Samgönguráðuneyti

369/2008

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1. gr.

77. gr. orðast svo:

Handhafi ökuskírteinis sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða í Færeyjum getur án frekari könnunar fengið skipt á því og samsvarandi íslensku ökuskírteini, uppfylli hann kröfur 4. gr. um fasta búsetu.

Handhafi ökuskírteinis sem gefið er út í öðrum löndum en um getur í 1. mgr. og uppfyllir kröfur 4. gr. um fasta búsetu getur því aðeins fengið skipt á því og samsvarandi íslensku ökuskírteini að hann standist hæfnispróf, sbr. þó 3. mgr.

Nú óskar ríki sem ekki fellur undir skilgreiningu sbr. 1. mgr. eftir því að að skipta megi á ökuskírteini viðkomandi ríkis og íslensku ökuskírteini án hæfnisprófs og skal Umferðarstofa meta hvort skilyrði eru til þess. Við matið þurfa að liggja fyrir nauðsynleg gögn frá stjórnvaldi viðkomandi ríkis varðandi kröfur til ökunáms og ökuprófs. Miðað skal við að kröfur til útgáfu ökuskírteinis í hlutaðeigandi ríki lúti ekki vægari skilyrðum en sett eru hér á landi og að umferðaraðstæður í ríkinu réttlæti að öðru leyti slíka ákvörðun.

Þegar niðurstaða Umferðarstofu liggur fyrir um að skilyrði séu til þess að gefa út íslenskt ökuskírteini til handhafa erlends ökuskírteinis án hæfnisprófs, skal heiti viðkomandi ríkis skráð í XII. viðauka við reglugerð þessa því til staðfestingar.

2. gr.

88. gr. a. breytist þannig:

Á eftir "XI. Sérstakt námskeið vegna akstursbanns" kemur: XII. Ríki sem fullnægja skilyrðum 3. mgr. 77. gr. um að skipta megi erlendu ökuskírteini í íslenskt ökuskírteini án hæfnisprófs.

3. gr.

III. viðauki breytist þannig:

Í III. kafla á eftir orðinu "miðjustandari" í A-lið, sem er með fyrirsögninni "Flokkur A" kemur nýr liður, A1-liður, með fyrirsögninni Flokkur A1 sem orðast svo:

Tvíhjóla bifhjól í flokki A1 án hliðarvagns með slagrými yfir 120 sm³ og gert fyrir a.m.k. 90 km/klst. hraða. Bifhjól skal búið baksýnisspeglum fyrir ökumann á báðum hliðum, stefnuljóskerum að framan og að aftan og miðjustandara.

4. gr.

IV. viðauki breytist þannig:

mgr. 1. kafla, sem er með fyrirsögninni "námskrár" orðast svo:

Ökunám skal fara fram samkvæmt námskrám fyrir hvern einstakan flokk ökuréttinda, A, B, C, D, A1, C1/D1, BE og C1E/D1E, CE/DE, M og T, svo og fyrir farþegaflutninga í atvinnuskyni fyrir flokkana B, D og D1.

5. gr.

Á eftir XI. viðauka kemur nýr viðauki, XII. viðauki, sem orðast svo:

XII. VIÐAUKI

Ríki sem fullnægja skilyrðum 3. mgr. 77. gr. til að skipta megi
erlendu ökuskírteini í íslenskt ökuskírteini án hæfnisprófs.

Ríki, sem ekki eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en fullnægja skilyrðum til þess að handhafi ökuskírteinis, sem gefið er út í viðkomandi ríki, megi skipta í íslenskt ökuskírteini án hæfnisprófs:

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 50., 52., 54., 57. og 60. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 25. mars 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica