Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

587/1987

Reglugerð um löggæslu á skemmtunum og um slit á skemmtunum og öðrum samkvæmum

Um löggæslu á skemmtunum.

1. gr.

       Skemmtun sem aðgangur er seldur að má eigi halda nema að fengnu leyfi lögreglustjóra. Sama gildir um skemmtun sem fram á að fara á almennum skemmtistað, félagsheimili eða veitingahúsi, og skemmtun á að standa lengur en til kl. 23.30.

       Forstöðumenn skemmtana skulu tilkynna lögreglustjóra hvar og hvenær skemmtun skal halda, að jafnaði með einnar viku fyrirvara.

 

2. gr.

       Almennt skilyrði fyrir skemmtanaleyfi skal vera að sá sem fyrir skemmtun stendur ábyrgist að á skemmtun sé haldið uppi fullnægjandi dyravörslu og eftirliti að mati lögreglustjóra.

       Sá sem fyrir skemmtun stendur skal greiða kostnað vegna ráðstafana sem lögreglustjóri ákveður samkvæmt 3. og 6. gr., sbr. 5. og 8. gr. Getur lögreglustjóri krafist þess að sá sem fyrir skemmtun stendur greiði þann kostnað fyrirfram eða setji tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar sem hann metur gilda.

 

3. gr.

       Lögreglustjóri getur bundið skemmtanaleyfi því skilyrði að eigi annist aðrir dyravörslu að skemmtun en hann samþykkir.

       Ennfremur getur lögreglustjóri bundið skemmtanaleyfi því skilyrði að sá sem fyrir skemmtun stendur geri þær ráðstafanir aðrar til að halda þar uppi reglu, öryggi og velsæmi sem lögreglustjóri telur fullnægjandi.

 

4. gr.

       Hlutverk dyravarða er m. a. að hafa eftirlit með framkvæmd reglna um skemmtanaskatt og söluskatt, reglna um lokunartíma og slit skemmtunar, leyfðan gesta­fjölda, aldur gesta og meðferð áfengis. Skulu þeir og aðrir eftirlitsmenn að öðru leyti halda uppi röð og reglu á skemmtun og er þeim í því skyni heimilt að vísa af skemmtun þeim sem brjóta gegn settum reglum eða óspektum valda og kveðja sér til aðstoðar við störf sín hvern þann sem þeir óska.

       Dyraverðir og aðrir eftirlitsmenn á skemmtun skulu að jafnaði bera einkennishúfu eða annað auðkenni sem sá er fyrir skemmtun stendur eða forstöðumaður samkomustaðar leggur til.

 

5. gr.

       Laun og ferðakostnaður dyravarða og annarra eftirlitsmanna sem lögreglustjóri áskilur samkvæmt 3. gr. greiðir sá sem fyrir skemmtun stendur, eftir atvikum samkvæmt reikningi lögreglustjóra. Annan kostnað vegna ráðstafana samkvæmt þeirri grein greiðir sá sem fyrir skemmtun stendur.

 

6. gr.

       Lögreglustjóri getur ennfremur bundið skemmtanaleyfi því skilyrði að lögreglumenn verði á skemmtistað. Skulu þeir einkum halda uppi röð og reglu við skemmtistað og í næsta nágrenni hans, þ.á.m. hafa eftirlit með og greiða fyrir umferð að og frá staðnum.  Lögreglumenn skulu að jafnaði því aðeins fara inn á skemmtistað að þeir séu kvaddir þangað af forstöðumanni skemmtunar eða dyravörðum eða þeim þyki að öðru leyti ástæða til þess vegna eftirlits.

       Þegar um er að ræða útisamkomur skulu lögreglumenn þó annast löggæslu á samkomusvæðinu.

       Lögreglustjóri ákveður hverju sinni hve margir lögreglumenn skulu vera á skemmtistað og kveður nánar á um framkvæmd löggæslunnar. Hann ákveður m.a. hvenær lögreglumenn skulu mæta á skemmtistað og skulu þeir dvelja þar uns skemmtun er lokið. Lögreglumenn skulu að jafnaði eigi yfirgefa skemmtistað fyrr en gestir eru farnir af staðnum.

 

7. gr.

       Nú telur lögreglumaður sem annast löggæslu á skemmtistað reglu á skemmtun þannig að eigi sé fært að halda henni áfram og er honum þá heimilt að ákveða að skemmtun skuli slitið. Er gestum þá skylt að yfirgefa skemmtistaðinn.

       Lögreglumenn sem kvaddir eru til að annast löggæslu á skemmtistað, sbr. 6. gr., skulu gefa lögreglustjóra skriflega skýrslu um starf sitt.

 

8. gr.

       Kostnaður vegna löggæslu á skemmtistað samkvæmt 6. gr. greiðist úr ríkissjóði af viðkomandi lögreglustjóra.

       Sá sem fyrir skemmtun stendur skal endurgreiða lögreglustjóra þann kostnað er leiðir af aukinni löggæslu vegna skemmtunar umfram það sem eðlilegt má telja. Skal við það miðað að hverju sinni séu að jafnaði tiltækir tveir lögreglumenn við almenn löggæslustörf í nágrenni skemmtistaðar sem ríkissjóður ber allan kostnað af. Þá er gestum er heimill aðgangur að skemmtun eftir kl. 23.30 skal sá sem fyrir skemmtun stendur endurgreiða allan löggæslukostnað. Ríkissjóður skal þó bera ferðakostnað lögreglumanna. Að jafnaði skal eigi endurkrefja kostnað vegna löggæslu lengur en sem nemur einni klukkustund eftir að skemmtun lýkur.

       Dómsmálaráðuneytið lætur lögreglustjórum í té gjaldskrá vegna endurgreiðslu launa lögreglumanna, og verði þá tekið tillit til launatengdra gjalda.

 

9. gr.

       Lögreglustjóri skal, ef hann sér ástæðu til eða samkvæmt tilmælum félagasamtaka í umdæmi hans, boða til fundar með forstöðumönnum samkomustaða í umdæminu. Á þeim fundi skal rætt um það á hvern hátt þess verði best gætt að skemmtanir þær sem haldnar verða í umdæminu fari sómasamlega fram. Á fundi þessum skulu og lögreglumenn mæta.

 

10. gr.

       Lögreglustjóri getur bannað þeim mönnum aðgang að skemmtunum í umdæmi sínu sem ítrekað hafa hagað sér ósæmilega á skemmtunum.

       Lögreglustjóri skal tilkynna forstöðumönnum samkomustaða um slíkt bann og er þá alfarið óheimilt að veita hlutaðeigandi mönnum aðgang að skemmtunum.

 

11. gr.

       Lögreglustjóra er heimilt að gefa út almennt skemmtanaleyfi fyrir veitingastað þar sem skemmtanir fara reglubundið fram, enda skuldbindi forstöðumaður veitingastaðarins sig til að hlíta að öðru leyti reglum undanfarandi greina, þ. á m. um greiðslu eða tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar vegna ráðstafana sem lögreglustjóri ákveður, sbr. 2. gr., svo og til að ábyrgjast að fullnægt verði ákvæðum laga og reglugerða um skemmtanaskatt og söluskatt að því er varðar skemmtanahald á veitingastaðnum.

       Forstöðumaður veitingastaðar skal gera lögreglustjóra grein fyrir því hvernig skemmtanahald á veitingastaðnum er fyrirhugað og veita lögreglustjóra að öðru leyti allar þær upplýsingar sem honum er þörf á vegna eftirlits og framkvæmdar löggæslu, samkvæmt nánari ákvörðun lögreglustjóra. Forstöðumaður skal og tilkynna lögreglustjóra ef veruleg frávik á skemmtanahaldi eru fyrirhuguð frá því sem áður hefur verið tilkynnt.

 

12. gr.

       Almennt skemmtanaleyfi fyrir veitingastað má gefa út fyrir allt að eitt ár í senn. Fyrir veitingastað sem starfað hefur í 2 ár samfleytt er heimilt að gefa leyfi út fyrir allt að fjögur ár í senn.

       Lögreglustjóri getur hvenær sem er afturkallað almennt skemmtanaleyfi fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma, svo sem

a)    ef regla er eigi nægilega góð,

b)    ef brotnar eru reglur sem um reksturinn gilda, og

c)    ef sérstakar ástæður mæla gegn því að skemmtun fari fram.

 

Um slit á skemmtunum og öðrum samkomum.

13. gr.

            Skemmtunum, dansleikjum og öðrum samkomum sem fram fara á almennum skemmtistöðum, félagsheimilum eða veitingahúsum skal slíta í síðasta lagi klukkan eitt eftir miðnætti. Skemmtanir, dansleikir og önnur samkvæmi sem hefjast að kvöldi föstudags eða laugardags eða kvöldið fyrir almennan frídag mega þó standa til klukkan þrjú eftir miðnætti.

 

14. gr.

       Ef um er að ræða árshátíð, afmælisfagnað eða aðra þess háttar samkomu sem fyrst og fremst er ætluð félagsmönnum og gestum þeirra en skemmtun er eigi ætluð almenningi er lögreglustjóra heimilt að leyfa að skemmtun standi einni klukkustund lengur en greinir í 13. gr.

       Heimilt er lögreglustjóra að leyfa að áramótafagnaðir standi til klukkan 4 að morgni nýársdags.

 

15. gr.

       Ef sérstaklega stendur á getur dómsmálaráðuneytið heimilað lögreglustjóra að leyfa að skemmtun standi lengur en greinir í 13. gr. og 14. gr.

 

Gildistaka.

16. gr.

            Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 8. og 11. gr. laga um lögreglumenn, nr. 56 29. maí 1972 og lögum um heimild til þess að marka skemmtunum og samkomum tíma, nr. 120 22. desember 1947, öðlast þegar gildi.

       Jafnframt er felld úr gildi reglugerð um löggæslu á skemmtunum, nr. 273 12. júlí 1977, og reglur um slit á skemmtunum og öðrum samkomum, nr. 87 26. mars 1976, sbr. reglur nr. 280 3. júlí 1979.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 23. desember 1987.

 

Jón Sigurðsson.

Ólafur W. Stefánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica