Viðskiptaráðuneyti

437/2001

Reglugerð um breytingar á reglugerð nr. 131/2001, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. - Brottfallin

1. gr.

Í stað "7. gr." í 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. kemur: 8. gr.


2. gr.

Fyrirsögn og efni 7. gr. breytist og verður svohljóðandi:

Framkvæmd endurgreiðslu.

Áður en endurgreiðsla fer fram skal endurskoðandi félags, útibús eða umboðsskrifstofu, sbr. c-lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar, staðfesta að framleiðslu, sem myndar grunn endurgreiðslu, sé lokið og að kostnaðaruppgjör sé endanlegt, þó að teknu tilliti til væntanlegrar endurgreiðslu skv. reglugerð þessari. Færa skal ákvarðaða endurgreiðslu sem tekjur í bókhaldi félags, útibús eða umboðsskrifstofu en ekki til lækkunar á gjaldfærðum kostnaði. Innan 6 mánaða frá því að endurgreiðsla á sér stað skal félagi slitið og útibúi eða umboðsskrifstofu lokað. Að fenginni endurgreiðslu frá Ríkisféhirði og þegar félagi hefur verið slitið og útibúi eða umboðsskrifstofu verið lokað skal senda iðnaðarráðuneytinu loka efnahags- og rekstrarreikning ásamt staðfestingu á slitum eða lokun.

Breytingar sem verða á efnahags- og rekstrarreikningi, eða á staðfestu kostnaðaruppgjöri, frá því að endurgreiðsla var innt af hendi og þangað til að loka efnahags- og rekstrarreikningur hafa verið sendir ráðuneytinu, kunna að leiða til þess að endurgreiðsluþegi verði krafinn um endurgreiðslu, nema fyrir liggi orsakir sem nefnd skv. 4. gr. laga nr. 43/1999 samþykkir.


3. gr.

Fyrirsögn og efni 8. gr. breytist og verður svohljóðandi:

Frestun endurgreiðslu.

Fjárhæð endurgreiðslna samkvæmt reglugerð þessari er háð fjárveitingum Alþingis eins og fram kemur í fjárlögum hverju sinni. Iðnaðarráðherra hefur heimild til að fresta endurgreiðslum, sbr. 7. gr., sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni. Séu samþykktar endurgreiðslur á fjárlagaárinu umfram fjárveitingar er ráðherra heimilt að fresta endurgreiðslu, annað hvort að öllu leyti eða að hluta til, yfir á næsta fjárlagaár.


4. gr.

Reglugerð þessi tekur þegar gildi.


Viðskiptaráðuneytinu, 13. júní 2001.

Valgerður Sverrisdóttir.
Kjartan Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica