Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

24/1992

Reglugerð um varðveislu og umbúnað skjala við lögbókandagerðir

1. gr.

Lögbókandi skal varðveita samhljóða afrit af hverju skjali sem hann staðfestir, með vottorði sínu og undirritun hlutaðeigandi.

Með samritum skjala skulu einnig geymd eintök þeirra sönnunargagna sem lögbókanda hafa verið fengnar auk þýðinga skjala á erlendum tungumálum, ef um það er að ræða.

2. gr.

Afrit skjala sem lögbókandi staðfestir skulu árituð um dagsetningu á móttöku og númeruð í óslitinni töluröð fyrir hvert ár eftir því sem gerðirnar fara fram.

Lögbókandi skal færa númer skjala og nöfn hlutaðeigandi í sérstaka skrá eða bók fyrir hvert ár í sömu röð og gerðir fara fram.

Afrit skjala sem lögbókandi staðfestir og sönnunargögn með þeim skulu varðveitt í lausblaðabók eða skjalahylki í þeirri röð sem gerðir fara fram.

3. gr.

Lögbókanda er heimilt að varðveita samrit erfðaskráa sem staðfestar eru fyrir honum aðskilið frá öðrum skjölum sem hann staðfestir.

4. gr.

Á hverju sýslumannsembætti skal haldin gerðabók lögbókanda þar sem hann færir frásögn sína af atburðum eða athöfnum sem hann staðfestir.

Gerðabók skal vera með tölusettum blaðsíðum og árituð af sýslumanni á tiltilsíðu að hún sé ætluð til afnota fyrir lögbókandagerðir.

Í stað gerðabókar samkvæmt 1. mgr. er heimilt að vélrita eða prenta úr tölvu á laus blöð frásögn af atburðum eða athöfnum sem lögbókandi staðfestir. Slík blöð skulu undirrituð af lögbókanda og tölusett í óslitinni töluröð innan hvers árs og varðveitt í lausblaðabókum eða skjalahylkjum.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 11. gr. laga um lögbókandagerðir nr. 86 1. júní 1989, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 13. janúar 1992.

Þorsteinn Pálsson.

Þorsteinn A. Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica