1. gr.
Í stað 2. og 3. mgr. 26. gr. koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðist svo:
Umsækjandi, sem hefur ökunám frá og með 1. janúar 2010 fyrir flokk B og hefur ekki áður haft ökuskírteini fyrir þann flokk, skal æfa akstur í ökugerði, sbr. X. viðauka, og í samræmi við ákvæði í námskrá eða í skrikvagni (skidcar) í samræmi við ákvæði í námskrá.
Skrikvagn er grind á hjólum sem bifreið er fest ofan á og tengd við. Með handstýrðum búnaði má stilla grindina til að stjórna veggripi skrikvagnsins.
Æfingaakstur í ökugerði eða skrikvagni skal fara fram undir stjórn löggilts ökukennara og að jafnaði áður en umsækjandi lýkur ökunámi. Heimilt er að aksturinn fari fram á fyrstu þremur árum eftir að umsækjandi fær bráðabirgðaskírteini en þó áður en umsækjandi fær fullnaðarskírteini.
4., 5. og 6. mgr. 26. gr. verða 5., 6. og 7. mgr.
2. gr.
Í stað 4. mgr. 3. töluliðar í X. viðauka komi ný málsgrein sem orðist svo:
Í tengslum við æfingaakstur nemanda í ökugerði eða með skrikvagni skal vera fyrir hendi aðgangur að húsnæði eða annarri aðstöðu til fræðilegrar kennslu með þeim búnaði sem þarf, þar á meðal veltibíl og öryggisbeltasleða.
3. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 50., 52., 54., 57. og 60. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Samgönguráðuneytinu, 12. júní 2009.
Kristján L. Möller.
Ragnhildur Hjaltadóttir.