Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 9. júní 2023

505/1993

Reglugerð um almennt útboð verðbréfa

1. gr.

Almennt útboð telst útboð samkynja verðbréfa sem boðin eru almenningi til kaups með almennri og opinberra auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti sem jafna má til opinberrar auglýsingar. Með samkynja verðbréfum er átt við fleiri en eitt bréf í flokki bréfa, þar með talinna hlutabréfa, þar sem öll helstu einkenni flokksins eru hin sömu, þar á meðal nafn útgefanda (skuldara), fyrsti vaxtadagur og endurgreiðslu-, vaxta- og uppsagnarákvæði, eftir því sem við getur átt.

2. gr.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

  1. Útboð þar sem eitt eða fleiri eftirtalinna tilvika eiga við:

    1. Hlutabréf eða samvinnuhlutabréf eru einungis boðin forgangsréttarhöfum í félagi og hömlur eru lagðar á viðskipti með bréfin.
    2. Verðbréf eru boðin tilgreindum afmörkuðum hópi aðila, án auglýsingar eða kynningar sbr. 1. gr., enda sé hópurinn ekki stærri en 25 aðilar.
    3. Áætlað heildarsöluverð verðbréfanna nemur ekki meiru en 5.000.000 kr.
    4. Hver fjárfestir þarf að reiða af hendi að minnsta kosti 5.000.000 kr. til kaupa á verðbréfunum.
  2. Verðbréf af eftirfarandi gerðum:

    1. Verðbréf sem gefin eru út að áætluðu markaðsverði að minnsta kosti 5.000.000 kr. hvert.
    2. Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða með starfsleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins
    3. Verðbréf sem gefin eru út í tengslum við yfirtökutilboð.
    4. Verðbréf sem gefin eru út í tengslum við samruna fyrirtækja.
    5. Jöfnunarhlutabréf og önnur hlutabréf sem hluthafar fá afhent án endurgjalds.
    6. Hlutabréf eða verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa ef þau eru boðin í skiptum fyrir hlutabréf í sama félagi, ef boðið á hinum nýju verðbréfum hefur ekki í för með sér hækkun á hlutafé í félaginu.
    7. Verðbréf sem vinnuveitandi eða fyrirtæki tengt honum býður eingöngu núverandi eða fyrrverandi fastráðnum starfsmönnum sínum, eða verðbréf sem boðin eru fram í þágu þeirra.
    8. Verðbréf sem til eru komin vegna breytingar á breytilegum skuldabréfum eða vegna þess að neytt er réttinda sem kaupréttur að hlut veitir, svo og hlutabréf sem boðin eru í skiptum fyrir skiptanleg skuldabréf enda hafi útboðs- eða skráningarlýsing á hinum breytilegu eða skiptanlegu skuldabréfum, eða þeim skuldabréfum sem kaupréttur að hlut fylgir, verið gefin út á Íslandi.
    9. Verðbréf sem gefin eru út af lögaðilum sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni í þeim tilgangi að afla fjár til framdráttar markmiðum sínum, sem ekki lúta að hag sjálfra lögaðilanna.

3. gr.

Útboðstímabil er að hámarki sex mánuðir, nema stjórn Verðbréfaþings heimili annað, og skal tilgreint í útboðslýsingu.

4. gr.

Allar upphæðir í reglugerð þessari breytast í samræmi við breytingu á skráðu opinberu viðmiðunargengi (kaupgengi) Seðlabanka Íslands á evrópskri mynteiningu (ECU) frá því sem var þann 1. júlí 1993, 81,60 kr.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 38. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 9/ 1993, öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um almennt útboð verðbréfa, nr. 328/1993.

Um gerð útboðsgagna og aðdraganda útboðs gilda reglur sem stjórn Verðbréfaþings Íslands setur. Um fyrsta söludag einstakra útboða gilda reglur sem Seðlabanki Íslands setur.

Viðskiptaráðuneytið, 14. desember 1993.

Sighvatur Björgvinsson.

Páll Ásgrímsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.