Leita
Hreinsa Um leit

Iðnaðarráðuneyti

285/1996

Reglugerð um breytingu á reglugerð um skráningu hönnunar, nr. 178/1994.

1. gr.

9. gr. orðast svo:

Forgangsrétt skv. 7. gr. laganna má byggja á umsókn um vernd sem lögð hefur verið inn í ríki sem er aðili að samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO). Einnig er heimilt að byggja forgangsrétt á umsókn um vernd sem lögð er inn í ríki sem ekki er aðili að samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina ef íslenskar umsóknir um hönnun njóta sambærilegra réttinda í því ríki og löggjöf þar er í aðalatriðum í samræmi við Parísarsamþykktina.

 

2. gr.

10. gr. orðast svo:

Til að njóta forgangsréttar skv. 7. gr. laganna þarf umsækjandi að krefjast þess í umsókn sinni og tilgreina hvar umsókn, sem forgangsréttarkrafa er byggð á, var lögð inn, umsóknardag hennar og umsóknarnúmer.

Skráningaryfirvöld geta krafist þess innan ákveðins frests að forgangsréttur sé staðfestur með vottorði frá skráningaryfirvöldum, sem tóku á móti umsókn þeirri, er umsækjandi byggir forgangsrétt sinn á. Í vottorðinu skal tilgreina umsóknardag og nafn umsækjanda. Skráningaryfirvöld geta ennfremur krafist afrits af umsókninni ásamt myndum af hönnuninni.

Berist fyrrnefnd skjöl ekki á tilskildum tíma fellur niður réttur til að krefjast forgangsréttar.

Ef fallið er frá kröfu um forgangsrétt skal það tilkynnt skriflega.

 

3. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 40. og 7. gr. laga nr. 48/1993 um hönnunarvernd, sbr. lög nr. 36/1996, og öðlast gildi 1. júní 1996.

 

Iðnaðarráðuneytinu, 31. maí 1996.

 

Halldór Ásgrímsson.

Steinunn Bjarman.

 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica