Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

151/2015

Reglugerð um vélknúin leiktæki.

I. KAFLI Gildissvið, markmið og orðskýringar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vélknúin leiktæki en þó ekki um smærri vélknúin leiktæki sem eingöngu eru ætluð börnum og börnin sjálf eða einhver sem með þeim er gangsetur, svo sem með mynt. Sérreglur þær er gilda að hluta eða öllu leyti um hættur sem fylgja vélknúnum leiktækjum ganga framar ákvæðum reglugerðar þessarar.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að öryggi fólks í tengslum við notkun vélknúinna leiktækja, svo sem starfsmanna sem starfa við þau, farþega og annarra sem kunna að vera í námunda við þau, til að koma í veg fyrir að slys á fólki eigi sér stað.

3. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er með vélknúnu leiktæki átt við tæki sem knúið er áfram með sérstökum búnaði, svo sem vélbúnaði, rafbúnaði eða tölvubúnaði auk þess sem tækið er ætlað börnum og/eða fullorðnum einstaklingum til leiks og/eða skemmtunar.

II. KAFLI Uppsetning, búnaður og merkingar.

4. gr. Leiðbeiningar um uppsetningu, viðhald og rekstur, þar á meðal notkun.

Sá sem flytur inn, selur eða afhendir vélknúið leiktæki skal sjá til þess að upphaflegar leiðbeiningar framleiðanda í tengslum við uppsetningu, viðhald og notkun fylgi með viðkomandi leiktæki, svo sem um:

  1. uppsetningu og niðurrif,
  2. stjórnun og öryggisbúnað,
  3. daglega reynslukeyrslu og könnun öryggisþátta sem og kerfisbundið eftirlit,
  4. stillingu og frágang á samsetningar- og festibúnaði, og
  5. kröfur til starfsmanna, meðal annars hvað varðar fræðslu og þjálfun.

Sá sem flytur inn, selur eða afhendir vélknúið leiktæki skal jafnframt sjá til þess að til sé íslensk þýðing á upphaflegum leiðbeiningum framleiðanda í tengslum við uppsetningu, viðhald og notkun viðkomandi leiktækis skv. 1. mgr. og skal koma skýrt fram í þýðingunni að um sé að ræða þýðingu á upphaflegum leiðbeiningum framleiðandans.

5. gr. Uppsetning og frágangur.

Uppsetning og frágangur vélknúinna leiktækja skal vera í samræmi við lög og reglugerðir sem og upphaflegar leiðbeiningar framleiðanda sem fylgja skulu með hverju leiktæki, sbr. 1. mgr. 4. gr.

Undirstöður vélknúinna leiktækja skulu vera traustar og öruggar og þannig frá þeim gengið að ekki sé hætta á að þær láti undan eða skekkist miðað við virkni viðkomandi leiktækis. Hið sama á við um undirlag vélknúinna leiktækja og skal undirlagið auk þess hafa eiginleika til dempunar þar sem það á við.

Vélknúin leiktæki skulu vera afgirt á þann hátt að starfsmönnum sem starfa við þau, farþegum eða öðru fólki sem kann að vera í námunda við þau geti ekki stafað hætta af þeim.

Vélknúin leiktæki skulu vera þannig gerð, uppsett og frá þeim gengið að farþegar geti farið um borð í þau, verið í þeim og farið úr þeim á öruggan hátt.

Leiðir fólks til og frá vélknúnum leiktækjum skulu vera afgirtar með girðingum. Ef um er að ræða palla á slíkum leiðum eða umhverfis leiktækin skulu þeir vera traustir og öruggir.

6. gr. Vélbúnaður og burðarvirki.

Vélbúnaður og burðarvirki vélknúinna leiktækja skulu vera traust og þola það álag sem þau geta orðið fyrir miðað við virkni viðkomandi leiktækis við óhagstæðustu skilyrði.

Hönnun vélknúinna leiktækja skal uppfylla kröfur í viðeigandi Evrópustöðlum (EN) eða öðrum viðeigandi stöðlum í þeim tilvikum þegar viðurkenndir Evrópustaðlar (EN) eru ekki fyrir hendi.

Við alla hreyfanlega hluta vélbúnaðar vélknúinna leiktækja skulu vera hlífar sé hætta á að þeir geti valdið slysum.

Meðan vélknúin leiktæki eru í notkun skal tryggt að ávallt séu nægar öryggisfjarlægðir frá þeim stöðum þar sem fólk er, svo sem farþegar í viðkomandi leiktæki eða starfsmenn sem starfa við það.

Sé brunahreyfill notaður til að knýja vélknúið leiktæki skal hann búinn góðum hljóðdeyfi auk þess sem tryggt skal að útblástur hans valdi ekki starfsmönnum sem starfa við viðkomandi leiktæki, farþegum eða öðru fólki sem kann að vera í námunda við leiktækið óþægindum eða heilsutjóni.

7. gr. Rafbúnaður.

Allur rafbúnaður vélknúinna leiktækja skal vera samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða um raforkuvirki.

Rofar í tengslum við rafbúnað vélknúinna leiktækja skulu vera þannig gerðir að ekki sé hætta á að óviðkomandi geti gangsett viðkomandi leiktæki eða að það verði gangsett í ógáti.

8. gr. Merkingar og leiðbeiningar.

Merkingar fyrir umferð fólks til og frá vélknúnum leiktækjum, svo sem starfsmanna sem starfa við þau, farþega eða annarra sem kunna að vera í námunda við slík leiktæki skulu vera greinilegar og auðskiljanlegar.

Við vélknúin leiktæki og í nágrenni þeirra skulu vera áberandi merkingar og leiðbeiningar um örugga notkun viðkomandi leiktækis, svo sem á sérstökum skiltum. Leiðbeiningar skulu vera á íslensku og með viðeigandi táknmyndum. Í leiðbeiningum skulu meðal annars koma fram eftirfarandi atriði eftir því sem við á:

  1. almenn fyrirmæli um örugga hegðun í og við viðkomandi leiktæki,
  2. takmarkanir á aðgengi fólks að viðkomandi leiktæki vegna aldurs hlutaðeigandi,
  3. takmarkanir á aðgengi fólks að viðkomandi leiktæki vegna hæðar hlutaðeigandi,
  4. aðrar viðeigandi takmarkanir á aðgengi að viðkomandi leiktæki en um getur í b- og c-lið, svo sem takmarkanir á aðgengi þungaðra kvenna eða einstaklinga sem eiga við heilsubrest að stríða,
  5. fyrirmæli til farþega um meðferð þeirra á lausum munum í og við viðkomandi leiktæki,
  6. upplýsingar um þá þætti sem valdið geta hættu í og við viðkomandi leiktæki, svo sem í tengslum við hár og fatnað farþega þess sem og lausa muni sem þeir hafa meðferðis auk fyrirmæla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að farþegar festist í viðkomandi leiktæki vegna slíkra þátta.

Við gerð leiðbeiningaskilta skal meðal annars tekið mið af leiðbeiningum framleiðanda viðkomandi leiktækis, svo sem um takmarkanir á aðgengi fólks að leiktækinu, reglum um öryggis- og heilbrigðismerkingar á vinnustöðum, viðurkenndum stöðlum sem og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins.

III. KAFLI Skyldur atvinnurekanda og skyldur eiganda.

9. gr. Rekstur, þar á meðal notkun, og ábyrgð.

Atvinnurekandi er ábyrgur fyrir því að uppsetning, búnaður, frágangur sem og viðhald, breytingar, og rekstur, þar á meðal notkun, vélknúins leiktækis sé í samræmi við lög og reglugerðir sem og upphaflegar leiðbeiningar framleiðanda sem fylgja skulu með hverju leiktæki, sbr. 1. mgr. 4. gr. Hið sama á við um merkingar og leiðbeiningar í tengslum við vélknúið leiktæki sem er í notkun.

Atvinnurekandi skal meðal annars:

  1. tilkynna Vinnueftirliti ríkisins með skriflegum hætti um uppsetningu vélknúins leiktækis sem og um meiriháttar breytingar á áður uppsettu leiktæki, þar á meðal ef það hefur verið fært úr stað, áður en notkun á viðkomandi leiktæki hefst þannig að skoðun eftirlitsmanns stofnunarinnar geti farið fram, sbr. 15. gr.,
  2. hafa yfirumsjón með rekstri, þar á meðal notkun viðkomandi leiktækis,
  3. sjá til þess að starfsmenn sem starfa við viðkomandi leiktæki fái fullnægjandi kennslu í að framkvæma störf sín á réttan og öruggan hátt,
  4. sjá til þess að uppsetning, rekstur, þar á meðal notkun, og niðurrif viðkomandi leiktækis sé í samræmi við lög og reglugerðir sem og upphaflegar leiðbeiningar framleiðanda þar að lútandi sem fylgja skulu með hverju leiktæki, sbr. 1. mgr. 4. gr.,
  5. sjá til þess að ábyrgðartrygging sé ávallt í gildi vegna viðkomandi leiktækis,
  6. framkvæma og skrá daglega reynslukeyrslu hvers vélknúins leiktækis án farþega sem og könnun á öryggisþáttum í tengslum við leiktækið áður en notkun viðkomandi leiktækis hefst hvern dag sem það er í notkun,
  7. sjá til þess að viðkomandi leiktæki sé haldið við, það þjónustað, skoðað og lagfært eins og við á, meðal annars í samræmi við gildandi staðla og fyrirmæli framleiðanda leiktækisins sem fram koma í upphaflegum leiðbeiningum framleiðanda sem fylgja skulu með hverju leiktæki, sbr. 1. mgr. 4. gr.,
  8. sjá til þess að viðeigandi gögn fylgi viðkomandi leiktæki og að þau séu aðgengileg, svo sem íslensk þýðing á upphaflegum leiðbeiningum framleiðanda, sbr. 2. mgr. 4. gr.,
  9. halda rekstrardagbók og viðhaldsskrá viðkomandi leiktækis, sbr. 11. gr.,
  10. tilkynna Vinnueftirliti ríkisins með skriflegum hætti og án ástæðulausrar tafar um slys eða óhöpp í eða við viðkomandi leiktæki,
  11. tilkynna Vinnueftirliti ríkisins með skriflegum hætti um nýjan atvinnurekanda komi til þess að nýr atvinnurekandi taki ábyrgð á rekstri viðkomandi leiktækis, þar á meðal notkun þess og
  12. tilkynna um það með skriflegum hætti til Vinnueftirlits ríkisins ef notkun viðkomandi leiktækis, sem verið hefur í notkun, hefur verið hætt.

10. gr. Áhættumat.

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, vegna notkunar vélknúins leiktækis. Skal áætlunin meðal annars fela í sér mat á áhættu, sbr. 65. gr. a sömu laga og áætlun um heilsuvernd sbr. 66. gr. sömu laga. Við gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði skal meðal annars horft til þátta er snúa að öryggi starfsmanna sem starfa við viðkomandi leiktæki, farþega og annarra sem kunna að vera í námunda við vélknúin leiktæki, eftir því sem við á.

11. gr. Rekstrardagbók og viðhaldsskrá.

Atvinnurekandi skal halda rekstrardagbók og viðhaldsskrá fyrir sérhvert vélknúið leiktæki, sbr. i-lið 2. mgr. 9. gr., þar sem meðal annars skal koma fram:

  1. tímasetning notkunar og fjöldi notkunartíma viðkomandi leiktækis,
  2. staðfesting á því að dagleg reynslukeyrsla sem og könnun á öryggisþáttum viðkomandi leiktækis hafi farið fram,
  3. hvaða skoðanir sem og viðgerðir eru framkvæmdar á viðkomandi leiktæki og
  4. öll óhöpp og óvenjuleg atvik í tengslum við notkun viðkomandi leiktækis.

12. gr. Eigendaskipti.

Tilkynna skal um eigendaskipti að vélknúnu leiktæki til Vinnueftirlits ríkisins á þar til gerðu eyðublaði sem bæði fyrri eigandinn sem og nýi eigandinn skulu undirrita ásamt vottum.

IV. KAFLI Eftirlit Vinnueftirlits ríkisins.

13. gr. Almennt.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

14. gr. Skráning Vinnueftirlits ríkisins.

Vinnueftirlit ríkisins skal halda skrá yfir vélknúin leiktæki þar sem meðal annars eru skráðar allar tilkynningar um fyrirhugaða notkun vélknúins leiktækis, uppsetningu vélknúinna leiktækja sem og um meiriháttar breytingar á áður uppsettu leiktæki, þar á meðal ef það hefur verið fært úr stað, og ef notkun vélknúins leiktækis hefur verið hætt. Jafnframt skal koma fram gerð viðkomandi leiktækis sem og búnaður sem því fylgir. Auk þess skal koma fram nafn eiganda viðkomandi leiktækis sem og hlutaðeigandi atvinnurekanda sem ber ábyrgð á rekstri leiktækisins, þar á meðal notkun þess, ef atvinnurekandinn er annar en eigandi leiktækisins, sem og aðrar þær upplýsingar sem Vinnueftirlitið telur nauðsynlegar í því skyni að stofnuninni verði unnt að meta hvort þörf er á að stofnunin viðhafi skoðun á viðkomandi leiktæki. Þá skal Vinnueftirlit ríkisins halda skrá yfir slys eða óhöpp í eða við vélknúin leiktæki sem tilkynnt eru til stofnunarinnar.

15. gr. Skoðanir Vinnueftirlits ríkisins.

Svo lengi sem vélknúið leiktæki er í notkun skal Vinnueftirlit ríkisins skoða það í reglubundnum eftirlitsheimsóknum eftirlitsmanns stofnunarinnar og eigi sjaldnar en með tólf mánaða millibili.

Skal Vinnueftirlitið skoða nýtt vélknúið leiktæki eða eldra vélknúið leiktæki sem framkvæmdar hafa verið meiriháttar breytingar á, þar á meðal hafi það verið fært úr stað, eins fljótt og unnt er eftir að tilkynning hefur borist stofnuninni um fyrirhugaða notkun á slíku leiktæki nema Vinnueftirlit ríkisins telji slíka skoðun óþarfa.

Vinnueftirlit ríkisins skal skoða vélknúið leiktæki berist stofnuninni tilkynning um að slys eða óhapp hafi átt sér stað í eða við viðkomandi leiktæki.

Þegar skoðun eftirlitsmanns Vinnueftirlits ríkisins fer fram skal eftirfarandi meðal annars liggja fyrir:

  1. Staðfesting á því að ábyrgðartrygging vegna viðkomandi leiktækis sé í gildi.
  2. Viðeigandi merkingar og leiðbeiningar fyrir viðkomandi leiktæki, sbr. 8. gr.
  3. Rekstrardagbók og viðhaldsskrá fyrir viðkomandi leiktæki, sbr. 11. gr.

Við skoðun á vélknúnum leiktækjum getur eftirlitsmaður Vinnueftirlits ríkisins í eftirlitsheimsóknum sínum gert kröfu um að atvinnurekandi afli sér vottorða varðandi ástand einstakra hluta viðkomandi leiktækis frá aðila sem hefur sérþekkingu á því sviði sem um ræðir hverju sinni. Komi í ljós við skoðun á vélknúnu leiktæki í eftirlitsheimsókn eftirlitsmanns Vinnueftirlits ríkisins að viðkomandi leiktæki eða búnaður þess uppfyllir ekki skilyrði laga eða reglugerðar þessarar eða ef ekki hefur verið farið eftir upphaflegum leiðbeiningum framleiðanda með viðkomandi leiktæki er Vinnueftirliti ríkisins heimilt að banna notkun leiktækisins, sé notkun ekki hafin, eða stöðva notkun þess, sé notkun þegar hafin, þar til bætt hefur verið úr þeim annmörkum sem við eiga hverju sinni, sbr. 85. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

16. gr. Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til velferðarráðuneytis innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

17. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað refsingu skv. 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

18. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í 3. mgr. 3. gr., 2. mgr. 14. gr., 34. gr., 38. gr., 47. gr., 48. gr., 49. gr., 50. gr., 63. gr. f, 65. gr., 65. gr. a, 66. gr., 78. gr., 79. gr. og 80. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Reglugerð þessi öðlast gildi 1. mars 2015. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 453/1991, um vélknúin leiktæki í skemmtigörðum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Reglugerð þessi gildir ekki um vélknúin leiktæki sem hafa við gildistöku hennar fengið fullgilda skoðun Vinnueftirlits ríkisins skv. reglum nr. 453/1991, um vélknúin leiktæki í skemmtigörðum, fyrr en gildistími þeirrar skoðunar rennur út. Þetta gildir þó ekki ef framkvæmdar eru meiriháttar breytingar á viðkomandi leiktæki, þar á meðal ef það er fært úr stað, áður en gildistími fyrri skoðunar Vinnueftirlits ríkisins skv. reglum nr. 453/1991, um vélknúin leiktæki í skemmtigörðum, rennur út.

Velferðarráðuneytinu, 2. febrúar 2015.

Eygló Harðardóttir,
félags- og húsnæðismálaráðherra.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.