Viðskiptaráðuneyti

1060/2004

Reglugerð um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Hlutverk.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins starfar á sviði áhættufjármögnunar og er hlutverk hans að stuðla að þróun og vexti íslensks atvinnulífs með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins gegnir hlutverki sínu með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar, með hlutafjárþátttöku og lánum með breytirétti í hlutafé. Einnig getur sjóðurinn tekið þátt í fjármögnun verkefna sem lúta að rannsóknum og úrbótum á starfsumhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja á Íslandi.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins getur lagt fram hlutafé, veitt lán, ábyrgðir eða styrki.


2. gr.
Stefna.

Stefna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að fjárfesta í fyrirtækjum sbr. 1. gr. þar sem vænta má mikils virðisauka og arðsemi af starfseminni og góðrar ávöxtunar fyrir sjóðinn. Hagnaði Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verður varið til uppbyggingar sjóðsins, frekari fjárfestingar í vænlegum nýsköpunarfyrirtækjum og rannsókna og úrbóta á starfsumhverfi þeirra.


3. gr.
Starfsemi.

Starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skiptist í fjóra hluta:

1. Stofnsjóður: Í stofnsjóði Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er eigið fé sjóðsins eins og það er varðveitt og ávaxtað á hverjum tíma. Tekjum af ávöxtun og öðru ráðstöfunarfé er varið til almennrar starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Undir stofnsjóð heyrir allur almennur rekstur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, deilda hans og sjóða.
2. Framtakssjóður: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur með höndum umsjón og eftirlit með ráðstöfun eins milljarðs króna, sem ríkissjóður lagði til Framtakssjóðs en samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 61/1997 sbr. lög nr. 92/2004 var ákveðið að andvirði sjóðsins renni í stofnsjóð innan tíu ára frá útboði á vörslu fjárins.
3. Vöruþróunar- og markaðsdeild - VÖMA: Deildin veitir framlög til vöruþróunar- og markaðsaðgerða. Verkefnisstjórn VÖMA ráðstafar fé deildarinnar og getur í samráði við stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins ákveðið að árlegt ráðstöfunarfé sé ekki bundið við ávöxtun höfuðstóls deildarinnar. Kveðið er á um starfsemi deildarinnar í reglum sem stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins setur og viðskiptaráðherra staðfestir.
4. Samstarfssjóðir með öðrum fjárfestum: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur heimild skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 61/1997 sbr. 2. gr. laga nr. 92/2004 til að leggja fé úr stofnsjóði í samstarfssjóði með öðrum fjárfestum allt að 30%.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins annast einnig rekstur tryggingardeildar útflutnings - TRÚ. Deildinni er ætlað að veita tryggingar og ábyrgðir til þess að efla íslenskan útflutning vöru og þjónustu, auka íslenskar fjárfestingar erlendis, þátttöku í verklegum framkvæmdum erlendis og þátttöku í stærri verklegum framkvæmdum hérlendis. Nánar er kveðið á um starfsemi deildarinnar í starfsreglum sem stjórnarnefnd TRÚ setur og fjármálaráðherra samþykkir.

VÖMA og TRÚ skulu aðgreind í bókhaldi og reikningum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Er þeim ætlað að standa undir kostnaði við rekstur sinn, og greiða stofnsjóði Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins fjárhæð er samsvarar rekstrarkostnaði. Stofnsjóði er óheimilt að bera nokkurn kostnað af þessari starfsemi.


II. KAFLI
Stjórnun og rekstur.
4. gr.
Ábyrgð og hlutverk stjórnar.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skiptir með sér verkum og ákveður starfshætti sína og fundahöld. Skylt er að halda fund þegar a.m.k. tveir stjórnarmenn óska þess. Fundur er ályktunarhæfur ef þrír stjórnarmanna sækja fund. Að jafnaði skal boða fund með viku fyrirvara. Halda skal gerðabók.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins annast m.a. eftirfarandi verkefni:

1. Hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins í samræmi við lög og reglur, mótar stefnu sjóðsins og fylgist með starfsemi hans og rekstri.
2. Ráðning framkvæmdastjóra.
3. Setur almennar starfsreglur fyrir sjóðinn og leitar staðfestingar ráðherra á þeim.
4. Mótar fjárfestingarstefnu sjóðsins.
5. Tekur ákvörðun um hlutafjárkaup, lánveitingar, verkefnafjármögnun og ábyrgðir. Stjórnin ákveður tryggingar og lánskjör að fengnum tillögum frá framkvæmdastjóra.
6. Stjórn sjóðsins getur veitt framkvæmdastjóra heimild til að taka ákvarðanir um hlutafjárþátttöku, veitingu lána, og til verkefnafjármögnunar innan tiltekinna marka og eftir nánari reglum sem stjórnin setur. Slíkar heimildir skulu koma fram í starfsreglum sjóðsins og/eða í bókunum stjórnar.
7. Samþykkir rekstrar- og nýsköpunaráætlun til árs í senn að fengnum tillögum frá framkvæmdastjóra.
8. Tekur lokaákvörðun um allar meiriháttar aðgerðir.
9. Tekur ákvörðun um starfsmannastefnu að fengnum tillögum frá framkvæmdastjóra.
10. Ákveður að fengnum tillögum frá framkvæmdastjóra lántökur og leiðir til ávöxtunar á eigin fé sjóðsins.


5. gr.
Ábyrgð og hlutverk framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri fer með daglegan rekstur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins samkvæmt umboði stjórnar og ber ábyrgð á rekstri og fjárreiðum sjóðsins. Framkvæmdastjóri skal upplýsa stjórn sjóðsins um mikilvæg málefni sjóðsins, framfylgja ákvörðunum stjórnar og tryggja að starfsemin fari að lögum og reglum. Stjórn sjóðsins getur veitt framkvæmdastjóra heimild til að taka ákvarðanir um veitingu lána, ábyrgða eða styrkja innan tiltekinna marka.


III. KAFLI
Fjárfestingarverkefni.
6. gr.
Tegundir fjárfestingarverkefna.

Fjárfestingarverkefni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins eru eftirfarandi:
Innlend fjárfestingarverkefni. Með því er átt við innlend verkefni sem fela í sér nýjungar eða ný vaxtatækifæri.

Fjárfestingar innlendra aðila erlendis. Með því er átt við fjárfestingu innlendra fyrirtækja eða einstaklinga í starfandi fyrirtækjum eða nýjum atvinnurekstri erlendis.

Fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Með því er átt við atvinnurekstur hér á landi með umtalsverðri eignaraðild erlendra fyrirtækja eða einstaklinga og þátttöku þeirra í stjórnun rekstrarins.


7. gr.
Tegund fjármögnunar.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjármagnar fjárfestingarverkefni með hlutafjárframlagi, þ.e. kaupum á hlutabréfum. Við kaup á hlutafé skal meginreglan vera sú að gerður er hluthafasamningur.

Þegar ekki er talið mögulegt að mati stjórnar sjóðsins að taka þátt í verkefni með hlutafjárkaupum, eða sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, er sjóðnum heimilt að veita sérstök lán, svo sem lán með breytirétti í hlutafé eða lán með kauprétti hlutafjár. Skal þá gera sérstakan lánssamning þar sem meðal annars skal kveðið á um hlutdeild sjóðsins í ávöxtun af viðkomandi fjárfestingu, hugsanlegar tryggingar og um rétt sjóðsins til eftirlits og/eða stjórnunarlegra áhrifa.

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita ábyrgðir eða lán til þeirra fyrirtækja þar sem sjóðurinn hefur þegar fjárfest enda sé það liður í sameiginlegri ákvörðun meðfjárfesta um slíka fjármögnun. Slíkar ábyrgðir skal veita gegn gjaldi sem tekur mið af áhættu sjóðsins í verkefninu. Í samningum um ábyrgðarveitingar er heimilt að kveða á um rétt sjóðsins til eftirlits.


8. gr.
Stærðarmörk fjármögnunar.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal miða við að verja ekki hærri fjárhæð en sem nemur 10% af eigin fé stofnsjóðs til fjármögnunar einstaks verkefnis og ekki hærri fjárhæð en sem nemur 15% til fjárfestingarverkefna á vegum eins aðila eða tengdra aðila.

Hlutdeild sjóðsins í fjármögnun hvers verkefnis skal ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur 49% af heildarfjármögnun viðkomandi verkefnis. Heimilt er við sérstakar aðstæður að víkja frá þessu skilyrði, en svo fljótt sem aðstæður leyfa skal minnka hlutinn þannig að hann verði innan settra marka.

Hlutdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í fjármögnun hvers verkefnis skal að öðru jöfnu miðast við að sjóðurinn fái stjórnunarleg áhrif.


IV. KAFLI
Styrkir.
9. gr.
Hámark styrkja.

Nýti Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins heimildir til þess að veita styrki er honum skylt að fara að þeim reglum sem gilda um slíka styrki samkvæmt EES-samningnum.

Styrkir sem veittir eru einstökum aðila mega ekki nema hærri fjárhæð samanlagt á hverju þriggja ára tímabili en jafngildir 100.000 EUR, að meðtalinni fjárhæð annarrar fjárhagslegrar aðstoðar sem viðkomandi aðili kann á sama tímabili að hafa fengið frá öðrum opinberum aðilum á grundvelli lágmarksreglunnar (de minimis reglunnar) samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um málsmeðferð og efni reglna á sviði ríkisaðstoðar, og að teknu tilliti til frekari takmarkana á veitingu opinberrar aðstoðar á grundvelli lágmarksreglunnar samkvæmt ákvæðum fyrrgreindrar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA sem í gildi eru á hverjum tíma.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur Nýsköpunarsjóður þegar sérstaklega stendur á veitt einstökum aðilum hærri styrki en þar greinir, enda uppfylli slíkar styrkveitingar ákvæði fyrrgreindrar ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA sem í gildi eru á hverjum tíma um aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki, aðstoð við rannsóknir og þróunarverkefni eða um aðra tegund aðstoðar, allt eftir því sem við á í hverju tilviki.

Nýsköpunarsjóði er óheimilt að veita fyrirtækjum bjargráðaaðstoð eins og hún er skilgreind í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um málsmeðferð og efni reglna á sviði ríkisaðstoðar sem í gildi er á hverjum tíma, nema slíkt samræmist ákvæðum hennar.


IV. KAFLI
Eigið fé stofnsjóðs.
10. gr.
Afskriftareikningur.

Fyrir Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins skal halda afskriftareikning samkvæmt góðri reikningsskilavenju og eftir mati á áhættu þannig að efnahagsreikningurinn gefi á hverjum tíma sem raunhæfasta mynd af fjárhagsstöðunni. Samhliða ákvörðunum um hlutafjárþátttöku, lánveitingar og ábyrgðir skal ákveða framlög á afskriftareikninginn. Fjárhæðirnar sem bætt er við afskriftareikninginn skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er að mati stjórnar.

Til verkefna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins má ekki verja hærri upphæð en svo að afskriftir vegna verkefnanna rúmist innan ramma rekstraráætlunar.


11. gr.
Afskriftamat.

Við mat á framlagi í afskriftareikning skal taka tillit til hvort um hlutafjárþátttöku eða lán er að ræða, tapshættu vegna atvinnugreina, fjárhagsstöðu samstarfsaðila og samninga að öðru leyti.

Við mat á afskriftum er Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins heimilt að miða við reynslu hliðstæðrar starfsemi hérlendis og í nágrannalöndum. Í þessu skyni skal vinna líkan sem m.a. sýnir endurheimtuferli hlutafjárþátttöku. Endurmeta skal framlög á afskriftareikning á sex mánaða fresti.

Hlutafé eða lán skal færa sem endanlega tapað þegar eitthvert eftirtalinna skilyrða eru uppfyllt:

1. Við lok gjaldþrotaskipta.
2. Við skuldaeftirgjöf eða niðurfærslu hlutafjár eða skulda.
3. Þegar sjóðurinn hefur tekið ákvörðun um lok innheimtu.
4. Þegar ljóst má vera að eign eða krafa er endanlega töpuð.


12. gr.
Ávöxtun eigin fjár.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leitar allra leiða til að ávaxta eigið fé sitt á sem árangursríkastan hátt og hámarka þannig árlegt ráðstöfunarfé sjóðsins.


13. gr.
Fjárfestingarstefna.

Við ávöxtun eigin fjár, sem ekki er ráðstafað til fjárfestingarverkefna, skal gætt að eðlilegri áhættudreifingu í eignasamsetningu.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfestir einungis í framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.

Sjóðurinn fjárfestir ekki fyrir meira en 10% af eignum sínum í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda. Þrátt fyrir þetta getur hann þó fjárfest fyrir allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast.

Sjóðurinn fjárfestir ekki fyrir meira en 10% hlutafjár í einstökum hlutafélögum á almennum hlutabréfamarkaði og ekki fyrir meira en 25% hlutafjár í einstökum hlutabréfasjóðum.


14. gr.
Varðveisla stofnfjár.

Í árslok 2007, þegar liðin eru 10 ár frá stofnun Nýsköpunarsjóðs, skal miða við að upphafleg krónutala stofnfjár sé óskert. Varðveisla stofnfjárins skal miðuð við vísitölu neysluverðs frá þeim tíma.


V. KAFLI
Gildistaka o.fl.
15. gr.
Starfsreglur.

Stjórn Nýsköpunarsjóðs setur starfsemi sjóðsins nánari starfsreglur sem ráðherra staðfestir og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda.


16. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 18. gr. laga nr. 61/1997 um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 2005 og jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 769/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, með síðari breytingum.


Viðskiptaráðuneytinu, 23. desember 2004.

Valgerður Sverrisdóttir.
Kristján Skarphéðinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica