Félagsmálaráðuneyti

6/1996

Reglugerð um útgáfu húsbréfa á árinu 1996 fyrir Byggingarsjóð ríkisins, húsbréfadeild.

1. gr.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið, á grundvelli laga um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 97/1993, með síðari breytingum, að Byggingarsjóður ríkisins, húsbréfadeild, gefi út 1., 2. og 3. flokk húsbréfa 1996. Samanlögð fjárhæð húsbréfa í flokkunum, skal vera að hámarki 13.500 milljónir króna á árinu 1996. Húsbréfin í hverjum flokki skulu gefin út í þremur undirflokkum A, B og C. Í undirflokki A skal hvert húsbréf vera að fjárhæð 1.000.000,00 kr., í undirflokki B 100.000,00 kr., í undirflokki C 10.00.00 kr. Vextir í 1., 2. og 3. flokki 1996 eru 4,75% á ári. Lánstími bréfa í 1. flokki skal ver 15. ár, í 2. flokki 25. ár og í þriðja flokki 40 ár.


2. gr.

Húsbréf eru greiðsla húsbréfadeildar Byggingarsjóðs ríkisins við kaup deildarinnar á fasteignaveðbréfum.


3. gr.

Húsbréf skulu skráð á nafn. Nafn fyrsta eiganda, kennitala og heimilisfang skal skráð á framhlið húsbréfs. Við eigendaskipti að húsbréfi skal framsal til nýs eiganda skráð á bakhlið þess og þar skráður framsalsdagur, nafn, kennitala og heimilisfang hins nýja eiganda. Framsal húsbréfs til handhafa er óheimilt. Sé röð framsala gölluð, verður bréfið ekki innleyst, nema handhafi þess færi fullar sönnur á eignarheimild sína.


4. gr.

Húsbréf eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs, skv. lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995 og vaxtalögum nr. 25/1987, með síðari breytingum. Grunnvísitala flokkanna er vísitala janúarmánaðar 1996.


5. gr.

Byggingarsjóður ríkisins greiðir verðbætur á höfuðstól, vexti og vaxtavexti húsbréfa skv. breytingum á vísitölu neysluverð frá útgáfudegi bréfanna, 15. janúar 1996 til gjalddaga. Höfuðstóll, verðbætur, vextir og vaxtavextir greiðast eftir á í einu lagi. Nafnvextir eru óbreytanlegir allan tímann og reiknast frá útgáfudegi 15. janúar 1996.


6. gr.

Byggingarsjóður ríkisins innleysir og endurgreiðir húsbréf flokkanna að fullu skv. útdrætti á föstum gjalddögum, sem eru 15. janúar, 15. apríl, 15. júlí og 15. október ár hvert. Fyrsti gjalddagi er 15. október 1996. Húsbréfaflokkunum skal lokað eigi síðar en 15. mars 1998. Dregin verða út númer úr gildum og óinnleystum húsbréfum, sem afgreidd hafa verið þremur mánuðum fyrir viðkomandi gjalddaga. Í hverjum útdrætti skal draga út húsbréf fyrir þá fjárhæð sem svarar næst til endurgreiðslu jafngreiðsluláns með þeim vöxtum sem um flokkana gilda, lánstíma sem eftir er og eftirstöðvum. Númer útdreginna húsbréfa skulu birt í Lögbirtingablaði í síðasta lagi tveimur mánuðum fyrir gjalddaga.

Verði húsbréf ekki dregin út, greiðast þau að fullu á lokagjalddaga. Lokagjalddagi 1. flokks er 15. janúar 2011, 2. flokks 15. janúar 2021 og 3. flokks 15. janúar 2036. Húsbréf verða ekki innleyst að hluta.


7. gr.

Útdráttur fer fram hjá Raunvísindastofnun Háskólans að viðstöddum fulltrúa húsbréfadeildarinnar undir umsjón lögbókanda.


8. gr.

Allar kröfur á grundvelli húsbréfa fyrnast, sé þeim ekki lýst hjá Byggingarsjóði ríkisins innan 10 ára frá gjalddaga, hvort sem um útdrátt á föstum gjalddaga eða lokagjalddaga er að ræða. Gjaldfallnar endurgreiðslur húsbréfa bera ekki vexti eða verðbætur eftir gjalddaga.


9. gr.

Skattskylda eða skattfrelsi húsbréfa, vaxta og verðbóta af þeim, fer samkvæmt ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt á hverjum tíma, sbr. nú 8. gr., 1. tl. B-liðar 30. gr., 74. og 78. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.


10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 97/1993, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað.


Félagsmálaráðuneytinu, 10. janúar 1996.


Páll Pétursson.
Ingi Valur Jóhannsson.
Word útgáfa af reglugerð
- 006-1996.doc

Þetta vefsvæði byggir á Eplica