Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

41/1996

Reglugerð um starfsemi verkstæða með B-faggildingu til prófunar á ökuritum.

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi verkstæða sem hafa fengið B-faggildingu frá Löggildingarstofunni til prófunar á ökuritum. Hún byggir á ákvæðum í reglugerð um prófun á ökuritum og tekur mið af ákvæðum í ÍST EN 45000 staðlaröðinni.

Faggilding á prófunarverkstæðum er takmörkuð að því leyti að verkstæðin þurfa ekki að fullnægja öllum skilyrðum sem gilda við hefðbundna faggildingu og nefnist því B-faggilding.

2. gr.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:

Prófunarverkstæði: Verkstæði sem hlotið hefur B-faggildingu á sviði prófana á ökuritum og uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar og reglugerðar um prófun á ökuritum.

B-faggilding: Aðferð sem Löggildingarstofan beitir til að veita formlega viðurkenningu á því að prófunarverkstæði búi yfir nægjanlegri hæfni til að starfa skv. ákvæðum reglugerðar þessarar.

Tæknilegur stjórnandi: Yfirmaður á prófunarverkstæði sem ber tæknilega ábyrgð á því að prófanir séu framkvæmdar í samræmi við settar reglur og að öllum kröfum um B-faggildingu sé fullnægt.

Prófunarmaður: Starfsmaður prófunarverkstæðis sem uppfyllir skilyrði reglugerðar um prófun á ökuritum um hæfniskröfur og annast prófanir á ökuritum og tengdum búnaði.

Umfang.

3. gr.

Faggildingarsvið til prófunar á ökuritum eru eftirfarandi:

  1. Prófun við viðgerð á ökuritum
  2. Prófun við ísetningu ökurita
  3. Prófun við skoðun.

Reglur um stjórnun.

4. gr.

Á prófunarverkstæði skal starfa maður sem er tæknilega ábyrgur fyrir því að prófun sé gerð samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar og öðrum þeim reglum sem um starfsemi þessa fjalla. Starfsmaðurinn skal vera fastráðinn, heyra beint undir yfirstjórn verkstæðisins og hafa viðhlítandi starfsréttindi og reynslu.

Prófunarverkstæði skal hafa skjalfesta lýsingu á þeirri starfsemi sinni sem faggilt er.

Sjálfstæði og ráðvendni.

5. gr.

Við prófun má prófunarmaður ekki þiggja afkastahvetjandi laun eða hliðstæðar greiðslur eða hafa fjárhagslegan ávinning af niðurstöðum prófana eða á annan hátt vera háður niðurstöðum prófana.

Prófunarverkstæði skal tryggja að utanaðkomandi aðilar hafi engin áhrif á niðurstöður prófana.

Gæðakerfi.

6. gr.

Prófunarverkstæði skal vegna prófunarstarfsemi sinnar hafa skýra stefnu í gæðamálum og beita virku gæðakerfi sem skjalfest er í gæðahandbók.

Tæknileg hæfni.

Tæknilegur stjórnandi og prófunarmaður.

7. gr.

Tæknilegur stjórnandi og skoðunarmaður skulu hafa nægilega tæknikunnáttu í þeim viðgerðum og prófunum sem prófunarverkstæðið annast. Þeir skulu auk þess kunna skil á reglum dómsmálaráðuneytisins er varða prófun á ökuritum og uppfylla hæfniskröfur í reglugerð um prófun á ökuritum.

Prófunarverkstæðið skal halda skrá yfir þá starfsmenn sem annast prófun á ökuritum. Í skránni skulu vera upplýsingar um grunnmenntun, þjálfun, tæknilega þekkingu og reynslu sérhvers starfsmanns.

Aðstaða og tækjabúnaður.

8. gr.

Prófunarverkstæði skal vera í húsnæði og hafa aðstöðu sem hentar til prófunar á ökuritum. Húsnæði skal að öðru leyti uppfylla allar reglur opinberra aðila um heilbrigðis- og öryggismál.

9. gr.

Prófunarverkstæði skal hafa yfir að ráða tækjakosti í samræmi við ákvæði í reglugerð um prófun á ökuritum.

Prófunarverkstæði skal ábyrgjast að búnaður sem notaður er við skoðun, fái viðhald og umhirðu samkvæmt skriflegri áætlun prófunarverkstæðisins.

Prófunarverkstæði skal skrá tæki sem notuð eru við prófun ökurita með upplýsingum um kvörðun og viðhald eftir því sem við á. Tæki sem verkstæðið tekur í notkun skulu kvörðuð og síðan endurkvörðuð eftir föstu skipulagi eftir því sem við á.

Prófunarverkstæði skal hafa reglur um kvörðun tækja og skal þeim reglum beitt þannig að mælingar sem gerðar eru megi rekja til mæligrunna ef unnt er og þegar þurfa þykir.

Mælitæki skulu athuguð milli reglubundinna kvarðana skv. skriflegri áætlun prófunarverkstæðisins.

Prófunarverkstæði skal taka biluð tæki úr notkun. Áhrif bilunar á fyrri prófanir skulu athuguð og bætt úr þeim.

Tækjakostur sem notaður er við prófanir skal vera greinilega merktur.

Tækjakostur skal að öðru leyti uppfylla allar reglur opinberra aðila um heilbrigðis- og öryggismál.

Vinnuskipan.

Verklagsreglur.

10. gr.

Prófunarverkstæði skal útbúa eigin verklagsreglur um framkvæmd prófana og starfa samkvæmt þeim.

Ávallt skal sannreyna að réttan ökurita sé verið að prófa með því að bera saman númer ökuritans, vottorð um aðalskoðun, skráningarnúmer og verksmiðjunúmer ökutækisins.

Prófunarskýrslur.

11. gr.

Prófunarverkstæði skal skrá niðurstöður í prófunarskýrslu.

Prófunarskýrsla skal geyma upplýsingar um hver prófaði, niðurstöður prófunar svo og niðurstöður um mat á samræmi við reglur sem dómsmálaráðuneytið gefur út ásamt öðrum upplýsingum sem með þarf, þannig að unnt sé að skilja og túlka niðurstöður. Upplýsingar skulu gefnar villulausar, nákvæmar og skýrar. Ef skýrsla hefur að geyma niðurstöður frá undirverktaka skulu þær greinilega merktar.

Prófunarskýrsla skal einungis undirrituð af þeim prófunarmanni sem prófaði ökuritann.

Prófunarverkstæði skal senda afrit af prófunarskýrslu samdægurs til skráningaraðila.

Prófunarverkstæði skal tilgreina faggildingarnúmer sitt á prófunarskýrslu.

Skjalavistun.

12. gr.

Prófunarskýrsla og önnur gögn skulu vistuð á öruggum stað í a.m.k. sex ár eftir að prófun fór fram. Með þessum gögnum skal einnig vista niðurstöður frá undirverktökum. Prófunarverkstæði sem tekur að sér prófun ökurita, en felur undirverktaka hluta skoðunarinnar, ber ábyrgð á skýrslunni og prófuninni í heild. Einungis skal gefa út eina skýrslu fyrir hvern ökurita.

Skýrslur og önnur gögn skulu tiltæk og auðfinnanleg þegar Löggildingarstofan eða viðeigandi stjórnvald óskar þess.

Undirverktakar.

13. gr.

Prófunarverkstæði skal að öllu jöfnu sjálft annast þær prófanir sem gera skal, en er heimilt að fela undirverktaka hluta prófunarinnar, enda sé fyrirkomulag í samræmi við reglugerð um prófun ökurita.

Halda skal ítarlega skrá yfir undirverktaka ásamt lýsingu á faglegum tengslum prófunarverkstæðis og undirverktaka.

Kvartanir.

14. gr.

Prófunarverkstæði skal setja sér skriflegar verklagsreglur um hvernig það fer með kvartanir vegna prófunar. Verkstæðið skal halda skrá um allar kvartanir sem beinast að prófunarstarfseminni og hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar þeirra vegna.

Ýmis ákvæði.

15. gr.

Prófunarverkstæði skal:

  1. Á skýran hátt tilgreina á hvaða sviði það er faggilt.
  2. Því aðeins vísa til faggildingar sinnar í prófunarskýrslum að fram komi fyrir hvaða svið það er faggilt.
  3. Ekki gefa yfirlýsingu um faggildinguna sem telja má villandi eða fer út fyrir heimild þess.
  4. Reyna að tryggja að enginn noti prófunarskýrslur eða hluta úr þeim á villandi hátt.
  5. Veita það samstarf sem nauðsynlegt telst til þess að gera Löggildingarstofunni kleift að annast eftirlit.
  6. Þegar í stað hætta að vísa til faggildingar sinnar ef hún er felld úr gildi eða rennur út.
  7. Taka þátt í samráðsstarfsemi og samanburðarprófunum.

16. gr.

Prófunarverkstæði skal tilkynna faggildingardeild Löggildingarstofunnar skriflega og án tafar hverja þá breytingu sem getur haft áhrif á heimild verkstæðisins til þess að starfa samkvæmt fyrirmælum um faggildingu.

17. gr.

Faggilding gildir til allt að fimm ára og skal í síðasta lagi að þeim tíma liðnum fara fram mat á prófunarverkstæði, eins og um fyrsta mat sé að ræða. Löggildingarstofan gerir reglubundið eftirlit á árs fresti.

18. gr.

Ef prófunarverkstæði uppfyllir ekki almenn skilyrði um faggildingu, prófun er ófullnægjandi eða að prófunarmaður staðfestir prófun ranglega getur Löggildingarstofan þegar í stað krafist tafarlausra úrbóta af hálfu prófunarverkstæðis, ákveðið að breyta umfangi faggildingar eða ákveðið að afturkalla faggildingu.

Kostnaður sem af slíkri aðgerð hlýst, skal greiddur af prófunarverkstæðinu.

19. gr.

Kostnað við faggildingu, árlegt eftirlit o.fl. sem tilgreint er í gjaldskrá Löggildingarstofunnar skal prófunarverkstæðið greiða á gjalddaga.

20. gr.

Prófunarverkstæði skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingar.

Gildistaka.

21. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 12. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 22. janúar 1996.

F. h. r.
Þorkell Helgason.

Sveinn Þorgrímsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.