaskrárnúmer tveggja tölustafa einkennisnúmer fyrir sýslumannsembætti, fjögurra stafa ártal og fimm tölustafa númer úr óslitinni númeraröð innan hvers árs.

6. gr.

Afrit skulu tekin af tölvufærðri málaskrá um aðfararbeiðnir ekki sjaldnar en vikulega enda hafi þá sýslumannsembættinu borist ekki færri en tuttugu beiðnir frá því afrit var síðast tekið.

Upplýsingar í tölvufærðri málaskrá skulu varðveittar fram yfir næstu áramót eftir að máli lýkur en þó ekki skemur en sex mánuði frá málalokum.

7. gr.

Haldnar skulu sérstakar skrár hjá hverju sýslumannsembætti um árangurslaus fjárnám.

8. gr.

Aðilar að aðfarargerð eiga rétt á að fá upplýsingar úr málaskrá um þau mál sem þá varða. Sá sem sýnir fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta á einnig rétt á upplýsingum úr málaskrá.

Skrár samkvæmt 7. gr. skulu liggja fyrir við hvert sýslumannsembætti til upplýsinga handa þeim sem eftir leita. Láta má af hendi afrit af skránni.

III. KAFLI

Skrár sýslumannsembætta um beiðnir um kyrrsetningu,

löggeymslu og lögbann.

9. gr.

Við hvert sýslumannsembætti skal haldin sameiginleg málaskrá um beiðnir um kyrrsetningar- löggeymslu- og lögbannsgerðir.

Á málaskrána skal færa eftirfarandi:

 1. Atriði sem getið er í 1.-5. tölulið 2. mgr. 4. gr.
 2. Hvaða gerðar er krafist.
 3. Fjárhæð kröfu ef krafist er kyrrsetningar eða löggeymslugerðar.
 4. Hver framkvæmir gerð.
 5. Hvenær og hvernig gerð lýkur.

Upplýsingar um kyrrsetningar- og löggeymslugerðir sem lýkur án árangurs skulu færðar í skrá samkvæmt 7. gr.

IV. KAFLI

Varðveisla gagna.

10. gr.

Framlögð skjöl skulu varðveitt í skjalasafni hlutaðeigandi sýslumannsembættis þar til þau verða afhent Þjóðskjalasafni.

Öðrum en aðila máls verður ekki afhent frumrit skjals sem hann lagði fram nema með samþykki hans.

Sýslumanni er skylt að láta þeim, sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, í té staðfest eftirrit af málsskjölum.

11. gr.

Sýslumanni ber, innan þriggja virkra daga frá því að kyrrsetningar- eða lögbannsgerð lauk, að láta gerðarbeiðanda í té staðfest endurrit úr gerðabók og myndrit af framlögðum gögnum, eftir ósk hans.

12. gr.

Að því leyti sem greiðslur eiga að koma fyrir eftirrit gagna samkvæmt reglum um aukatekjur ríkissjóðs, getur sýslumaður krafist fyrirframgreiðslu fyrir eftirrit.

V. KAFLI

Gerðabækur um aðfarar-, kyrrsetningar-, löggeymslu- og

lögbannsgerðir hjá sýslumannsembættum.

13. gr.

Sýslumaður skal halda gerðabækur, annars vegar um aðfarargerðir og hins vegar um kyrrsetningar-, löggeymslu- og lögbannsgerðir.

14. gr.

Form gerðabóka má vera með þeim hætti sem segir í 2. eða 3. mgr.

Um gerðina má handrita í bók með tölusettum blaðsíðum, þar sem sýslumaður hefur ritað á titilsíðu að um gerðabók sé að ræða til afnota við gerðir sem reglugerð þessi tekur til. Um gerðina má vélrita eða prenta úr tölvu á laus blöð, sem eru þá undirrituð af þeim sem

framkvæmir gerð og eftir atvikum aðilum að henni eða umboðsmönnum þeirra. Slík blöð skulu varðveitt í lausblaðabókum eða öskjum, þar sem þeim er raðað eftir því sem gerðir fara fram.

VI. KAFLI

Gildistaka o.fl.

15. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 1. mgr. 15. gr., 18. gr. og 1. mgr. 33. gr. laga um aðför nr. 90 1. júní 1989 og 4. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31 23. apríl 1990, öðlast gildi 1. júlí 1992.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 13. janúar 1992.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn A. Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica