Samgönguráðuneyti

8/2009

Reglugerð um skoðun ökutækja. - Brottfallin

I. KAFLI

Markmið og gildissvið.

1. gr.

Markmið.

Reglum um skoðun ökutækja er ætlað að stuðla að auknu umferðaröryggi með því að tryggja að ökutæki sé í lögmæltu ástandi til þess að hætta af notkun þess verði sem minnst.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerðin gildir um lögmælta skoðun ökutækja sem skráð eru hér á landi, hvaða ökutæki færa skal til reglubundinnar almennrar skoðunar (aðalskoðunar) og til annarrar skoðunar, hver skal skoða, um tíðni skoðunar, hvað skal skoða og hvernig.

II. KAFLI

Reglubundin almenn skoðun (aðalskoðun).

3. gr.

Ökutæki sem færa skal til aðalskoðunar.

Ökutæki, skráð hér á landi, utan dráttarvélar og torfærutækis, skal færa til reglu­bund­innar almennrar skoðunar (aðalskoðunar) í samræmi við reglugerð þessa.

Eigandi (umráðamaður) ökutækis ber ábyrgð á að það sé fært til skoðunar.

Þegar umráð ökutækis byggjast á eignaleigusamningi við fjármálafyrirtæki, þar sem fjármálafyrirtækið er eigandi ökutækis, hvílir skyldan til að færa ökutækið til skoðunar á umráðamanni ökutækis.

Nú er framvísað gögnum frá öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahags­svæðið, sem sanna að vélknúið ökutæki sem færa skal til skoðunar hafi verið skoðað. Skal þá taka gögnin gild enda beri þau með sér að skoðunin sé sambærileg við reglur á Evrópska efnahags­svæðinu um skoðun ökutækja.

4. gr.

Aðalskoðun.

Með þeim undantekningum, sem tilgreindar eru í 5. gr., skal færa til aðalskoðunar:

 1. bifreið, bifhjól og skráðan eftirvagn í fyrsta skipti á fjórða ári eftir að ökutækið var skráð fyrsta sinni, að skráningarárinu frátöldu, síðan annað hvert ár í tvö næstu skiptin og árlega eftir það;
 2. tjaldvagn og hjólhýsi (fellihýsi) í fyrsta skipti á fjórða ári eftir að ökutækið var skráð fyrsta sinni, að skráningarárinu frátöldu og annað hvert ár eftir það;
 3. fornbifreið annað hvert ár.

Ökutæki, sem færa skal til almennrar skoðunar á almanaksári, skal hafa verið fært til skoðunar fyrir lok ársins.

5. gr.

Aðalskoðun árlega.

Ökutæki sem færa skal árlega til aðalskoðunar frá og með næsta ári eftir skráningu:

 1. vörubifreið,
 2. hópbifreið,
 3. leigubifreið til mannflutninga,
 4. bifreið ætluð til sjúkraflutninga,
 5. eftirvagn með leyfða heildarþyngd meiri en 3.500 kg.

6. gr.

Hvenær árs skal færa bifreið og eftirvagn til aðalskoðunar.

Bifreið og eftirvagn skal færa til aðalskoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækis vísar til, sbr. þó 7. gr. Þannig skal t.d. ökutæki með skráningarmerki sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar og ökutæki með skráningarmerki sem endar á 0 í október. Heimilt er þó að færa ökutæki til skoðunar allt að 6 mánuðum fyrr á almanaksárinu og 10 mánuðum fyrr, hafi ökutækið gilda skoðun sem fram fór fyrir 1. nóvember liðins árs. Hafi ökutæki einkamerki með tölustaf sem síðasta staf á skráningarmerki, ræðst skoðunarmánuður af honum. Bókstafur sem síðasti stafur á skráningarmerki jafngildir 5 sem síðasta tölustaf á skráningarmerki.

Hafi eigandi (umráðamaður) ökutækis ekki átt þess kost að færa ökutækið til aðal­skoðunar í skoðunarmánuði þess, skal það gert í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar þaðan í frá.

7. gr.

Ökutæki sem færa skal til aðalskoðunar fyrir 1. ágúst á skoðunarári.

Færa skal eftirtalin ökutæki til aðalskoðunar fyrir 1. ágúst á skoðunarári, óháð síðasta tölustaf á skráningarmerki:

 1. fornbifreið,
 2. húsbifreið,
 3. bifhjól, þar með talin fornbifhjól og létt bifhjól,
 4. hjólhýsi (fellihýsi),
 5. tjaldvagn.

III. KAFLI

Önnur skoðun en aðalskoðun.

8. gr.

Skoðun við afhendingu skráningarmerkja.

Afhenda má skráningarmerki, sem lögð hafa verið inn til geymslu, án þess að ökutæki sé áður fært til aðalskoðunar:

 1. hafi skráningarmerkin verið tekin af ökutækinu af öðrum ástæðum en vanbúnaði;
 2. enda þótt frestur til að færa ökutækið til skoðunar sé liðinn.

Veita skal tiltekinn frest til að færa ökutækið til skoðunar enda hafi eigandi (umráða­maður) lýst því skriflega yfir að ökutækið sé hæft til skoðunar og sérstakar ástæður mæla ekki gegn því að ökutækið verði tekið í notkun.

Ökutæki, sem lögreglan hefur tekið skráningarmerki af vegna vanbúnaðar eða tjóns, skal færa til skoðunar áður en skráningarmerki eru afhent að nýju. Sama gildir um bifreið sem er tjónabifreið samkvæmt skilgreiningu í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.

9. gr.

Skráningarskoðun.

Áður en ökutæki er skráð, skal það skoðað til að ganga úr skugga um að það fullnægi kröfum í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og sé í samræmi við skráningargögn, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja.

10. gr.

Vegaskoðun.

Skipulagt eftirlit skoðunarstofu í samvinnu við lögreglu, Vegagerðina og Umferðarstofu skal fara fram á vegum á ástandi vörubifreiða, hópbifreiða, svo og eftirvagna og tengitækja með leyfilega hámarksþyngd yfir 3.500 kg. Eftirlitið skal felast í:

 1. sjónskoðun, athugun þess að búnaður ökutækis vinni rétt og mælingu útblásturs­mengunar;
 2. skoðun eins, fleiri eða allra þeirra atriða sem talin eru upp í skoðunarhandbók.

11. gr.

Skoðun ökutækis sem skráð er til flutnings á hættulegum farmi (ADR skoðun).

Við skoðun ökutækis, sem skráð er til flutnings á hættulegum farmi, skal ganga úr skugga um að búnaður ökutækisins í því sambandi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í reglum um það efni.

12. gr.

Skoðun vegna breytingar á ökutæki.

Áður en skráningu ökutækis er breytt vegna breytingar á ökutækinu, skal skoða það sérstaklega til þess að ganga úr skugga um að breytingin sé í samræmi við reglur um gerð og búnað ökutækja.

13. gr.

Endurskoðun.

Ökutæki skal fært til endurskoðunar ef niðurstaða skoðunar er "endurskoðun" eða "notkun bönnuð", sbr. 18. gr., við:

 1. aðalskoðun,
 2. skoðun við afhendingu skráningarmerkja,
 3. skráningarskoðun,
 4. vegaskoðun,
 5. skoðun vegna breytingar á ökutæki.

Sé ökutæki fært til endurskoðunar innan tilskilins frests, skal endurskoðunin eingöngu fela í sér skoðun á þeim atriðum sem athugasemd var gerð við í fyrri skoðun, sbr. 1. mgr., og athugun þess hvort viðgerð hafi verið fullnægjandi.

Til að ökutæki geti hlotið fullnaðarskoðun við endurskoðun skulu öll frávik, sem gerðar voru athugasemdir við í síðustu skoðun, hafa verið lagfærð.

Sé við aðalskoðun gerð athugasemd um atriði, sem ekki er unnt vegna skorts á varahlutum að bæta úr innan tilskilins frests, er heimilt að veita mánaðar frest til viðbótar áður útgefnum fresti, að því tilskildu að áður útgefinn frestur sé ekki útrunninn. Eigandi (umráðamaður) ökutækis skal framvísa staðfestingu frá skoðunarstofu þess efnis ef eftir því er leitað.

14. gr.

Skoðun að kröfu lögreglu.

Reynist ástand ökutækis, sem lögreglan stöðvar, ekki vera í lögmæltu ástandi, má krefjast þess að ökutækið skuli fært til sérstakrar skoðunar hjá skoðunarstofu.

IV. KAFLI

Skoðunarhandbók - Hvernig skoðun skal fara fram.

15. gr.

Skoðunarhandbók.

Umferðarstofa gefur út skoðunarhandbók um skoðun ökutækja sem falla undir reglugerð þessa. Þar skulu vera verklagsreglur fyrir skoðunarstofu til leiðbeiningar um hvernig dæma skuli einstök skoðunaratriði.

Umferðarstofa gefur út sérstaka skoðunarhandbók um skráningu og búnað ökutækja sem ætluð eru til að flytja hættulegan farm (ADR skoðun).

Skoðunarhandbækur skulu vera aðgengilegar í rafrænu formi.

16. gr.

Hvað skoða skal.

Við skoðun skal:

 1. athuga hvort ökutæki sé í lagi, hvort finna megi á því galla eða bilanir sem geri það óöruggt í umferð;
 2. athuga hvort ökutæki valdi meiri mengun umhverfisins en heimilt er;
 3. athuga atriði sem eru í ósamræmi við tilskilin gildi;
 4. staðfesta að samræmi sé á milli ökutækis og skráningargagna, hvort ökutækið sé rétt skráð og hvort verksmiðjunúmer þess sé í samræmi við skráningarskírteini.

Sé í ökutæki:

 1. búnaður, sem tilgreindur er í skoðunarhandbók en ekki gerð krafa um í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, þar með talin gasbúnaður;
 2. ljósa- og merkjabúnaður sem ekki er gerð krafa um en má vera samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja;

skal hann engu að síður vera í lagi.

Sé ökutæki búið ökurita samkvæmt reglugerð um ökurita og notkun hans, skal athugað hvort hann sé í lagi.

17. gr.

Dæming skoðunaratriðis.

Dæming skoðunaratriðis skal mótast af því hvort um er að ræða bifreið, bifhjól, eftirvagn, tjaldvagn eða hjólhýsi (fellihýsi). Einnig hvort ökutæki er í lögmæltu ástandi, í ólagi eða skemmt.

Dæming skoðunaratriðis skal vera í samræmi við skoðunarhandbók og miðast við hvort nota megi ökutækið án þess að af því leiði hætta eða óþægindi fyrir aðra, skemmd á vegi eða af því stafi mengun.

Dæming skoðunaratriðis getur verið þrenns konar:

Dæming 1: skoðunaratriði er ekki í lagi en er nothæft.

Dæming 2: skoðunaratriði er ekki í lagi og þarfnast viðgerðar.

Dæming 3: skoðunaratriði er ekki í lagi, er ónothæft, þarfnast viðgerðar og getur valdið hættu.

Hafi verið gerð athugasemd við skoðun ökutækis, skal haga notkun þess í samræmi við niðurstöðu skoðunar.

Þegar frestur til að færa ökutæki til skoðunar er útrunninn, er notkun þess óheimil, sbr. þó 4. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar.

18. gr.

Niðurstaða skoðunar.

Niðurstaða skoðunar skal færð í skoðunarvottorð í samræmi við hæstu tölu dæmingar hvers einstaks skoðunaratriðis. Niðurstaða skoðunar getur verið ferns konar, þ. e. án athugasemdar, lagfæring, endurskoðun og notkun bönnuð:

 1. Niðurstaða dæmingar 0:
  1. engin athugasemd,
  2. niðurstaða dæmingar er "án athugasemdar".
 2. Niðurstaða dæmingar 1:
  1. hæsta tala niðurstöðu skoðunar felur í sér kröfu um að lagfært verði allt sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði, án þess að krafa sé gerð um endurskoðun;
  2. niðurstaða dæmingar er "lagfæring";
  3. innan eins mánaðar skal eigandi (umráðamaður) hafa bætt úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við skoðun.
 3. Niðurstaða dæmingar 2:
  1. hæsta tala niðurstöðu skoðunar felur í sér kröfu um að án tafar verði lagfært allt sem gerð var athugasemd við á skoðunarvottorði og ökutækið fært til endurskoðunar;
  2. niðurstaða dæmingar er "endurskoðun";
  3. til endurskoðunar skal almennt veita frest til loka næsta mánaðar.
 4. Niðurstaða dæmingar 3:
  1. hæsta tala niðurstöðu skoðunar hefur í för með sér að vélknúnu ökutæki má ekki aka með eigin vélarafli;
  2. niðurstaða dæmingar er "notkun bönnuð";
  3. þrátt fyrir notkunarbann er heimilt að færa ökutæki með eigin vélarafli frá viðgerðarstað skemmstu leið til skoðunar;
  4. eftirvagn, hjólhýsi og tjaldvagn er heimilt að draga til viðgerðarstaðar og til skoðunar.

Hafi eingöngu verið gerð athugasemd við eitt skoðunaratriði með dæmingu nr. 2 skal, þegar merkt er við dæminguna með "X" í skoðunarhandbók, breyta niðurstöðu skoðunar­vottorðs á þann hátt að hún verði "lagfæring".

Hafi verið gerð athugasemd við skoðunaratriði með dæmingu sem merkt er við með "B" í skoðunarhandbók, skal vísa ökutækinu til breytingarskoðunar.

Hafi verið gerð athugasemd við skoðunaratriði með dæmingu sem merkt er við með "H" í skoðunarhandbók, skal hafna skráningu eða breytingu.

Niðurstaða aðalskoðunar skal vera óháð niðurstöðum undangenginna skoðana.

Banna skal notkun ökutækis:

 1. komi í ljós við endurskoðun að ekki hefur verið bætt úr varðandi a.m.k. helming athugasemda sem gerðar voru við undangengna skoðun;
 2. sé niðurstaða skoðunar nr. 2 eða 3, sbr. skoðunarhandbók, við skoðun ökutækis sem lögregla hefur tekið skráningarmerki af vegna vanbúnaðar;
 3. komi í ljós við endurskoðun að ekki hefur verið bætt úr varðandi a.m.k. helming athugasemda sem gerðar voru við undangengna skoðun ökutækis sem lögregla hefur tekið skráningarmerki af vegna þess að frestur til að mæta með það til endurskoðunar er útrunninn.

19. gr.

Skoðunarvottorð.

Við skoðun skal skoðunarmaður undirrita og afhenda vottorð um skoðunina og niður­stöðu hennar sem geyma skal í ökutækinu, auk afrits hjá skoðunarstofu. Kveðið skal á um form og efni skoðunarvottorðs í skoðunarhandbók.

20. gr.

Skoðunarmiði.

Við skoðun skal skoðunarmaður setja skoðunarmiða á þar til gerðan reit á skráningar­merki ökutækis eða eftir atvikum í framrúðu þess.

Eigandi (umráðamaður) ökutækis ber ábyrgð á því að skoðunarmiði sé á ökutæki og að miðinn sé ávallt greinilegur og læsilegur.

Óheimilt er öðrum en skoðunarmanni á skoðunarstofu eða endurskoðunarverkstæði, svo og lögreglunni að hylja skoðunarmiða eða fjarlægja hann.

Mismunandi áletrun skoðunarmiða skal gefa til kynna að:

 1. ökutæki hafi fengið aðalskoðun;
 2. ökutæki skuli fært til endurskoðunar innan tiltekins frests;
 3. að bannað sé að nota ökutæki fyrr en því hefur verið komið í lögmælt ástand og það fært til endurskoðunar.

Um gerð og notkun skoðunarmiða eru nánari ákvæði í I. viðauka.

V. KAFLI

Skoðunarstofa - Endurskoðunarverkstæði.

21. gr.

Skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæði annast lögmælta skoðun ökutækja.

22. gr.

Faggilding skoðunarstofu.

Skoðunarstofa skal hafa hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð um starfsemi fag­giltra óháðra skoðunarstofa og staðal ÍST EN ISO/IEC 17020:2004, viðauka A, og nánari ákvæði í reglugerðum sem settar eru samkvæmt heimild í umferðarlögum og lögum um faggildingu.

Starfsemi skoðunarstofu skal haga á þann hátt að treysta megi að fullu að starfsemin sé í samræmi við ákvæði reglugerðar um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa.

Skoðunarstofa má ekki jafnframt annast viðgerðir á ökutækjum, sölu á varahlutum í ökutæki eða aðra þá þjónustu sem stangast á við hlutleysisreglur staðalsins ÍST EN ISO/IEC 17020:2004.

23. gr.

Viðurkenning skoðunarstofu.

Umferðarstofa viðurkennir skoðunarstofu:

 1. Skoðunarstofu I til að skoða ökutæki, óháð leyfðri heildarþyngd ökutækis og skal hún búin:
  1. öllum tilskildum tækjum samkvæmt II. viðauka.
 2. Skoðunarstofu II til að skoða ökutæki sem eru 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd eða minna, svo og stærri ökutæki ef tilskilinn tækjabúnaður er fyrir hendi og skal hún búin:
  1. öllum tilskildum tækjum samkvæmt II. viðauka, nema hemlaprófara fyrir ökutæki, óháð leyfðri heildarþyngd þeirra, og hjólþeyti (spinnara).

Áður en skoðunarstofa er viðurkennd skal athugað hvort hún hefur faggildingu og hvort hún að öðru leyti fullnægir kröfum reglugerðar þessarar.

Liggja þarf fyrir yfirlýsing umsækjanda um að skoðunarstofan muni fullnægja skilyrðum 24. gr. reglugerðarinnar.

24. gr.

Hæfniskröfur varðandi skoðunarstofu.

Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu skal vera verkfræðingur, tæknifræðingur eða meistari í bifvélavirkjun. Hann skal ábyrgjast byrjunarþjálfun og reglubundna endur­menntun skoðunarmanna og má annast skoðun ökutækja, óháð starfsréttindum.

Skoðunarmaður á skoðunarstofu skal hafa starfsréttindi í bifvélavirkjun.

Tæknilegur stjórnandi skoðunarstofu og skoðunarmaður skulu vera í föstu starfi. Þeir skulu hafa sótt námskeið þar sem fjallað er um þær reglur sem um skoðun ökutækja gilda. Námskeiðin skulu viðurkennd af Umferðarstofu og skal námi lokið með prófi.

25. gr.

Skyldur skoðunarstofu.

Skoðunarstofa skal:

 1. hafa tæknilegan stjórnanda í föstu starfi sem ber tæknilega ábyrgð á því hvernig skoðun fer fram;
 2. hafa nægan fjölda fastráðinna skoðunarmanna;
 3. hafa yfir að ráða húsnæði og aðstöðu til þess að þar geti farið fram skoðun sem skoðunarstofan annast;
 4. hafa yfir að ráða tækjabúnaði í samræmi við II. viðauka;
 5. taka þátt í samanburðarskoðunum þegar Umferðarstofa óskar eftir því og hlíta fyrirmælum um ráðstafanir ef frávik milli skoðunarstofa koma fram. Skoðunar­stofa skal bera allan kostnað vegna þeirrar þátttöku og ráðstafana sem gera verður;
 6. taka þátt í verkefnum, sé þess óskað, sem unnin eru í samvinnu lögreglu, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu;
 7. senda niðurstöður aðalskoðunar, skoðunar vegna breytingar og skráningar­skoðunar og dæmingu hvers einstaks skoðunarliðs, ásamt stöðu akstursmælis og niðurstöðu mengunarmælinga, samdægurs til Umferðarstofu. Niðurstöðurnar skulu vera á rafrænu formi í samræmi við verklagsreglur Umferðarstofu;
 8. innheimta og standa skil á innheimtu umferðaröryggisgjalds í samræmi við reglugerð um umferðaröryggisgjald;
 9. innheimta og standa skil á innheimtu vanrækslugjalds í samræmi við VI. kafla reglugerðarinnar;
 10. ganga úr skugga um að bifreiðagjald og lögboðin tryggingariðgjöld ökutækis séu að fullu greidd.

26. gr.

Skoðun skoðunarstofu á endurskoðunarverkstæði eða öðru verkstæði.

Skoðunarstofa getur, í samræmi við viðurkenningu skv. 23. gr., skoðað ökutæki:

 1. á endurskoðunarverkstæði sem er fjær skoðunarstofu I en 35 km;
 2. á öðru verkstæði sem er fjær skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði en 35 km.

Áður en skoðunarstofa skoðar ökutæki skv. 1. mgr., skal skoðunarmaður ganga úr skugga um að aðstaða og tækjabúnaður á viðkomandi verkstæði sé fullnægjandi og í samræmi við II. viðauka, eftir því sem við verður komið.

27. gr.

Skráning og staðfesting á niðurstöðu skoðunar.

Skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæði skulu í samræmi við reglugerð þessa og skoðunarhandbók:

 1. skrá niðurstöðu skoðunar og aðrar tæknilegar upplýsingar í skoðunarvottorð og undirrita það;
 2. auðkenna ökutæki með skoðunarmiða, sbr. I. viðauka, til staðfestingar því að skoðun hafi farið fram í samræmi við niðurstöðu skoðunarinnar.

Niðurstöðu skoðunar, upplýsingar um stöðu akstursmælis ökutækis og gildi mengunar­mælinga skal senda samdægurs til Umferðarstofu sem færir inn niðurstöður í heildarskrá. Niðurstöðurnar skulu vera á rafrænu formi í samræmi við verklagsreglur Umferðarstofu.

28. gr.

Skoðun ökutækja að leyfðri heildarþyngd meiri en 3.500 kg. - Undanþága.

Skoðunarstofa I getur skoðað ökutæki sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd á skoðunarstofu II, endurskoðunarverkstæði eða öðru verkstæði þótt hentug gryfja/lyfta, hristari eða hjólþeytir séu ekki til staðar. Skal þá tryggt að hemlaprófari fyrir bifreiðir og eftirvagna, óháð leyfðri heildarþyngd, verði notaður við skoðunina. Tryggja skal að öll atriði verði skoðuð samkvæmt skoðunarhandbók þrátt fyrir að gryfja/lyfta, hristari og hjólþeytir séu ekki til staðar.

Hafi skoðunarstofa II eða endurskoðunarverkstæði tæki til að mæla hemlunarvirkni í akstri (hemlunarklukku), getur hún skoðað bifreið sem er meira en 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd ef annað hvort:

 1. bifreiðin er notuð við sérstök verkefni eða;
 2. fyrir liggur skriflegt vottorð lögreglu um að bifreiðin sé aðeins notuð á afmörkuðu svæði.

Slökkvibifreið, kranabifreið, námubifreið og beltabifreið má skoða með hemlunarklukku í öðrum tilvikum án þess að hún sé flutt til skoðunarstofu.

Í skoðunarvottorði skal tilgreina ef hemlunarvirkni ökutækis er mæld í akstri.

29. gr.

Skoðun ökurita á skoðunarstofu.

Skoðunarstofa I skal fullnægja kröfum reglugerðar um starfsemi ökuritaverkstæðis varðandi prófun ökurita við reglubundna skoðun sem fram skal fara á tveggja ára fresti:

 1. á skífuökurita samkvæmt a-lið 3. tölul. VI. kafla I. viðauka við reglugerð nr. 3821/85/EB, með áorðnum breytingum;
 2. á rafrænum ökurita samkvæmt 4. tölul. VI. kafla I. viðauka B við reglugerð nr. 1360/2002/EB.

Fullnægi skoðunarstofa I kröfum, sbr. 1. mgr., má þar fara fram skoðun skífuökurita sem vera skal á sex ára fresti samkvæmt b-lið 3. tölul. VI. kafla I. viðauka, sbr. a- og b-lið þessarar greinar.

30. gr.

Viðurkenning endurskoðunarverkstæðis.

Umferðarstofa viðurkennir endurskoðunarverkstæði:

 1. til að skoða eftirtalin ökutæki sem færa skal til aðalskoðunar:
  1. hjólhýsi (fellihýsi),
  2. tjaldvagn,
  3. eftirvagn með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minni.
 2. til að skoða hvort lagfært hefur verið það sem gerð hefur verið athugasemd við á skoðunarvottorði þegar veittur var frestur til endurskoðunar.

Áður en Umferðarstofa viðurkennir endurskoðunarverkstæði, skal athugað hvort það hafi B-faggildingu í samræmi við reglugerð um starfsemi endurskoðunarverkstæða með B-faggildingu og fullnægi að öðru leyti kröfum reglugerðar þessarar.

Liggja þarf fyrir yfirlýsing umsækjanda um að endurskoðunarverkstæðið muni fullnægja skilyrðum 32. gr.

Flokkar sem viðurkenning getur tekið til, einn eða fleiri:

 1. skynbúnaður,
 2. hreyfill og fylgibúnaður,
 3. yfirbygging,
 4. stýrisbúnaður,
 5. burðarvirki,
 6. hjólabúnaður,
 7. aflrás,
 8. hemlabúnaður,
 9. tengibúnaður og merkingar.

Flokkar 1 - 9 skiptast þannig eftir stærð og flokkun ökutækja:

 1. bifreið ≤ 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd,
 2. bifreið > 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd,
 3. eftirvagn ≤ 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd,
 4. eftirvagn > 3.500 kg að leyfðri heildarþyngd,
 5. bifhjól,
 6. hjólhýsi (fellihýsi),
 7. tjaldvagn.

31. gr.

Hæfniskröfur varðandi endurskoðunarverkstæði.

Tæknilegur stjórnandi endurskoðunarverkstæðis skal vera verkfræðingur, tækni­fræðingur eða meistari í bifvélavirkjun. Hann skal ábyrgjast byrjunarþjálfun og reglubundna endurmenntun skoðunarmanna og má annast skoðun ökutækja, óháð starfsréttindum.

Skoðunarmaður endurskoðunarverkstæðis skal hafa starfsréttindi í bifvélavirkjun.

Tæknilegur stjórnandi endurskoðunarverkstæðis og skoðunarmaður skulu vera í föstu starfi. Þeir skulu hafa sótt námskeið þar sem fjallað er um þær reglur sem um skoðun ökutækja gilda. Námskeiðin skulu viðurkennd af Umferðarstofu og skal ljúka með prófi.

32. gr.

Skyldur endurskoðunarverkstæðis.

Endurskoðunarverkstæði skal:

 1. hafa tæknilegan stjórnanda í föstu starfi sem ber tæknilega ábyrgð á því hvernig skoðun fer fram;
 2. hafa yfir að ráða húsnæði og aðstöðu til þess að þar geti farið fram skoðun sem endurskoðunarverkstæði annast;
 3. hafa yfir að ráða tækjabúnaði í samræmi við II. viðauka eftir því sem við á;
 4. taka þátt í samanburðarskoðunum þegar Umferðarstofa óskar eftir því og hlíta fyrirmælum um ráðstafanir ef frávik milli endurskoðunarverkstæða og skoðunar­stofa koma fram. Endurskoðunarverkstæði skal bera allan kostnað vegna þeirrar þátttöku og ráðstafana sem gera verður;
 5. taka þátt í verkefnum, sé þess óskað, sem unnin eru í samvinnu lögreglu, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu;
 6. senda niðurstöður aðalskoðunar og dæmingu hvers einstaks skoðunarliðar, ásamt stöðu akstursmælis og niðurstöðu mengunarmælinga, samdægurs til Umferðar­stofu. Niðurstöðurnar skulu vera á rafrænu formi í samræmi við verklagsreglur Umferðarstofu;
 7. innheimta og standa skil á innheimtu umferðaröryggisgjalds í samræmi við reglugerð um umferðaröryggisgjald;
 8. innheimta og standa skil á innheimtu vanrækslugjalds í samræmi við VI. kafla reglugerðarinnar.

33. gr.

Afturköllun viðurkenningar.

Umferðarstofa getur afturkallað viðurkenningu skoðunarstofu eða endurskoðunar­verkstæðis tímabundið eða að fullu þegar viðkomandi:

 1. uppfyllir ekki lengur skilyrði viðurkenningar;
 2. fer út fyrir leyfilegt starfssvið sitt eða fer ekki eftir reglum með því að:
  1. skoða önnur ökutæki en honum er heimilt;
  2. sinna ekki innheimtu gjalda sem honum er falin;
  3. virða ítrekað ekki fyrirmæli í skoðunarhandbók;
  4. sinna ekki skriflegum fyrirmælum eða aðvörunum Umferðarstofu um úrbætur.

34. gr.

Eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða.

Umferðarstofa hefur eftirlit með því að skoðun á skoðunarstofu og endurskoðunar­verkstæði fari fram í samræmi við skoðunarhandbók. Skal Umferðarstofa í því sambandi hafa aðgang að húsnæði, tækjum og gögnum sem notuð eru við skoðun ökutækja.

Gjald vegna kostnaðar við eftirlit með starfsemi skoðunarstofu skal vera í samræmi við gjaldskrá Umferðarstofu sem ráðherra staðfestir.

Umferðarstofa setur nánari verklagsreglur um eftirlitið, sem skulu vera aðgengilegar í rafrænu formi.

Umferðarstofa getur falið öðrum athugun þess hvort skilyrði viðurkenningar eru fyrir hendi svo og eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða.

35. gr.

Nánar um eftirlit með skoðun.

Skoðunarstofa og hver skoðunarmaður skulu leitast við að dæming og niðurstaða skoðunar verði innan tiltekinna frávika. Þessi regla á við um samanburð á skoðunum ökutækja sem skoðuð eru á hverjum sex mánuðum.

Nú fullnægir eftir atvikum skoðunarstofa eða skoðunarmaður ekki kröfu um lágmarks­frávik. Skal þá skoðunarstofan gera viðeigandi ráðstafanir, m.a. veita skoðunarmönnum fræðslu og eftir atvikum gera Umferðarstofu grein fyrir ástæðum frávika.

Fylgi skoðunarmaður ekki reglum skoðunarhandbókar um skoðun ökutækja, getur Umferðarstofa krafist þess að viðkomandi ökutæki sé fært á ný til skoðunar. Umferðarstofa getur jafnframt krafist þess að viðkomandi skoðunarmaður sitji sérstakt námskeið sem fram fer á vegum viðkomandi skoðunarstofu og sinni ekki skoðunarstarfi fyrr en að loknu námskeiði.

36. gr.

Miðlun upplýsinga.

Umferðarstofa heldur skrá um aðalskoðun ökutækja sem reglugerð þessi nær til og tryggir eigendum (umráðamönnum) þeirra aðgang að upplýsingum í rafrænu formi um það hvenær færa skal ökutæki til skoðunar.

Umferðarstofa heldur skrá samkvæmt upplýsingum frá skoðunarstofum og endur­skoðunarverkstæðum um þá þjónustu sem þær veita, svo sem tegund skoðana, opnunartíma, verðskrá og aðrar upplýsingar sem máli skipta.

Skráin skal vera aðgengileg notendum þjónustunnar.

VI. KAFLI

Vanrækslugjald.

37. gr.

Gjaldskylda og fjárhæð vanrækslugjalds.

Leggja skal á gjald, vanrækslugjald, sem eigandi (umráðamaður) ökutækis, sbr. 3. mgr. 3. gr., skal greiða við aðalskoðun eða endurskoðun ef ökutæki er ekki fært til:

 1. aðalskoðunar fyrir lok annars mánaðar frá því er ökutækið skyldi fært til aðalskoðunar samkvæmt reglugerðinni;
 2. endurskoðunar þegar liðinn er mánuður frá lokum þess mánaðar er ökutækið skyldi fært til endurskoðunar samkvæmt ákvörðun skoðunarmanns, sbr. þó 4. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar.

Vanrækslugjald skal vera að fjárhæð 15.000 kr. Sé gjaldið greitt og ökutæki fært til skoðunar, eftir atvikum aðalskoðunar eða endurskoðunar, innan mánaðar frá því að það var lagt á, skal það lækka í 7.500 kr.

Heimilt er að greiða vanrækslugjald á skoðunarstofu með kreditkorti.

38. gr.

Álagning og innheimta vanrækslugjalds.

Sýslumaðurinn í Bolungarvík annast álagningu og innheimtu vanrækslugjalds.

Gjaldið skal lagt á með skriflegri tilkynningu sem send skal eiganda (umráðamanni) ökutækis með hliðsjón af 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í tilkynningu skal því lýst að gjaldið skuli greiða við skoðun, eftir atvikum aðalskoðun eða endurskoðun, og hvernig með mál verði farið ef greiðsla dregst.

Hafi vanrækslugjaldið ekki verið greitt innan tveggja mánaða frá álagningu þess, skal það innheimt. Mótbárur eða varnir vegna álagðs gjalds skulu hafa borist sýslumanninum í Bolungarvík innan sama tíma.

Taki sýslumaður mótbárur og varnir vegna álagningar vanrækslugjalds gildar, getur hann fellt gjaldið niður.

Um fullnustuaðgerðir vegna innheimtu gjaldsins fer eftir 3. og 4. mgr. 109. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Umferðarstofa skal láta sýslumanni í té nauðsynlegar upplýsingar til þess að hann geti lagt gjaldið á og innheimt það, hafi það ekki verið greitt.

Umferðarstofa skal senda lögreglustjóra þess umdæmis þar sem eigandi (umráðamaður) ökutækis er skráður til heimilis, upplýsingar um ökutæki sem vanrækt hefur verið að færa til aðalskoðunar lengur en í 6 mánuði frá lokum frests, sbr. a-lið 1. mgr. 39. gr., og að færa til endurskoðunar í 4 mánuði frá lokum frests, sbr. b-lið 1. mgr. 37. gr.

VII. KAFLI

Gildistaka o.fl.

39. gr.

Málskot.

Sá sem ekki vill una niðurstöðu skoðunar ökutækis hjá skoðunarstofu getur, að undan­genginni umfjöllun stjórnenda skoðunarstofunnar, skotið niðurstöðunni til Umferðarstofu. Á sama hátt getur sá sem ekki vill una niðurstöðu endurskoðunar á endur­skoðunarverkstæði, að lokinni umfjöllun stjórnenda verkstæðisins, skotið niður­stöð­unni til Umferðarstofu.

40. gr.

Refsiákvæði.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

41. gr.

Viðaukar.

Eftirtaldir viðaukar fylgja reglugerðinni og eru hluti hennar:

 1. Skoðunarmiðar.
 2. Um tækjabúnað skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða.
 3. Um tækjabúnað við vegaskoðun.

42. gr.

Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í töluliðum 16.a og 17.h, í XIII. viðauka við samninginn gilda hér á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðaukanum, bókun eitt um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.

Með reglugerð þessari eru innleiddar í innlendan rétt tilskipanir í tölulið 16a: tilskipun nr. 96/96/EB, frá 20. desember 1996, skv. EES-ákvörðun nr. 33/97, birt í EES-viðbæti, 41. hefti, 2. október 1997, bls. 1; tilskipun nr. 1999/52/EB, breyting á tilskipun nr. 96/96/EB, frá 26. maí 1999, skv. EES-ákvörðun nr. 170/1999, birt í EES-viðbæti, 11. hefti 1. mars 2001, bls. 245; tilskipun nr. 2001/9/EB, breyting á tilskipun nr. 96/96/EB, frá 12. febrúar 2001, skv. EES-ákvörðun nr. 94/2001, birt í EES-viðbæti, 47. hefti, 20. september 2001, bls. 8; tilskipun nr. 2001/11/EB, breyting á tilskipun nr. 96/96/EB, frá 14. febrúar 2001, skv. EES-ákvörðun nr. 94/2001, birt í EES-viðbæti, 47. hefti, 20. september 2001, bls. 8, og tilskipun nr. 2003/27/EB, breyting á tilskipun nr. 96/96/EB, frá 3. apríl 2003, skv. EES-ákvörðun nr. 116/2003, birt í EES-viðbæti, 64. hefti, 18. desember 2003, bls. 22, svo og í tölulið 17h: tilskipun nr. 2000/30/EB, frá 6. júní 2000, skv. EES-ákvörðun nr. 111/2000, birt í EES-viðbæti, 9. hefti, 22. febrúar 2001, bls. 3.

43. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 60. og 67. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993. Reglugerðin tekur gildi við birtingu, utan 29. gr. og 1. mgr. 30. gr. sem taka gildi 1. júní 2009.

Frá birtingu reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð um skoðun ökutækja, nr. 378/1998 og reglugerðir um breytingu á henni, nr. 779/1998, 695/2000, 240/2001, 722/2001, 35/2002, 680/2002 og 197/2007.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ökutæki, skráð fyrir 1. janúar 2009, önnur en ökutæki sem færa skal til skoðunar árlega, skal eftir gildistöku reglugerðarinnar færa til aðalskoðunar þannig:

Ökutæki nýskráð:

 1. 2008 skal færa til aðalskoðunar í fyrsta sinn 2011, síðan eftir tvö ár og árlega eftir það;
 2. 2007 skal færa til aðalskoðunar í fyrsta sinn 2010, síðan eftir tvö ár og árlega eftir það;
 3. 2006 skal færa til aðalskoðunar í fyrsta sinn 2009, síðan eftir tvö ár og árlega eftir það;
 4. 2005 skal færa til aðalskoðunar 2010 og árlega eftir það;
 5. 2004 og fyrr skal færa til aðalskoðunar 2009 og árlega eftir það.

Bráðabirgðaákvæðið breytir ekki skyldu til að færa ökutæki til skoðunar fyrir 1. janúar 2009 í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 378/1998.

Samgönguráðuneytinu, 7. janúar 2009.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica