Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

156/1995

Reglugerð um alferðir.

I. KAFLI Auglýsingar um alferðir.

1. gr.

Í auglýsingum seljenda alferða í dagblöðum, tímaritum og ljósvakamiðlum skulu koma fram upplýsingar samkvæmt 2. gr. reglugerðar þessarar, eftir því sem við á.

2. gr.

2.1. Þegar verð alferðar er auglýst skal það miðast við einstakling og skal þess getið þótt önnur verðtilboð séu tilgreind í auglýsingunni.

2.2. Þegar verð er gefið upp í auglýsingum eða á annan hátt, skulu vera innifalin öll gjöld sem skylt er að greiða vegna ferðarinnar.

2.3. Þegar gisting er innifalin í verði skal gefa upp verð miðað við einstakling í tveggja manna herbergi fyrir tilgreint tímabil. Lengd ferðar skal gefa upp í dögum eða heilum vikum. Með vikuferð er átt við gistingu í 7 nætur.

2.4. Ekki má auglýsa lækkað verð nema ferð hafi áður verið boðin á hærra verði. Þegar auglýst er lækkað verð skal fyrra verð einnig koma fram.

II. KAFLI Auglýsingabæklingar um alferðir.

3. gr.

Gefi seljendur alferða út auglýsingabæklinga sem ætlaðir eru farkaupa skulu þeir innihalda upplýsingar samkvæmt 2. og 4. gr. reglugerðar þessarar.

4. gr.

Gera skal grein fyrir eftirfarandi atriðum:

4.1. Ferðaleiðum, áfangastöðum, hvenær og hve lengi dvalið er á hverjum stað.

4.2. Samgöngutækjum sem nota á, eiginleika þeirra og gæðaflokki, dagsetningum, tímasetningum og brottfarar- og komustöðum.

4.3. Tegund og staðsetningu gististaðar, gæða- eða þægindaflokki samkvæmt reglum viðkomandi gistiríkis.

4.4. Málsverðum sem innifaldir eru í verði ferðar.

4.5. Hvort krafist er lágmarksfjölda þátttakenda í ferð og ef svo er, hve margra og lokafresti til að tilkynna farkaupa um aflýsingu ferðar vegna ónógrar þátttöku.

4.6. Heimsóknum, skoðunarferðum eða annarri þjónustu, sem felst í verði alferðar.

4.7. Sérstökum aðstæðum á gististað, t.d. hávaða frá byggingastarfsemi, umferð eða öðru sem kann að valda ónæði.

4.8. Aðgengi fatlaðra að gististaðnum.

4.9. Reglum um afpöntun og möguleika á tryggingum, sbr. 5. gr. laga um alferðir.

4.10. Ákvæðum 9. og 13. gr. laga um alferðir.

4.11. Aukagjöldum fyrir aðstöðu sem ekki er innifalin í verði alferðar, en unnt er að kaupa sérstakalega, svo sem einstaklingsherbergi, bað, svalir og útsýni.

4.12. Hugsanlegum afslætti.

4.13. Hvenær og hvernig hægt er að greiða fyrir alferðina ásamt fjárhæð fyrirframgreiðslu sé hennar krafist.

4.14. Kröfum sem gerðar eru um vegabréf, vegabréfsáritanir og heilbrigðisráðstafanir.

III. KAFLI Pöntun á alferð.

5. gr.

Þegar alferð er pöntuð skal veita farkaupa upplýsingar varðandi ferðina samkvæmt 2. og 4. gr. reglugerðar þessarar.

IV. KAFLI Samningur um alferð.

6. gr.

Í samningi um alferð skal koma fram:

6.1. Nafn og póstfang seljanda alferðar og tryggingarfélags ef farkaupi kaupir forfallatryggingu fyrir milligöngu seljanda alferðar.

6.2. Sérstakar kröfur varðandi framkvæmd alferðar sem farkaupi hefur gert og seljandi lofað að uppfylla.

6.3. Verð og greiðslutilhögun.

6.4. Frestur farkaupa til að setja fram kvörtun vegna vanefnda á samningnum.

6.5. Upplýsingar um hugsanlegar verðbreytingar samkvæmt 7. gr. laga um alferðir og upplýsingar samkvæmt 4. gr. reglugerðar þessarar eins og við á.

V. KAFLI Upplýsingar sem veita ber áður en alferð hefst.

7. gr.

Áður en alferð hefst skal seljandi alferðar upplýsa farkaupa skriflega eða á annan ótvíræðan hátt um eftirfarandi atriði eins og við á. Vísa má til auglýsinga- eða kynningabæklings enda hafi farkaupi átt kost á að kynna sér efni hans.

7.1. Hvar og hvenær skuli mæta til brottfarar og heimferðar, hvar og hvenær millilent er og farið í annað eða svipað farartæki, svo og áætlaðan heimkomutíma.

7.2. Klefa eða koju á skipi eða svefn- eða hvíldarklefa í lest.

7.3. Fulltrúa seljanda alferða á áfangastað sem geta aðstoðað farkaupa. Sé hann ekki að finna, skulu farkaupa látnar í té upplýsingar um hvar og hvernig megi ná sambandi við þann fulltrúa sem næstur er, í síma, bréfsíma eða á annan hátt.

7.4. Þegar um er að ræða ferðir ólögráða barna til útlanda eða dvöl þeirra erlendis, skal veita farkaupa upplýsingar um hvernig megi ná beinu sambandi við barnið eða ábyrgðaraðila á dvalarstað.

7.5. Möguleika á að kaupa ferðatryggingu sem bætir kostnað af meðferð eða heimflutningi ef slys eða veikindi ber að höndum og opinber sjúkratrygging greiðir ekki bætur.

7.6. Skilmála fyrir staðfestingu flugmiða til heimferðar og fresti í því sambandi.

VI. KAFLI Gildistaka o.fl.

8. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal farið með slík mál að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi, sem öðlast þegar gildi, er sett samkvæmt lögum um alferðir nr. 80/1994 og staðfestist hér með til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Samgönguráðuneytið, 7. mars 1995.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.